14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (3737)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins til þess að segja, að ég mundi fyrir mitt leyti vilja styðja það, sem hv. 4. þm. Austf. minntist á, að fara þess á leit við hæstv. ríkisstj., að hún athugaði, hvort hún teldi ekki rétt, að Alþingi fylgdist með í þessu máli og fulltrúar t.d. frá þingflokkunum, áður en það kæmist á lokastig. Ég get vel skilið, að það þurfi að fara fram ýmsar undirbúningsathuganir, eins og hæstv. ráðherra tók fram. En þegar það nálgaðist, að þetta mál kæmist á ákvörðunarstig, kæmist á það stig t.d., að farið væri að ganga t.d. frá uppkasti að samningum eða einhverju slíku við erlendan aðila um að koma á fót svona stórum rekstri, þá mundi ég telja, að það væri nauðsynlegt og í alla staði mjög vel við eigandi, að fulltrúar frá þingflokkunum fylgdust með. Hér er um mjög merkilegt ,.prinsip“-mál að ræða. Ef slíkur samningur yrði gerður, þá væri þar komið sjálfsagt eins konar fordæmi fyrir því, hvernig hugsanlegt væri að ganga frá samvinnu Íslendinga og útlendinga um stórrekstur.

Hér er því alla vega um mjög mikið nýmæli að ræða og mjög þýðingarmikið mál, og vildi ég taka undir og beina því til hæstv. ríkisstj. að athuga þessa tillögu um meðferð málsins.