14.12.1961
Efri deild: 33. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

95. mál, erfðalög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið við þeim spurningum, sem ég varpaði hér fram áðan. Ég sé ekki ástæðu til að ræða miklu meira um þessi efni, annað en það, að ég er honum að einu leyti ekki sammála. Ég er honum ekki sammála í því, að skipa beri lögráðamenn án þess að taka einnig tillit til hlutaðeigandi erfingja, þ.e.a.s. vilja hlutaðeigandi erfingja, vegna þess að ef á annað borð er leyfð seta í óskiptu búi, þá tel ég, að höfuðatriði þess, að slík seta geti tekizt vel, sé, að sá, sem skipaður er lögráðamaður hlutaðeigandi barna, sé vinveittur þeim aðila, sem halda skal búskap áfram. Nú hygg ég, að undir flestöllum kringumstæðum skipi hlutaðeigandi skiptaráðandi lögráðamenn með þetta sjónarmið fyrir augum, — ég geri ráð fyrir því. En hins munu e.t.v. vera líka dæmi, og þá getur varla vel farið, ef lögráðamaður er skipaður á þann hátt, að hann eigi að verða og verði hvimleiður hlutaðeigandi aðila. Ég vantreysti engu foreldri að hugsa um fjárhag og framtíð sinna barna, það er síður en svo. En hins vegar hef ég ástæðu til að vantreysta sumum lögráðamönnum, að þeir vinni ætíð með þetta sjónarmið fyrir augum.