11.04.1962
Sameinað þing: 52. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 741 í D-deild Alþingistíðinda. (3773)

208. mál, jarðhitarannsóknir á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinagóð svör við fyrirspurnum mínum. Að vísu verð ég að segja það, að mér fundust ekki afsakanirnar, fyrir því, að borinn hefur ekki tekið til starfa, fyllilega nægilegar. Hæstv. ráðherra taldi eina ástæðuna það, að heppilegt væri að byrja að hausti á borununum. Borinn var kominn hingað til landsins í upphafi árs 1961. Þá var eftir seinni hluti vetrar og sumar, áður en haust kom, og við Húsvíkingarnir reiðubúnir að taka á móti honum, og þannig hagar til á Húsavík einnig, ef hann hefði orðið eitthvað síðbúinn á árinu 1961, að vinna má að borunum að vetrarlagi, aðstaðan er slík. Snemma í vetur sem leið var unnið þar að prófborunum, og gekk það sæmilega. Ég get getið þess í leiðinni, að þær boranir voru mjög til að styrkja það. að þar væri til þess að gera auðvelt að ná í heitt vatn örskammt frá bænum.

Það er rétt, að 6 millj. kr. eru ekki fullkomið fé til rekstrar, en í hitarannsóknarlögunum er gert ráð fyrir því, að tekið sé 60 millj. kr. lán, og það var það lán, sem við væntum að til sögunnar kæmi.

Hæstv. ráðherra upplýsir, að byrjað muni verða í Ólafsfirði. Við höfðum í Húsavík gert ráð fyrir því, að byrjað yrði þar, en sem þm. Norðurlandskjördæmis eystra skal ég nú ekki gera við það athugasemdir, að borinn verði látinn byrja í Ólafsfirði, enda mun það sannast sagna, að þar geti hann ekki unnið nema að sumarlagi. En það er ekki búizt við því, að hann þurfi að vera þar lengi að verki, vegna þess, eins og getið var um, að þar er um að ræða aukningu hitaveitunnar, en ekki jarðhitaleit í neinni óvissu eða fullkomin útvegun vatns til nota í bænum, heldur útvegun viðbótarvatns.

Við höfðum miklar vonir um það, Húsvíkingarnir, að byrjað yrði s.l. sumar, og til þess að segja frá því og sanna það, að slíkt var ekki og átti ekki að vera á mjög lausu byggt, þá vil ég hér vitna í ræðu, sem hæstv. landbrh. hélt, þegar lögin um jarðhitasjóð voru sett, eða nánar tiltekið 16. marz 1961. Í þeirri ræðu segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og kunnugt er, er hinn svokallaði Norðurlandsbor kominn til landsins, og til þess að geta notfært sér hann þarf meira fjármagn en áður til jarðborana, því að undanfarið hefur aðallega og nær eingöngu verið í notkun hinn svokallaði gufubor, sem víða hefur komið við sögu. — Þá er gert ráð fyrir, að rekstur Norðurlandsborsins muni kosta um 5 millj. kr. á ári, ef hann er starfræktur allt árið, en verkefni fyrir hann virðast vera mikil. Gert er ráð fyrir, að hann byrji á Húsavík. Það gefur góðar vonir með jarðhitann þar og að unnt verði með ekki allt of miklum kostnaði að notfæra sér jarðhitann fyrir Húsavík og nágrenni. Þá er og gert ráð fyrir, að borað verði í Ólafsfirði og nágrenni Akureyrar.”

Með tilliti til þessarar yfirlýsingar hæstv. ráðherra höfðum við rökstudda ástæðu til þess, að byrjað mundi verða verk með honum í Húsavík. Þar að auki voru svo viðræður bæði við hæstv. ráðh. og raforkumálastjóra. Okkur finnst til um það, hvað verkum seinkaði frá því, sem ráð var gert fyrir, og hörmum það, að ekki skyldi vera hægt að hefja borunina á Húsavík s.l. vor, eins og áætlað hafði verið í viðræðum, og ef það hefði verið gert, þá væru miklar líkur til þess, að nú væri hægt að framkvæma hitaveitu í Húsavík á þessu ári og bora fyrir Ólafsfirðinga einnig.

Annars er ég ekki að sakast um það, þó að byrjað verði í Ólafsfirði, eins og ég tók fram áðan, en ég vænti þess, að Húsavík verði áreiðanlega næst í röðinni. Hún mundi telja, að ekki væri fullkomlega staðið við fyrirheit gagnvart sér annars.