21.11.1961
Neðri deild: 23. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (426)

5. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Enda þótt Iðnaðarmálastofnun Íslands hafi nú verið við lýði í nokkur ár, er engin löggjöf til um skipun stofnunarinnar og starfssvið. Iðnmrh. hefur þó tvívegis, árin 1955 og 1957, gefið út reglur fyrir stofnunina til þess að haga störfum sínum eftir, þar til sett yrðu um hana sérstök lög. Til þessa hefur þeim reglum verið fylgt.

Í fyrrasumar fór hæstv. iðnmrh. þess á leit við stjórn Iðnaðarmálastofnunarinnar, að samið yrði á hennar vegum frv. til laga fyrir stofnunina. Ætti þá sérstaklega að taka til athugunar, hvort ekki væri rétt að veita Alþýðusambandi Íslands og Vinnuveitendasambandinu aðild að stjórn hennar, en samkvæmt gildandi reglum hefur hvorugt þessara heildarsamtaka átt fulltrúa í stjórninni. Frv. það, sem nú er til umræðu og iðnn. hefur haft til athugunar, er samið í iðnmrn. á grundvelli tillagna stjórnar Iðnaðarmálastofnunarinnar, með nokkrum breytingum, eins og fram er tekið í grg. frv.

Með frv. þessu, ef að lögum verður, er grundvöllur lagður að framtíðarskipun Iðnaðarmálastofnunarinnar. Í 2. gr. frv. er kveðið á um stjórn hennar. Þar er sú breyting á gerð frá gildandi starfsreglum, sem settar voru af ráðherra 29. maí árið 1957, að Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands skal hvort um sig tilnefna einn mann í stjórn stofnunarinnar. Verður stjórnin þannig skipuð sjö mönnum samkvæmt tilnefningu ákveðinna félagssamtaka auk formanns, sem skipaður er af þeim ráðherra, sem fer með iðnaðarmál. Má telja þá breytingu eðlilega, þar sem innan þessara stóru samtaka eru ýmsir, sem eiga ekki heima hjá þeim aðilum, sem tilnefnt hafa og tilnefna nú fulltrúa í stjórnina, en hafa verulegra hagsmuna að gæta varðandi starfsemi Iðnaðarmálastofnunarinnar og koma til með að þurfa að leita til hennar um ýmis áhugmál sín.

4. og 5. gr. frv. fjalla um starfssvið og verkefni stofnunarinnar, og leyfi ég mér í því sambandi að vísa til grg., sem fylgir í 4. og 8. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Frv. var til umræðu hér á hæstv. Alþingi í fyrra. Það var þá afgr. frá Nd., og iðnn. Ed. mælti með frv. Þá var frv. sent nokkrum aðilum til umsagnar. Í álitsgerðunum kom fram nokkur ágreiningur um 2. gr. frv., þ.e. aðildina að stjórn stofnunarinnar, en að öðru leyti má segja að allir hafi efnislega mælt með samþykkt frv. áliti Félags ísl. iðnrekenda kom það m.a. fram, að það taldi, að iðnaðurinn sem slíkur ætti að hafa meiri áhrif varðandi stjórn stofnunarinnar. Þá bárust nefndinni tilmæli um það frá Iðju, félagi verksmiðjufólks í Reykjavík, Landssambandi ísl. verzlunarmanna og Kaupmannasambandinu, að þessi samtök fengju fulltrúa í stjórnina.

Um það geta vart verið skiptar skoðanir, að rétt sé að setja löggjöf um Iðnaðarmálastofnunina. Hún hefur fjöldamörgum verkefnum að gegna, og mun engum blandast hugur um, að starfssvið hennar eigi eftir að færast út á komandi árum. Síðan hún tók til starfa hefur hún fengið framlög á fjárlögum til þess að standa undir starfsemi sinni. Á árinu 1953 nam sú upphæð 450 þús. kr., en í ár mun hún vera 1 millj. 85 þús. kr. Iðnn. mælir með því, að frv. þetta verði samþykkt, en einstakir nm. áskilja sér þó rétt til þess að flytja og fylgja brtt., er fram kunna að koma við frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði vísað til 3. umr. að lokinni þessari umr.