18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

1. mál, fjárlög 1962

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um framlög til vega, brúa og hafna og annarra slíkra hluta í þessum umr. Og hefur því verið haldið fram af hálfu ríkisstj., að til þessara hluta sé nú varið verulega hærri upphæðum en áður, m.a. heldur en var 1958. Meira að segja hafa verið lesnar upp nokkrar tölur, sem óneitanlega eru dálítið hærri nú en voru 1958. En sú ónákvæmni er í þeim málflutningi, að tölurnar þýða ekki það sama nú og var fyrir þremur árum. Það mætti reyndar segja, að þarna væri verið að bera saman einnar krónu peninga við tveggja krónu peninga, sem þá voru lagðir í þessar framkvæmdir. Og það er óneitanlega betra að fá stóru peningana, eins og þeir voru þó þá, heldur en litlu peningana núna þó að upphæðin sé eitthvað ofur lítið hærri. Ég held, að það sé vægast sagt auglýsing, nokkurs konar jólaauglýsing, að bera þannig saman misstóra peninga. En þó er skylt að gera sér grein fyrir því, hvort fjárveitingar í þessar framkvæmdir eru meiri, eru svipaðar eða eru minni en þær voru t.d. 1958. Ég held, að þetta verði varla betur séð með öðru en því að bera fjárhæðirnar saman við heildarútgjöld fjárlaga hvert ár. En þá verður að sjálfsögðu að taka tillit til þess, að 1958 voru greiddar verulegar upphæðir úr útflutningssjóði til þeirra hluta, sem nú er greitt til úr ríkissjóði. Bæði árin 1958 og 1959 var það svo. Vilji maður fá samanburð á þessu, þarf að bæta þeim upphæðum við fjárlagaupphæðina á þessum árum til þess að fá réttan samanburð. Ég tel, að líka þurfi að taka með í þennan samanburð þær upphæðir, sem koma í vegi og brýr af benzínskatti, þó að þær upphæðir séu ekki innifaldar í fjárlagaupphæðum hvers árs, vegna þess að það eru óneitanlega framlög til þessara framkvæmda, en bæta bara við fjárlagaupphæðirnar því, sem benzínskatturinn gefur. Með þetta í huga hef ég gert nokkurn samanburð á fjárveitingum, þ.e.a.s. til nýbygginga aðeins, til nýbygginga vega, brúa og hafna annars vegar 1958, hins vegar eins og nú er ætlazt til með því frv., sem hér liggur fyrir.

1958 námu þessar fjárveitingar 5.27% af útgjöldum fjári., þegar reiknað er með þessum hætti, eins og ég hef nefnt. Ef sambærileg framlög væru nú fyrir árið 1962 5.27% af útgjöldum fjárl., ættu þessar fjárveitingar að vera tæpar 92 millj. En þær eru bara ekki nema rúmar 62 millj. Það vantar 29.4 millj. upp á það, að fjárveitingar samkv. þessu frv. séu jafnháar og þær voru 1958, miðað við útgjöld fjárlaga og útflutningssjóðs bæði árin. Á þessa hliðina hefur þetta sigið þessi þrjú undanfarin ár og virðist eiga að gera á komandi ári.

1959 virðist mér, eftir þessum reikningi, að fjárveitingar í þessar framkvæmdir hefðu þurft að vera 8.6 millj. hærri en þær voru til að jafnast við 1958. 1960 hefðu þær þurft að vera 17.7 millj. hærri en þær voru þá. 1961 hefðu þessar fjárveitingar þurft að vera um 21.8 millj. kr. hærri en þær voru í fjárlögum. Og eins og ég nefndi, í þessu fjárlagafrv. þyrftu þær að vera 29.4 millj. kr. hærri en þær eru.

Þetta held ég að sé nokkurn veginn hlutlaus og rétt mynd af því, hvort fjárveitingar til nýbygginga vega, brúa og hafna séu hærri eða lægri en þær voru 1958. Á þessum þremur árum, sem liðin eru síðan, og að meðtöldu því ári, sem hér er verið að gera áætlun fyrir, á fjórum árum, skortir því 77½ millj. kr. til þess, að fjárveitingar til þessara framkvæmda séu hliðstæðar því, sem þær voru 1958. Ég býst við, að þetta fari ekki á milli mála, ef hlutlaust er á þetta litið.

Það mundi ekki vera nein ósanngirni, þótt þm. flytji nokkrar hækkunartillögur til vega, brúa og hafna við þessa umr., og það hef ég leyft mér að gera ásamt hv. 2. þm. Vestf., en svipað þessu er um margt fleira, og skal ég ekki fara frekar út í það.

Fyrsta till., sem við flytjum og er á þskj. 248, er um nokkra vegi. Það er í fyrsta lagi Gufudalsvegur, nýr liður, 100 þús. kr. Fyrir tveimur árum var opnuð leiðin til Ísafjarðar frá Reykjavík. Þá komst á vegasamband yfir Dynjandisheiði. Um leið og þessi vegur opnaðist, margfaldaðist umferðin vestur Barðastrandarsýslu norður í Vestur-Ísafjarðarsýslu til Ísafjarðar og þ. á m. um þennan veg, Gufudalsveg. En sama árið og umferðin um veginn jókst svona var felld niður fjárveiting til hans með öllu, að undanteknum 10 þús. kr., sem áttu að ganga upp í skuld. Í fyrra var enginn eyrir til þessa vegar, og á þessu frv. er enginn eyrir til hans. Aftur á móti var á árinu 1958 90 þús. kr. fjárveiting til þessa vegar, en það mundi samsvara 180–200 þús. kr. fjárveitingu með núverandi peningum. Það skýtur mjög skökku við þarna. Það er þó ekki fyrir það, að þessum vegi sé lokið, að hætt er að veita í hann fé, þvert á móti eru langir kaflar á þessum vegi mjög lélegir bráðabirgðavegir, og það er aðkallandi að ljúka þeim köflum. Ég vænti þess, að það sé full sanngirni, sem mælir með því að veita þessar 100 þús. kr. í þennan veg.

Annar liður í þessum till. frá okkur er til Bæjar- og Svínanesvegar, sama upphæð, 100 þús. kr., en það er ekki ætlazt til, að það fari neinn peningur í þann veg skv. frv. þessum vegi er verið að ljúka. Þetta er síðasti áfangi milli Kirkjubóls og Bæjar á Bæjarnesi, sem er hálfgerður núna, og ég ætla, að honum mundi ljúka eða mjög nálægt því, ef hann fengi þessa fjárveitingu. Því er þetta lagt til.

Þriðja till., sem við flytjum á þessu sama þskj., er Tálknafjarðarvegur, nýr liður, 100 þús. kr. Þannig stendur á, að Tálknafjarðarvegur liggur út með Tálknafirði að norðanverðu, þ. á m. yfir Sveinseyri, en vegurinn þar liggur fyrir neðan bakkana, fyrir neðan túnið, fjöruna, og þessi vegur verður ófær, bæði af snjóum og sjógangi, á hverju hausti, og er ónothæfur allan veturinn. Hreppsbúar, sem búa fyrir utan Sveinseyri, hafa því ekki getað notað þennan vegarkafla og hafa engin úrræði haft önnur en að fara yfir túnið á Sveinseyri, — fara yfir túnið, sem enginn vegur liggur yfir. Bóndinn þar hefur verið hið mesta lipurmenni og leyft þeim þetta fram að þessu. Nú hugsar hann sér að taka þarna allvæna spildu úr túninu til nýræktar. En ef hann gerir það, þá fara sveitungar hans ekki yfir túnið lengur. Og hvernig fer þá. Það er af þessum ástæðum, sem við leggjum til, að þessi litla upphæð verði veitt í þennan veg, það er að mæta þörfum Tálknfirðinga, þeirra sem búa utan Sveinseyrar, svo að þeir þurfi ekki lengur að aka yfir túnið hjá nábúa sínum.

Fjórða till., sem við flytjum, er um 100 þús. kr. fjárveitingu í Ketildalaveg. Það er vegurinn frá Bíldudal út í Selárdal. Það mun hafa verið 1960, sem fjárveiting í þennan veg var allt í einu lækkuð um hér um bil helming og 1961 felld niður, ekki eyrir í veginn. Og það er hálfgerð raunasaga, hvernig gengið hefur til um fjárveitingar í vegi handa Arnfirðingum. Það eru þrír vegir í þessum sveitum, sem þeir þurfa sérstaklega að bera fyrir brjósti. Það er Hálfdán, það er þessi Ketildalavegur, og það er Suðurfjarðavegur. Á fjárl. yfirstandandi árs var enginn eyrir á fjárlögum í neinn af þessum vegum. Og sama árið og felldar voru niður fjárveitingar í vegi Arnfirðinga, féllu niður flugferðir þangað, svo að þeir hafa ekki flugsamgöngur lengur. Það er allt á sömu bókina lært hjá þessari byggð hvað snertir að eiga undir fjárveitingavaldinu.

Við flytjum líka till. um, að tekinn verði upp nýr liður, í Suðurfjarðaveg, 300 þús. kr., en það er sá vegur, sem þeir heimamenn leggja mesta áherzlu á. Og ég held, að þeir leggi meiri áherzlu á að fá veginn frá Trostansfirði upp á Dynjandisheiði, upp á hinn nýja Vestfjarðaveg, heldur en menn yfirleitt leggja á það að fá vegi, því að það kemur fram í því, að Bílddælingar hafa sent hv. 1. þm. Vestf. skjal mikið. Þetta skjal er undirskrifað af 127 Bílddælingum, þar sem hann er beðinn að beita sér fyrir því, að rífleg fjárveiting fáist í Suðurfjarðaveg, svo að þeir komist í samband við veginn á Dynjandisheiði. En það er meira í þessu bréfi. Það er það, að nokkrir Bílddælingar bjóðast til þess að leggja fram óafturkræft framlag, 50 þús. kr., í þennan veg, ef það fáist í hann fjárveiting. Svo brennandi áhugamál er það þeim að fá þennan veg, að þeir bjóðast til að leggja fram tugi þúsunda úr eigin vasa, til þess að ríkið leggi eitthvað fram í veginn. Ég held, að það þurfi ekki að tala frekar fyrir þessari till. en á þennan hátt, sem Bílddælingar gera sjálfir. Mér þykir ótrúlegt, að hv. þm. taki því ekki vel, sem þarna er boðið fram af hálfu Bílddælinga, en það kemur brátt í ljós.

Næsta till. okkar er framlag í Ísafjarðarveg. Það er nýr liður, 300 þús. kr. En Ísafjarðarvegur heitir vegurinn úr Dýrafirði til Ísafjarðar, þótt hann sé venjulega kallaður Vestfjarðavegur. Það er Breiðadalsheiði, sem er ætlazt til að þessi fjárveiting fari í, en Breiðadalsheiði er, eins og kunnugt er, einn af allra hæstu fjallgörðum þessa lands, sem þjóðvegur liggur yfir, mun vera um 610 m á hæð, þar sem vegurinn liggur. Þarna er mikil þörf á endurbótum og þó meira en á sjálfri háheiðinni, það eru einnig skógarbrekkurnar að vestanverðu. Svo mikil þörf er á þessu, að það þurfti að gera sérstakt átak um endurbætur á Skógarbrekkunum, til þess að áætlunarbifreiðar kæmust til Ísafjarðar, og verður varla hægt að una við það lengur, að hér komi ekki til einhver fjárveiting. En auk þess lokast þessi vegur í fyrstu snjóum, af því að hann er svo lágur, og meira en það, hann er niðurgrafinn á köflum á háheiðinni. En um þennan veg er mikil umferð, bæði sumar og vetur, ef vegurinn væri annars einhvern tíma fær að vetri til, en það er ekki nema rétt eftir að hann hefur verið mokaður. En hann gæti batnað mjög við það að veita, þótt ekki sé ýkjahárri, upphæð í hann. Þá mundi hann ekki lokast svo fljótt af snjóum, ef hægt væri að ýta honum eitthvað upp á háheiðinni. Það er eins og kunnugt er, að samskipti eru orðin mjög mikil af öllum Vestfjörðum við Ísafjörð og fara vaxandi, og það kemur sér sannarlega illa, að þessi vegur skuli vera lokaður allan veturinn.

Þá flytjum við á þessu þskj. till. um 200 þús. kr. til Fjarðavegar. Till. var flutt við 2. umr. um fjárveitingu í þennan veg, 250 þús. kr., og var hún felld. Var þá skýrt frá því, hversu mikil nauðsyn væri á að koma þessum vegi áfram, sérstaklega inn í Seyðisfjörð og Hestfjörð. En það er engin fjárveiting til vegarins í frv. Þarf ég ekki að endurtaka það, sem þá var sagt um þennan veg, en það má líta á þetta sem varatillögu, þar sem hún er 50 þús. kr. lægri en flutt var við 2. umr. Þarna er ekki um neinn veg að ræða, eftir að kemur inn fyrir Álftafjarðarbotninn, eða rúmlega það, og þarf því alfarið að leggja þennan veg að nýju. Fólkið, sem býr í fjörðunum þar fyrir innan, hefur ekkert af neinum vegi að segja.

Næsta till. okkar er um hækkun á fjárveitingu til Reykjarfjarðarvegar á Ströndum úr 500 þús. kr. í 600 þús. Þarna vantar mikið átak, til þess að unnt sé að tengja Árneshrepp við þjóðvegakerfi landsins. Þar er löng leið á milli og kostar mikið fé. En hitt getum við ekki sætt okkur við, að fjárveitingin sé lækkuð frá í fyrra til þessa vegar, svo mikil sem þörfin er, því að þá var samtals fjárveiting 540 þús., en er í frv. ekki nema 500. Við leggjum því til, að hún hækki upp í 600, og er varla hægt að flytja till, um minni hækkun en þetta, ekki sízt þegar á í hlut vegur, sem þarf svo mikið til eins og er um þennan veg.

Þá flytjum við einnig till. um, að Strandavegur hækki úr 400 þús. í 500 þús. kr. Á þessum vegi eru tveir kaflar, sem er mjög aðkallandi að gera betri en þeir eru. Í Hólmavíkurhreppi, skammt fyrir sunnan Hólmavík, lokast vegurinn af snjóum mjög snemma, og eru mjög háværar óskir um það að fá gerðan betri veg á þeim kafla, en auk þess er í Bæjarhreppnum annar kafli og sízt betri, sem þarf að leggja áherzlu á að verði lagfærður. Þetta er lítilfjörleg hækkun, en munar þó um það og gæti kannske orðið að meira gagni að verja henni á einn stað en tvo, og skal ég ekkert segja um það, hvað verður gert í því efni, en ekki þarf að efast um þörfina þarna.

Um vegi höfum við ekki fleiri till. að flytja. Þá flytjum við till. um ferjubryggjur. Það eru ekki ýkjaháar upphæðir í frv. um þá hluti. Það eru einar 80 þús. kr. í allar ferjubryggjur. Við leggjum til, að þessi upphæð hækki upp í 120 þús. kr. og þessi 40 þús. kr. hækkun gangi til Gemlufallsbryggju í Dýrafirði, en ferja gengur milli Gemlufalls og Þingeyrar alla vetur, þegar ófær er vegurinn inn fyrir Dýrafjörð. Meginsamgöngurnar við Þingeyri eru í þágu Núpsskóla, en þar er mikið fjölmenni, eins og kunnugt er. Þarf því stöðugt að vera þarna á ferðinni með ferjuna yfir fjörðinn, en bryggjan á Gemlufalli er að verða ónothæf til þess, að þessi ferja geti haldið uppi starfsemi sinni. Það er því till. okkar, að 40 þús. kr. gangi til þessarar bryggju og hækki fjárveitingin sem því nemur.

Þá leggjum við til, að til Drangsnesbryggju verði varið 200 þús. kr. Þessa bryggju þarf að lengja. Fiskiskip geta ekki lagzt upp að bryggjunni, eins og hún er, og er þetta því aðkallandi nauðsyn.

Við leggjum einnig til, að til Kaldrananesbryggju verði veittar 100 þús. kr. Hvort tveggja þetta eru nýir liðir, en þar er svo ástatt, að Breiðarnar, sem eru einu skipin, sem þangað koma, treysta sér ekki til þess að leggjast þar að, nema þá í allra blíðasta veðri. Það er óhjákvæmilegt að gera þarna bryggjuhaus, svo að skip geti lagzt þar að, og er því þessi till. flutt.

Ég kem þá að flugvöllunum. Flugvellir er mál, sem Vestfirðingar láta sig miklu skipta, eftir að hafa tapað flugsamgöngum eins og raun ber vitni um, allir nema Ísfirðingar. Á Vestfjörðum eru víða sjúkraflugvellir, en stærstur þeirra er flugvöllurinn á Hólmavík, og er ekki nema herzlumunur að gera hann það langan, að Dakotaflugvélar geti notað hann. Ef það yrði, þá gætu Hólmvíkingar fengið áætlunarferðir með líkum hætti og Ísfirðingar. Það er mjög sennilegt, að þessi fjárveiting geti dugað til þess að lengja flugvöllinn um það, sem á vantar til þess, að hann nái tilskilinni lengd. Þess vegna leggjum við til, að 400 þús. kr. séu veittar til þessa flugvallar.

Þá leggjum við til, að til flugvallar í Patreksfirði komi byrjunarfjárveiting 300 þús. kr. Í Patreksfirði er engin flugbraut, hvorki stór né lítil, og engin flugbraut í nágrannasveitum, sem Patreksfirðingar geta haft samband við að vetri til, svo að öruggt megi teljast. Næstu sjúkraflugvellir við Patreksfjörð eru í Hrísnesi á Barðaströnd og á Rauðasandi, en á báða þessa staði er oft ófært, sérstaklega er ófært á Barðaströnd vegna snjóa alla vetur á Kleifaheiði, og svipað, þótt betra sé, má segja um Skersfjall, þó að nota ætti sjúkraflugvöll á Rauðasandi. En þegar á þetta er litið, þá sjá menn, að Patreksfirðingar og nærsveitir Patreksfjarðar búa þarna við verri skilyrði, þegar á liggur, heldur en flest eða a.m.k. mörg önnur byggðarlög landsins. Það er neyðzt til þess að fá sjúkraflugvél til þess að lenda í fjöru einhvers staðar, þegar á liggur, en menn geta gert sér í hugarlund, hversu mikið öryggi er í því. En fyrir utan það, þá er aðkallandi þörf að koma upp venjulegum flugvelli fyrir áætlunarflug sem allra næst Patreksfjarðarkauptúni, en þar búa um 900–1000 manns. Það er ekki gert ráð fyrir, að unnt sé að koma flugvelli annars staðar en í svokölluðum Sandodda skammt frá Sauðlauksdal, en þar er nægilegt landrými til þess. Ég hygg, að flugmálastjórnin hafi á sínum tíma gert áætlun um flugvelli á Vestfjörðum fyrir venjulegt áætlunarflug, og þá hefur Patreksfjörður verið einn af þeim stöðum, en þar hefur ekkert verið aðhafzt. Því er það, sem við flytjum þessa till. um fyrstu fjárveitingu, byrjun á flugvelli, sem auðvitað gæti og verið aðeins sjúkraflugvöllur, meðan stutt er komið áleiðis með hann, en byggður frá upphafi með það fyrir augum, að það verði venjulegur flugvöllur til nota fyrir áætlunarflug.

Þá flytjum við tillögu um hækkun á fjárveitingu til viðhaldskostnaðar Núpsskóla. Ég ætla, að fyrir fjvn. hafi legið erindi frá skólanefndinni um það, hversu miklar endurbætur þurfi að gera á þessum skóla. Til þess þarf ríkisfé og miklu meira en við gerum hér tillögur um. M.a. mun vera álitið af húsameistara ríkisins, að það þurfi að setja algerlega nýtt þak á skólann. Ég þarf varla að fjölyrða um það, að þörf er á þessari fjárveitingu, og er þetta þó ekki nema smávægilegt, 300 þús. kr. hækkun frá því, sem er í frv.

Síðasta till. okkar á þskj. 248 er við 22. gr. fjárlaga, að ríkisstj. skuli heimilast að ábyrgjast allt að 4 millj. kr. lán fyrir flugfélög eða einstaklinga, gegn þeim tryggingum, er ríkisstj. metur gildar, til að kaupa hentuga flugvél, er tæki upp áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestfjarða. Fyrir allmörgum árum lagðist flug niður við Vestfirði, eins og ég sagði áðan, þegar sjóflugvélarnar, Katalínubátarnir, voru ekki lengur flughæfar. Þá misstu allir Vestfirðingar flugsamgöngur. En nú nýlega hafa þó Ísfirðingar hlotið flugsamgöngur á ný, með hinum nýja flugvelli, sem þar er nú orðinn nothæfur. Eins og öllum er ljóst, fullnægir ekki Ísafjarðarflugvöllur öllum Vestfjörðum, og mun enginn hafa látið sér detta það í hug. Á undanförnum þingum hafa verið samþykktar þáltill., sem miðuðu að því að greiða fyrir undirbúningi að flugsamgöngum við Vestfirði. Hefur ekki verið ágreiningur á Alþingi um Það, að nauðsyn bæri til þess að leita hinna beztu ráða til að bæta úr flugsamgöngum við þennan landshluta. Núverandi hæstv. ríkisstj. mun hafa skipað nefnd, sem hefur athugað þessi mál nokkuð. Hv. 1. þm. Vestf. á sæti í þeirri nefnd og skýrði okkur samþingismönnum sínum frá því hvað sú nefnd hefði gert. Í því máli er eitt og annað til athugunar hjá hæstv. ríkisstj. Hann gat þess m.a., að rætt hefði verið við Flugfélag Íslands um það, hvað hægt væri að gera í þessu efni, og mun hafa borið á góma, að kaupa þyrfti nýja flugvél, fremur litla, sem gæti notfært sér nokkra þeirra flugvalla, sem til eru á Vestfjörðum, og síðan yrði að fjölga flugvöllum í samræmi við þá flugvél, svo að flugsamgöngur gætu hafizt á ný á þeim stöðum, sem áður voru viðkomustaðir sjóflugvélanna. En hann gat þess, að væntanlega mundi Flugfélagið þurfa á ríkisábyrgð að halda til þess að kaupa slíka flugvél. Að vísu munu engar ákvarðanir hafa verið teknar í þessum efnum. En ef svo kynni að fara, að að þessu ráði yrði horfið, þá viljum við, að nú þegar sýni Alþingi vilja sinn í því að mæta þessum ráðstöfunum og hraða með því framkvæmdum, að Alþingi veiti ríkisstj. heimild til þess að ábyrgjast allt að 4 millj. kr. lán í þessu skyni. Flugvél, sem flytur t.d. 6 farþega eða í kringum það, er náttúrlega mjög lítil til þessara ráðstafana og getur varla talizt nema bráðabirgðaráðstöfun. Slík flugvél, ef ætti að kaupa hana nýja, mundi kosta, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, í kringum 120 þús. dollara, ef hún er keypt ný, eða rúml. 5 millj. kr. En það er oft hægt að fá slíkar flugvélar lítið notaðar, og þá er verðið jafnvel ekki nema helmingur af þessu. M.a. keypti Björn Pálsson sína ágætu flugvél notaða. Ég ætla, að hún hafi verið tveggja ára, og hún kostaði 48 þús. dollara, en hann keypti auk þess nýjan hreyfil í hana fyrir 12 þús. dollara. 60 þús. dollara kostaði hún með öllum sínum tækjum og áhöldum, sem með þurfti, eða um það bil helming þeirrar upphæðar, sem ný vél kostar. Nú er ég ekki að leggja til, að verið sé að kaupa notaðar vélar, síður en svo, þó að flestar flugvélar Íslendinga hafi upphaflega verið keyptar notaðar til landsins. En miðað við það, að keypt væri ný flugvél af þessari stærð og hún kostaði um 120 þús. dollara, þá ætti þessi upphæð, 4 millj., að duga fyrir 3/4 hlutum kaupverðsins, og ætla ég, að með því væri vel séð fyrir því, að Flugfélagið — eða ef einhverjir aðrir vildu ráðast í slíkar flugsamgöngur — gæti keypt slíka vél og rekið hana. Hinu er náttúrlega ekki að neita, að það er óálitlegt, ef einhver annar aðili ætti að fara að taka upp flug á þessa staði, sem minnstar tekjurnar gefa miðað við tilkostnaðinn, en Flugfélagið hefur flugferðir til Ísafjarðar, sem er auðvitað bezti staðurinn að fljúga til hvað snertir fjárhagsafkomu. Þess vegna er nauðsynlegt, að það sé á sömu hendi, flug til hinna stærri staða, sem gefur betri tekjur, og hinna, sem eru lakari fjárhagslega fyrir þá, sem fluginu halda uppi.

Ég vænti þess fastlega, að hv. þm. taki þessum tillögum vel og þær hljóti samþykki hv. Alþingis við þessa umræðu.