08.02.1962
Efri deild: 43. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

36. mál, sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Frv. til laga um sveitarstjórnarkosningar er stjórnarfrv., komið frá Nd. Ákvæði þau, sem nú gilda um þessi efni, eru í lögum nr. 81 1936. Í þeim lögum voru mörg ákvæði um skipulag sveitarstjórna, en þau ákvæði voru felld úr gildi með sveitarstjórnarlögum nr. 58 1961, og eru því einungis nokkrar greinar laganna frá 1936 enn í gildi. Hefur því þótt tilhlýðilegt að endursemja lagaákvæði um sveitarstjórnarkosningar, og koma þessi ákvæði nú endursamin í því frv., sem hér er á dagskrá.

Engar efnisbreytingar, sem orð er á gerandi, koma fram í frv. Í 1. gr. frv. er sú meginregla, að lög um kosningar til Alþingis skuli gilda um kosningar til sveitarstjórna, eftir því sem við á. Síðan koma í 2. og 3. gr. ákvæði um kjördeildir og kjörstjórnir. Þar næst eru ákvæði um fresti og styttingu þeirra, um meðmælendur með framboði, um úrskurði um kjörgengi og áfrýjun þeirra, gerðabækur, gerð kjörseðla, merkingu framboðslista, auglýsingu þeirra, um atkvæðakassa, hvernig kosning fer fram og hvernig talning fer fram. Þá eru sérákvæði um kosningu sýslunefnda, um kosningarkærur og úrskurði þeirra og kostnað við kosningar, og að lokum ákvæði um gildistöku frv.

Allshn. þessarar hv. deildar hefur haft frv. til meðferðar og telur ákvæði þess eðiilega hluti og sjálfsagða og leggur til, að það verði samþykkt. Einn nm., hv. 11. þm. Reykv., var fjarstaddur, þegar nefndin afgreiddi málið.

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 264, leggur nefndin til, að lítils háttar breyting verði gerð á 12. gr. frv. Sú breyting er nauðsynleg, sökum þess að í 20. gr. sveitarstjórnarlaganna er heimild til að haga kosningu varamanna í sveitarstjórn á tvo vegu, þegar kosning er óhlutbundin, en í 12. gr. frv., eins og það er nú, er einungis gert ráð fyrir einni kosningaaðferð.

Í 20. gr. sveitarstjórnarlaganna segir svo í 1. mgr.:

„Þegar kosið er hlutfallskosningu í sveitarstjórn, eru allir þeir frambjóðendur varamenn í sveitarstjórn, sem ekki hafa náð kosningu sem aðalmenn, en átt hafa sæti á framboðslista, sem fengið hefur einn eða fleiri aðalmenn kjörna í sveitarstjórn. Þegar kosning er óbundin, skal kjósa jafnmarga varamenn og aðalmenn eru. Séu varamenn ekki kosnir sérkosningu, eftir að atkvæði hafa verið talin við kosningu aðalmanna, þá er heimilt að láta kosninguna fara þannig fram, að kjósandi ritar á kjörseðil allt að tvöfalt fleiri nöfn en tala þeirra manna er, sem kjósa á sem aðalmenn. Rétt kjörnir aðalmenn eru þeir, sem hljóta flest atkvæði. Þeir, sem hlotið hafa flest atkvæði næst á eftir aðalmönnum, eru rétt kjörnir varamenn í þeirri röð, sem atkvæðatölur segja til um.“

Þetta var 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaganna, en 2. mgr. 12. gr. frv. er aftur á móti á þessa leið: „Þegar úrslit eru kunn um kosningu aðalmanna, byrjar kosning varamanna, og fer um hana á sama hátt.“

Til að samræma þessi ákvæði leggur n. til, að breyting sú, sem greind er á þskj. 264, verði gerð á frv.: „Aftan við 2. málsgr. bætist: nema kosning varamanna hafi farið fram samtímis kosningu aðalmanna skv. 1. málsgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 58 frá 29. marz 1961.“

Þá er lagt til, að gildistökuákvæði 17. gr. verði breytt af augljósum ástæðum.

Ég tel ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en ég get minnt á það í leiðinni, að við 1. umr. málsins benti hv. 5. þm. Austf. á, að nauðsynlegt væri að breyta 2. málsgr. 12. gr. svo sem nefndin nú leggur til að gert verði.