14.12.1961
Efri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

95. mál, erfðalög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Hæstv. forseti. Það stendur þannig á, að ég þarf að vera nú eftir nokkrar mínútur við jarðarför, og af því tilefni vildi ég vegna þess, sem fram kom í ræðu síðasta ræðumanns, hv. 1. þm. Vesturl., beina því til hans, ef ekki kæmu fullnægjandi skýringar frá n. hálfu og frsm., hvort þessi mál gætu ekki gengið til athugunar í nefndinni af hans hálfu og í samráði þá við mig milli umræðnanna, en ef það er af einhverjum sérstökum ástæðum óhagkvæmara, þá yrði þessari umr. af þessum sökum frestað. Ég skil ósköp vel, að það kunni að vera eitt og annað í þessari löggjöf, sem menn vilja fá nánari skýringar á, og það er enda mjög æskilegt, að það komi fram undir meðferð málsins hér í þinginu, svo að ekki valdi misskilningi síðar. En ég vildi mælast til þess, að málið mætti ganga áfram og nánari athugun færi fram á þessu, ef þörf krefur, á milli umr., en ef það þætti ekki fullnægjandi af þessum ástæðum, þá yrði umr. í bili frestað um málið.