14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3736)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið. Þau upplýsa talsvert um þetta mál, þó að allar upplýsingar séu nú að sjálfsögðu ekki veittar. En ég vil í tilefni af þessu segja það, að mér finnst, að þegar um slíkt stórmál er að ræða eins og það, sem hér um ræðir, þá væri ástæða til þess af hæstv. ríkisstj. að gefa Alþingi kost á því að fylgjast með gangi málsins, þannig að nefnd þm. gæti fengið að fylgjast með málinu frá upphafi. En nú skilst mér, að eins og málið stendur, þá hafi aðeins n. á vegum ríkisstj. sjálfrar, sem hún hefur kvatt til, með allan undirbúning þessa máls að gera, því að það er vitanlega ekkert smáræðismál, sem það er í sjálfu sér fyrir íslenzka þjóðarbúið að ræða um það að koma hér upp alúminíumveri, sem mundi kosta nokkuð á annan milljarð íslenzka króna, og einnig að byggja hér raforkuver fyrir þetta alúminíumver, sem mundi kosta svipaða upphæð. Slíkt varðar svo mikið allan okkar þjóðarbúskap, að til þess væri full ástæða, að ríkisstj. hefði samráð við Alþingi á öllum undirbúningsstigum málsins eða áður en að því kemur að taka beinar ákvarðanir. Ég vil þess vegna vænta, að hæstv. ríkisstj. taki það til athugunar, hvort hún sér sér ekki fært að gefa þinginu kost á því að fylgjast á beinan hátt með öllum undirbúningi þessa máls.