11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í D-deild Alþingistíðinda. (3772)

208. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurn sú, sem hér er um að ræða á þskj. 515, er af eðlilegum ástæðum fram borin.

Það er rétt, að Norðurlandsborinn kom til landsins á s.l. ári, og hann hefur ekki verið tekinn í notkun. En til þess liggja gildar ástæður. Það þykir ekki heppilegt að byrja að bora í Norðurlandi að hausti til, með lítt þjálfuðu starfsliði, og það þykir ekki heldur heppilegt að byrja, nema hægt sé að halda óslitið áfram, eftir að hefur verið ráðið lið til starfans, sem kann til verksins. Þess vegna er það ekki aðalatriði, þótt það hafi liðið nokkrir mánuðir, frá því að borinn kom og þangað til hann byrjar, heldur skiptir það mestu máli, að nú, þegar borinn fer af stað, geti hann haldið óslitið áfram með þjálfuðu starfslíði, og það vænti ég að verða megi.

Fjárveitingar til jarðhitasjóðs á þessu ári eru 6 millj. kr., og það er vitanlega allt of lítið. Það þarf fé til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af kaupverði borsins, og það þarf mikið fé til þess að reka borinn. Nú hefur fengizt rífleg upphæð til þess ekki aðeins að koma bornum af stað, heldur til þess að starfrækja hann nú um nokkuð langan tíma.

Það er spurt um það, hvenær borinn muni geta byrjað, og það má vænta þess, að það verði í maí eða byrjun júnímánaðar, sem hann væri kominn norður og gæti byrjað þar. Það er rétt, að það er núna fyrst verið að taka borinn upp, en það þykir ráðlegt að gera það hér syðra og þjálfa starfslið til verksins hér, og það getur tekið 4—6 vikur, að talið er. Síðan verður borinn fluttur norður, og er gert ráð fyrir að byrja boranir á Ólafsfirði. Þar er fyrir hendi hitaveita, sem lögð var á árinu 1943. Um langt árabil hefur veituna skort vatn og einnig hærri vatnshita, en hún hefur verið rekin með 50 gráðu heitu vatni. Jarðhitasvæðið, sem hitaveita Ólafsfjarðar hagnýtir, er á Skeggjabrekkudal, um 3 km vestur af kaupstaðnum. Er þar aðeins hægt að bora að sumarlagi, og var því ákveðið, að Norðurlandsborinn færi þangað fyrst, og þar sem á Ólafsfirði er allt kerfið fyrir hendi og vatnið og það er öruggt, að þar fæst árangur strax af boruninni, og mörg hús, sem skortir vatn, þá þykir eðlilegt og hagkvæmast að byrja þar.

Þá er spurningin, hvert hann fer næst. Það er ekki alveg ákveðið, en það væri eðlilegt, að hann færi til Húsavíkur eða þá í Námaskarð. Það eru a.m.k. ýmsir, sem halda því fram, að það liggi jafnvel mest á því að byrja í Námaskarði vegna fyrirhugaðrar kísilverksmiðju. En það hefur ekkert verið afráðið um það, hvort hann fer fyrst til Húsavíkur eða í Námaskarð. Og svo eru fleiri staðir á Norðurlandi. Það vantar ekki verkefni fyrir borinn. Það er Akureyri, það er Sauðárkrókur og ef til vill fleiri staðir, og það er áreiðanlega mikils virði, að nú, þegar borinn fer af stað, þá verði hann notaður. Það er miklu meira virði heldur en ef hann hefði farið af stað og hefði orðið að hætta í miðju kafi, það hefði orðið að segja upp starfsliði, sem búið var að þjálfa til verksins, — það hefðu ekki verið hyggileg vinnubrögð. Ég tel, að með því að fara þannig að sem nú hefur verið gert, að undirbyggja starfið þannig að gera ráðstafanir til þess að þjálfa starfslið á borinn, gera ráðstafanir til þess, að það þurfi ekki að segja því upp, og að borinn geti haldið áfram að vinna, það hafi verið hin hagkvæmu vinnubrögð.