16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Magnús Jónson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð, ekki ætluð til þess að lengja þessar umr., en aðeins til að vekja athygli á atriði, sem óneitanlega hlýtur að koma upp í huga manns við að hlýða á flutning ræðu þeirrar, sem hv. 9. þm. Reykv. hér flutti, og brtt. hans. Því er mjög haldið á lofti, að ef þetta verði að lögum og ekki verði settar hér frá Alþingi ákveðnar hömlur, sé slík vá fyrir dyrum, að þeir, sem selja þessar vörur, muni misnota í stórum stíl aðstöðu sína til að arðræna almenning. Mér sýnist, að ýmsum þeim, sem um þetta hafa talað hér, hljóti að gleymast sú staðreynd, eða a.m.k. verður manni að hugsa, hvort þeim hafi gleymzt sú staðreynd, að mjög verulegur hluti af allri smásöluverzlun í landinu er í höndum samvinnufélaga. Þau eru starfandi í hverju einasta byggðarlagi landsins. Sums staðar eru þau einu fyrirtækin, sem starfa þar, smásölufyrirtækin, og hér í Reykjavík er starfandi mjög öflugt kaupfélag, sem flokksbræður hv. 9. þm. Reykv. stjórna. Ég hefði haldið, að það væri mjög kærkomið tækifæri fyrir samvinnufélögin að fá aðstöðu til þess að sýna það í verki undir frjálsum álagningarreglum, að þau gættu það vel hagsmuna fólksins, að það kæmi berlega í ljós, að þeirra vöruverð væri þá þeim mun lægra, ef aðrir ætluðu að misnota sér álagningarfrelsið.

Ég minnist þess, að ég hlýddi á það fyrir nokkrum árum, og raunar hefur það ekki verið nýtt sjónarmið hjá talsmönnum samvinnufélaganna, og má þar minna á ýmsar ræður, sem hv. framsóknarmenn hafa flutt um það, sem ég tel vera hárréttar, ef menn á annað borð hafa trú á samvinnufélögunum og aðstöðu þeirra til að gæta hagsmuna fólksins, að þá sé það í rauninni í þeirra þágu, að álagning sé frjáls og þau fái með því að sýna yfirburði sína yfir annað skipulag. Ég get því ekki séð með nokkru móti, að það geti orðið til neinna hagsbóta, þó að þessar brtt., sem hér er um að ræða, verði samþykktar, og tel, að í rauninni mættu allir þeir aðilar, sem á samvinnufélögin trúa, fagna því, að þarna hefðu þau aðstöðu til þess raunverulega að sýna það og sanna, að þau tryggðu almenningi hin beztu kjör.