04.04.1962
Sameinað þing: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 738 í D-deild Alþingistíðinda. (3766)

308. mál, flutningur fólks frá Íslandi

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi gat um, var samþ. hér á Alþingi þáltill. 27. marz 1961, þess efnis, að stjórnin láti gera nákvæma skýrslu um brottflutning fólks frá Íslandi síðustu 10 árin og rannsaka eftir föngum ástæðurnar fyrir brottflutningnum, eins og segir í ályktuninni.

Í tilefni af þessu var hagstofunni skrifað, strax eftir að rn. hafði borizt þessi till., með bréfi, dags. 14. apríl 1961, og henni falið að afla þeirra upplýsinga, sem fram á er farið.

Þegar eftir því var grennslazt nú, hvað þessari athugun liði, fékk ég frá hagstofustjóra svo hljóðandi bréf, dags. 2. apríl 1962, sem ég vildi leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, — það er svo hljóðandi:

„Í tilefni af því, að fram er komin á Alþingi fyrirspurn um, hvað liði samningu skýrslu um brottflutning fólks frá Íslandi, sem hagstofan tók að sér að annast, sbr. bréf félmrn. til hennar, dags. 24. apríl 1961, skal eftirfarandi fram tekið:

Strax eftir móttöku nefnds bréfs ráðuneytisins var hafizt handa um söfnun upplýsinga til þessarar skýrslugerðar og um annan undirbúning hennar, og hefur verið unnið að henni siðan. Er þetta umfangsmikið verk, þar eð skýrslan tekur til margra ára, þ.e. 1953–1960, og mikill tími fer í að afla upplýsinga um ástæður hvers brottflutnings. En nú er samning skýrslunnar komin á lokastig, og má telja vist, að hún liggi fyrir fjölrituð fyrri hluta næsta mánaðar.“

Ég hafði haldið, að það hefði verið unnt að gefa um þetta sjálfa skýrsluna, en það reyndist því miður ókleift nú, en ef einhverjir hv. þm. kynnu að hafa áhuga á skýrslunni, þá verður hún fjölrituð, og verður hægt að fá hana í rn., þegar kemur fram yfir miðjan næsta mánuð.