30.11.1961
Efri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í B-deild Alþingistíðinda. (465)

95. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. það til erfðalaga, sem hér er lagt fyrir, var til meðferðar á síðasta þingi, en ekki útrætt þá.

Á fundi nefndar, sem skipuleggur norræna lagasamvinnu, var samþykkt 1953 að beina þeim tilmælum til dómsmrh. á Norðurlöndum, að þeir beittu sér fyrir því, að erfðalög Norðurlandanna yrðu tekin til endurskoðunar og samræmingar.

Í framhaldi af þessu átti svo nefnd með norrænum fulltrúum og þ. á m. frá Íslandi að vinna að því að framkvæma þessa endurskoðun á löggjöfinni og samræmingu, og af hálfu Íslands unnu þeir að þessu próf. Ármann Snævarr og síðar Þórður Eyjólfsson. Það hefur ekki orðið sú niðurstaða, að þessi norræna nefnd kæmi sér niður á eitt og sama frv., en raunar, þótt svo sé ekki, hefur áreiðanlega mikið unnizt til samræmingar á erfðalöggjöf Norðurlanda í sambandi við þessa starfsemi nefndarinnar, enda má segja, að okkar löggjöf hafi borið keim af, eins og eðlilegt er, danskri löggjöf á sínum tíma í þessu sambandi. Það var gert ráð fyrir því, að síðan yrðu frv. um ný erfðalög lögð fyrir þingin á Norðurlöndum. Var búizt við, að ég hygg, að frv. kæmu fram bæði hjá Dönum og Norðmönnum á þessu ári, en eftir því sem mér er bezt kunnugt, hafa slík frv. ekki enn verið lögð fram.

Eins og ég sagði áðan, var þetta frv. á síðasta þingi lagt fram, og hafa ekki verið gerðar á því síðan neinar breytingar, sem máli skipta, heldur aðeins, eins og fram kemur í grg., örlitlar leiðréttingar, sem stöfuðu þá af misgáningi, en skipta efnislega ekki neinu máli.

Það má segja, að megintilgangur þessa frv. sé í fyrsta lagi að gera erfðalöggjöf okkar heillegri og sé það að því leyti formbreyting frá því, sem áður var. En í öðru lagi felast svo verulegar efnisbreytingar á gildandi réttarreglum í þessu frv,. Megintilgangurinn með þeim breytingum er að segja má að styrkja sambandið á milli nánustu erfingja, milli hjóna annars vegar og niðja þeirra, frá því, sem verið hefur, auk nokkurra annarra, sem skipta allverulegu máli.

Samkvæmt gildandi lögum erfa t.d. eiðsbörn ekki föður og föðurfrændur né þeir þau, en eins og kunnugt er, eru það þau óskilgetin börn, eiðsbörn, sem feðruð eru með því móti, að móðir vinni eið eða drengskaparheit að faðerni þeirra í barnsfaðernismáli. Í þessu frv. er lagt til, að um erfðatengsl slíkra barna við föður og föðurfrændur fari sem önnur feðruð börn.

Þá er einnig veruleg breyting á gildandi lögum um erfðatengsl kjörbarna við kjörforeldra annars vegar og kynforeldra og kynfrændur hins vegar. Kjörbarn og niðjar þess erfa kjörforeldra eins og það væri getið og fætt barn þeirra, en erfðaréttur kjörforeldris eftir kjörbarn er allmiklum takmörkunum háður. Þá helzt þrátt fyrir ættleiðsluna erfðaréttur milli kjörbarns og niðja þess annars vegar og kynforeldra þess og kynfrænda hins vegar. Hér er á gerð veruleg breyting í báðum tilfellum. Í 5. gr. er lagt til, að fullkomin erfðatengsl verði milli kjörbarnsins og niðja þess annars vegar og kjörforeldris og ættingja þeirra hins vegar, eins og um eigið barn kjörforeldra væri að ræða, en aftur á móti falli að öllu leyti niður við ættleiðingu lögerfðatengsl milli kjörbarna og kynforeldra þeirra og annarra ættingja.

Erfðaréttur þess hjóna, er lengur lifir, er rýmkaður með tvennum hætti. Er í fyrsta lagi lagt til, að erfðahluti maka, þegar niðjar hins látna eru á lífi, verði 1/3 hluti eigna í stað áður. Og í öðru lagi er mælt fyrir í frv., að í stað þess, að maki taki aðeins helming arfs, þegar skipt er arfi með honum og útörfum hins látna, þá taki hann tvo þriðju hluta arfs, ef foreldri hins látna er á lífi, en ella allan arf, en í þessu felst, að bæði systkini og aðrir fjarskyldari ættingjar arfleifanda taka engan arf, ef maki hins látna er á lífi.

Hér eru, eins og menn sjá, allverulegar breytingar. En um þessi atriði hefur verið samstaða a.m.k. í meginatriðum milli þeirra lögfræðinga á Norðurlöndunum, sem um þetta fjölluðu, og þótti ástæða til að styrkja þannig lögerfðatengslin á milli hinna nánustu ættingja.

Þá er einnig verulegt atriði, þar sem breytt er heimild arfleifanda til að ráðstafa eignum með erfðaskrá, þegar skylduerfingjar, niðjar eða maki, eru á lífi, því að eftir gildandi erfðalögum er honum heimilt að ráðstafa ¼ hluta eignanna, ef niðjar lifa, en helming eignanna ef niðja nýtur ekki, en maki er á lífi. En í 35. gr. frv. er ákveðið, að arfleifandi geti ráðstafað með erfðaskrá 1/3 eigna sinna frá niðjum og maka, og þannig er í samræmi við aðrar breytingar ráðstöfunarheimild arfleifanda rýmkuð gagnvart niðjunum,en hins vegar þrengd gagnvart makanum.

Frv., sem lá fyrir þinginu í fyrra, fylgdi allýtarleg grg., sem handhægt væri fyrir nefndina að hafa til athugunar við meðferð málsins. En ég hef aðeins minnzt hér á nokkur meginatriði og sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að fara nánar út í frv. Ég vil leyfa mér að leggja til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.