11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í D-deild Alþingistíðinda. (3771)

208. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera svo hljóðandi fyrirspurn til hæstv. ríkisstj.: „Hvað veldur því, að jarðbor sá, sem ríkið keypti til jarðhitarannsókna á Norðurlandi, hefur enn ekki verið látinn taka til starfa? Hvenær má vænta þess, að jarðborinn verði tekinn í not, og hvar verður hann látinn hefja starf?“

Það er allmikill jarðhiti víðs vegar á Norðurlandi, og áhugi er þar mikill til að hagnýta þau verðmæti. Ég átti nokkurn þátt í því að koma inn í 22. gr. fjárlaga 1959 heimild handa ríkisstj. til, eins og þar er orðað, að kaupa í samráði við jarðhitadeild raforkumálaskrifstofunnar jarðbor, sem notaður verði til jarðhitarannsókna á Norðurlandi. Á aukaþinginu síðla sumars 1959 minnti ég á þessa heimild og lagði áherzlu á, að hraðað yrði borkaupunum. Árið eftir, 1960, voru settar á fjárlögin, 16. gr. þeirra, 2 millj. kr. til rekstrar jarðbors fyrir Norðurland. Hins vegar kom ekki borinn til landsins fyrr en í ársbyrjun 1961, og ekkert veit ég, hvað hefur orðið af 2 millj.; sem 1960 höfðu verið ætlaðar til að reka borinn. Og borinn hefur enn ekki verið fluttur til síns fyrirheitna lands, Norðurlands, og ég hef heyrt, að hann sé enn í innflutningsumbúðum sínum hér í Reykjavík, og mér er sagt, að það þurfi að taka hann hér upp og prófa hann, áður en hann verði fluttur norður, og geti það verk tekið tvo mánuði.

Hæstv. fjmrh. sagði í fjárlagaræðu 24. okt. 1960, með leyfi hæstv. forseta: „Jarðboranir eftir jarðhita eru meðal þeirra framkvæmda, sem halda verður áfram með fullum hraða, svo mikil eru þau verðmæti, sem í aukinni hitaorku liggja.“

Hinn 25, marz 1961 voru sett lög um jarðhitasjóð og jarðboranir ríkisins og í því sambandi gefin mjög áheyrileg fyrirheit um þessi mál.

Ég verð að segja, að mér finnst ekki vera hafður fullur hraði á, þegar Norðurlandsborinn liggur enn óhreyfður í innflutningsumbúðum sínum eftir meira en heilt ár. Borinn kvað hafa kostað 8 millj. kr. í innkaupi. Það er vafalaust kostnaðarsamt að reka þetta stórvirka tæki, en það er líka dýrt að láta það liggja ónotað. Fyrst og fremst eru rentulausar 8 millj. kr., og svo er drátturinn á því, að jarðhitinn hagnýtist. Að láta borinn liggja ónotaðan, þegar búið er að kaupa hann, er eins og að láta gott skip liggja í höfn, þegar góðar aflavonir eru.

Fyrir norðan eru mikil verkefni fyrir jarðborinn. Líklegt til árangurs er m.a. talið að bora eftir jarðhita hjá Húsavík, Akureyri, Dalvík, Ólafsfirði, Siglufirði, Sauðárkróki. Að því er snertir Ólafsfjörð og Sauðárkrók, er um viðbótarvatnsleit að ræða.

Þetta eru þéttbýlustu staðirnir, sem ég hef nú nefnt, en svo er Námafjall við Mývatn. Þar er, eins og allir vita, mikill jarðhiti og mikil og verðmæt jarðefni í gufum, sem fást með borunum. Og verði nú leirinn — kísilgúrinn — unninn úr Mývatni, eins og vonir standa til að bráðum verði, þarf hið fyrsta að bora eftir jarðhita í Námaskarði.

Á Húsavík er talið hér um bil öruggt, að heitt vatn fáist með þessum bor, svo að segja rétt hjá bænum. Þar eru nú um 1600 manns, og fjölgar ört íbúum bæjarins. Húsvíkingar áttu von eftir viðtölum við ráðamenn Norðurlandsborsins, að byrjað yrði að bora þar s.1. sumar, en það brást. Hins vegar hefur bærinn kostað til undirbúnings með kaupum á efni í vatnslögn að borstaðnum o.fl., og er mér sagt, að sá útlagði kostnaður sé orðinn 250 þús. kr.

Ég spyr fyrst og fremst vegna Húsavíkur, hvar mundi verða byrjað. Auðvitað er það ekki aðalatriðið, hvar byrjað verður. Aðalatriðið er, að byrjað verði. Það má ekki draga, og þess vegna hef ég gert þessar fyrirspurnir.

Ég leyfi mér að vænta hiklausra svara og góðra frétta um, að nú verði öllum doða aflétt í þessu máli og Norðurlandsborinn látinn taka til starfa í vor.