28.03.1962
Sameinað þing: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 732 í D-deild Alþingistíðinda. (3755)

193. mál, lausn verkfræðingadeilunnar

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. á þskj. 435 er í fjórum liðum, eins og hv. þm. munu sjá, og er sérstaklega spurt um fjórar ríkisstofnanir, hvernig ástatt er hjá þeim vegna þeirrar deilu, sem uppi hefur verið við verkfræðingana. Ég tel, að þessum fsp. verði bezt svarað með því að lesa upp svör viðkomandi stofnana, bréf frá forstöðumönnum þeirra. Og ég hygg, að svörin séu nokkuð tæmandi, sem þar koma fram. Vegamálastjóri skrifar:

Liður 1: Hefur vegagerð ríkisins tekizt að ráða nógu marga verkfræðinga í þjónustu sína eftir lausn verkfræðingadeilunnar, til þess að hægt sé fullkomlega að anna tæknilegum undirbúningi áformaðra verklegra framkvæmda á vegum vegagerðarinnar?

Svar: Spurningunni er hægt að svara neitandi. Í fyrsta lagi er verkfræðingadeilan ekki leyst, þó að verkfalli verkfræðinga hafi verið aflýst. Verkfræðingar hafa ekki fengizt til að fastráða sig hjá vegagerðinni fyrir þau launakjör, sem boðin eru, en vegagerðinni er ekki heimilað að ráða til sín verkfræðinga á þeim kjörum, sem þeir krefjast. Í öðru lagi voru hjá vegagerð ríkisins fyrir verkfall starfandi, auk vegamálastjóra og yfirverkfræðings, 5 verkfræðingar, sem ráðnir voru samkv. ráðningarsamningum Stéttarfélags verkfræðinga. Heimilt hefur verið um nokkurra ára skeið að ráða 7 verkfræðinga á þessum kjörum, en sökum almenns skorts á verkfræðingum hefur eigi tekizt að fá þann fjölda verkfræðinga til starfa þrátt fyrir brýn og aðkallandi verkefni. Eftir að verkfalli verkfræðinga var aflýst, hefur aðeins tekizt að ráða 3 verkfræðinga til vegagerðarinnar og þá aðeins til lausnar fastákveðinna, takmarkaðra verkefna á ákvæðisvinnugrundvelli. Þessir þrír menn geta aðeins leyst brýnustu verkefni við þær framkvæmdir, sem vinna á í ár, og mun þess vegna vera hægt að framkvæma í ár það, sem fyrirhugað er, en nauðsynlegur undirbúningur undir framkvæmdir næsta árs, það er óséð, hvernig með það tekst, nema þá að hægt sé að gera viðtækari nýja samninga í ákvæðisvinnu til lausnar því, svo sem gert hefur verið.

Þá er önnur spurning: Hve margir fastráðnir verkfræðingar eru í þjónustu vegagerðar ríkisins nú?

Svar: Tveir verkfræðingar, vegamálastjóri og yfirverkfræðingur.

Þriðja spurning: Hver eru launakjör fastráðinna verkfræðinga?

Svar: Vegamálastjóri tekur laun samkv. III. flokki launalaga. Núv. mánaðarlaun eru 9475.73 kr. Yfirverkfræðingur tekur laun samkv. IV. flokki launalaga, núverandi mánaðarlaun kr. 8755.29.

Fjórða spurning: Hve margir verkfræðingar voru í þjónustu vegagerðar ríkisins fyrir verkfall verkfræðinga?

Það var nú reyndar áður búið að segja, en svarið er: Auk vegamálastjóra og yfirverkfræðings voru starfandi fimm verkfræðingar, sem ráðnir voru samkv. samningum Stéttarfélags verkfræðinga.

Ég hygg, að þetta svar vegamálastjóra sé tæmandi varðandi þá stofnun.

Þá kemur svar raforkumálastjóra:

Með vísun til viðtals við ráðuneytisstjóra um fsp. Hannibals Valdimarssonar á Alþingi um lausn verkfræðingadeilunnar og verkfræðingaþörf ríkisins og ríkisstofnana, leyfi ég mér að svara fsp. þannig, að því er tekur til raforkumálaskrifstofunnar:

Það er fyrsta spurning, en hún er: Hefur ríkisstofnuninni tekizt að ráða nægilega marga verkfræðinga til þess að vinna nauðsynleg störf? Svarið við því er nei.

Önnur spurning: Hve margir fastráðnir verkfræðingar eru í þjónustu þessarar stofnunar? Svarið er: 4.

Og þriðja spurning: Hver eru launakjör hvers um sig? Jakob Gíslason raforkumálastjóri laun 9476 kr. á mánuði. Eiríkur Briem rafmagnsveituveitustjóri 8755 á mánuði. Guðmundur Marteinsson rafmagnseftirlitsmaður 8090 kr. á mánuði. Eðvarð Árnason deildarverkfræðingur 9513 á mánuði. Í launum Eðvarðs er innifalin föst yfirvinna, sem hann hefur lengi haft, 1391 kr. á mánuði.

Þá er það fjórða spurning: Hve margir verkfræðingar voru í þjónustu þessarar stofnunar hverrar um sig fyrir verkfall? Í þjónustu hjá raforkumálastjóra voru 19 verkfræðingar, þar af 17 á föstum launum. áður en verkfræðingaverkfallið hófst, auk þeirra, sem taldir eru hér að ofan. Til viðbótar má geta þess, þótt ekki sé um það spurt, að síðustu mánuði hafa ýmsir verkfræðingar unnið fyrir okkur einstök verk í ákvæðisvinnu. Og þess skal getið, að þrátt fyrir hinn mikla verkfræðingaskort er ekki útlit fyrir annað en að unnt verði að vinna samkvæmt áætlun að framkvæmdum á þessu ári.

Þá er landssíminn. Skrifstofustjóri landssímans svarar á þessa leið:

Það er fyrsta spurning: Hefur ríkisstofnuninni tekizt að ráða nægilega marga verkfræðinga í þjónustu sína? Því svarar stofnunin neitandi.

Og önnur spurning: Hve margir fastráðnir verkfræðingar eru nú í þjónustu landssímans.? Svarið er: 2 verkfræðingar.

Og þriðja spurning: Hver eru launakjör þeirra hvers um sig? Svarið er: Samkvæmt launalögum, þ.e. í V. og IV. launaflokki.

Og fjórða spurning: Hve margir verkfræðingar voru í þjónustu þessarar stofnunar, áður en verkfræðingaverkfallið hófst? Svarið er: 8.

Og svo er það vitamálastjóri. Hann hefur einnig svarað, eins og hér segir:

Á undanförnum árum hefur verið stöðugur skortur á tæknimenntuðum mönnum við stofnunina, þótt þar hafi verið starfandi 5–6 verkfræðingar. Fleiri hafa ekki verið fáanlegir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Í upphafi verkfalls Stéttarfélags verkfræðinga hættu 3 þeirra störfum, og hafa því aðeins 2 verið starfandi og þar af annar mikill sjúklingur. Síðan verkfallinu lauk, hefur verið reynt að ná samkomulagi við verkfræðingana, en ekki tekizt. Tveir þeirra eru þó í þennan mund að hefja störf í ákvæðisvinnu við sérstök verkefni, en um fastráðningu er ekki að ræða. Er því að sjálfsögðu mikil þörf fyrir fleiri verkfræðinga til starfa nú, þar sem mikil og aðkallandi verkefni liggja fyrir. En nokkuð hefur það bætt aðstöðu stofnunarinnar, að á seinustu tveim árum hefur verið mikið unnið að 10 ára áætlun um hafnargerðir og því til nokkru gleggra heildaryfirlit yfir væntanlegar framkvæmdir en ella, en að sjálfsögðu er eftir að vinna mikið úr þeim gögnum. 10 ára áætlunin var að miklu leyti unnin í aukavinnu, og kom því sú vinna ekki sem beint álag á verkfræðinga stofnunarinnar, auk þess sem einn maður var ráðinn til þeirra verka sérstaklega. Með því vinnuafli, sem mér hefur tekizt að ná samkomulagi við, vona ég, að hægt verði að sinna þeim verkefnum, sem fyrir liggja, á svipaðan hátt og á undanförnum árum, þrátt fyrir verkfræðingafæðina. Hinir tveir gömlu fastráðnu verkfræðingar vinna samkv. gömlu ráðningarsamningunum, er giltu fyrir verkfall Stéttarfélags verkfræðinga, enda sögðu þeir aldrei upp starfi og þess ekki krafizt af stéttarfélaginu, að þeir legðu niður störf.

Ég hygg, að þessi svör forstöðumanna þessara ríkisstofnana, sem sérstaklega er spurt um, svari því, sem spurt hefur verið um, og er þess vegna ekki ástæða til þess að fara nánar út í það. Ég geri ráð fyrir, að hv. þingmenn viti, að verkfræðingum var boðin kauphækkun, 13.8%, eins og öðrum, en þeir vildu ekki ganga að því. Þeim var enn fremur boðið það, að þeir gætu hækkað að fullu eftir 4 ára starf í staðinn fyrir 10 ára starf áður, og gilti þetta sem mikil hækkun fyrir þá yngri, fyrir byrjendur. En verkfræðingar létu sér þetta ekki nægja, og þess vegna hafa samningar ekki tekizt, og veldur það vitanlega talsverðum erfiðleikum, en þó ekki meiri en svo, að unnt verður á þessu ári a.m.k. að vinna áfram eftir þeim áætlunum, sem gerðar hafa verið.