21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 729 í D-deild Alþingistíðinda. (3749)

306. mál, gjald af innflutnings- og gjaldeyrisleyfum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. fyrirspyrjandi gat um, er hann mælti fyrir fsp. sinni, er í gildandi gjaldeyrislögum heimild til þess að innheimta allt að 1% gjald af gjaldeyris- og innflutningsleyfum. Í reglur gerð, sem gefin var út um skipun gjaldeyrismála o.fl. 27. maí 1960, var svo ákveðið, að innheimta skuli 1/2% gjald af þeirri fjárhæð, sem gjaldeyris- og innflutningsleyfi hljóðar upp á, en þó aldrei minna en 10 kr. fyrir hvert einstakt leyfi. Þó er ekki greitt gjald af leyfum fyrir vörukaupum í jafnkeypislöndum. Þetta leyfisgjald greiðist við afhendingu leyfanna.

Samkv. þessu ákvæði gildandi reglugerðar hafa Landsbanki Íslands og Útvegsbanki Íslands innheimt árið 1961 leyfisgjöld að upphæð 4187 564 kr. Þessum tekjum hefur verið ráðstafað þannig, að greiddar hafa verið í ríkissjóð 2 millj. kr. til að standa straum af verðlagseftirliti, svo sem gert er ráð fyrir í lögmnum, sem hv. þm. vitnaði til, en 1120197.12 kr. voru árið 1961 notaðar til rekstrar þeirrar deildar, sem annast afgreiðslu gjaldeyrisumsókna, útgáfu gjaldeyris og innflutningsleyfa, skýrslugerðir og ýmis önnur störf varðandi gjaldeyrismál hjá gjaldeyrisbönkunum.

Í þessu sambandi tel ég rétt að benda á, að kostnaður við innflutningsskrifstofuna árið 1959, þ.e.a.s. síðasta heila starfsár hennar, nam 4 366 000 kr., en gera má ráð fyrir, að það samsvari rúmlega 5 millj. kr., miðað við núgildandi kaupgjald og verðlag á rekstrarvörum á skrifstofum. Tekjur innflutningsskrifstofunnar árið 1959 voru 8 069 000 kr., en þess er að gæta, að þá var leyfisgjaldið 1% af upphæð leyfa og tekið af öllum leyfum, en ekki 1/2%, svo sem nú á sér stað, auk þess sem gjald af leyfum fyrir vörum í jafnkeypislöndum er ekkert, svo sem ég gat um áðan.

Mér þykir vænt um að hafa fengið þetta tækifæri til þess að upplýsa það, sem ekki hefur verið skýrt frá opinberlega áður, að kostnaður gjaldeyrisdeilda bankanna við útgáfu leyfa og annað, sem henni er nátengt, reyndist á árinu 1961 nema aðeins 2.1 millj. kr., en kostnaður við slik störf árið 1959 nam 4.4 millj. kr. og mundi, ef hliðsjón er höfð af kauplagsbreytingum og rekstrarkostnaðarbreytingum, nema rúml. 5 millj. kr. í dag, þannig að sá sparnaður, sá beini sparnaður, sem siglt hefur í kjölfar þeirrar endurskipulagningar á gjaldeyris- og innflutningsmálum, sem gerð var á miðju ári 1960, nemur um 2.9 millj. kr. Jafnhliða hefur það gjald, sem innheimt hefur verið af innflytjendum í sambandi við leyfaútgáfu og leggst á vörur þær sem á markaðnum eru, lækkað úr 8.1 millj. niður í 4.2 millj., þ.e.a.s. það hefur verið um að ræða lækkun á gjaldi, sem innheimt hefur verið af innflytjendum og má reikna með í verðlagi vöru, um 3.9 millj, kr., og hefur þessa að sjálfsögðu gætt með tilsvarandi hætti í verðlagi. Ástæða þess, að gjald, sem innheimt hefur verið í vöruverði og leggst á verðlag, hefur lækkað um 3.9 milli., en sparnaðurinn numið 2.9 millj., er sú, að ríkissjóður hefur misst tekjur sem þessu svarar, en ríkissjóður fékk mismuninn á því leyfisgjaldi, sem innflutningsskrifstofan innheimti, og þeim kostnaði, sem hún varð að standa straum af.

Að því er snertir kostnaðinn við verðlagseftirlit, sem einnig er greiddur af þessu leyfisgjaldi, er það að segja, að hann nam 1959 2 230 000 kr., en á s.l. ári nam þessi kostnaður 2 605 000 kr., og er hér um að ræða hækkun, sem samsvarar almennri hækkun á launagreiðslum og öðrum kostnaði, er orðið hefur á þessu tímabili, en um fjölgun starfsmanna við verðlagseftirlit hefur ekki verið að ræða.