05.03.1962
Neðri deild: 59. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

95. mál, erfðalög

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Þegar frv. þetta var tekið til 2. umr. hér í hv. Nd. þann 13. febrúar s.l., gat hv. frsm. allshn., Jón Pálmason, þess, að nefndinni hefði borizt erindi frá Kvenréttindafélagi Íslands, þar sem farið var fram á, að gerðar væru á frv. nokkrar breytingar og við það aukið. Þar sem tillögur þessar eða ábendingar voru taldar þess virði, að þær yrðu athugaðar nokkru nánar, var umr. um frv. frestað, en annars hafði allshn. mælt einróma með því, að frv. yrði samþykkt óbreytt. Þeim Ármanni Snævarr háskólarektor og dr. Þórði Eyjólfssyni hæstaréttardómara, en þeir höfðu samið frv., var síðan falið að segja álit sitt á fram komnum ábendingum Kvenréttindafélags Íslands svo og brtt. þeim við frv., sem hv. 1. þm. Vestf. hefur nú flutt á þskj. 334. Umsögn þeirra próf. Ármanns Snævars og dr. Þórðar Eyjólfssonar liggur nú fyrir, og er hún prentuð sem fskj. með framhaldsnál. allshn. á þskj. 339.

Sjálf hefur allshn. athugað og rætt nokkuð á fundi sínum nýlega erindi Kvenréttindafélagsins og brtt. hv. 1. þm. Vestf. og telur ekki ástæðu til að breyta fyrri af'stöðu sinni til frv. þeirra vegna. Leggur nefndin því enn til, að frv. verði samþykkt óbreytt. Einn nm., hv. 11. landsk. þm. (GJóh), áskilur sér þó rétt til að flytja og fylgja brtt., sem fram kunna að koma við frv.

Fyrir efni þessa frv. hefur áður verið gerð grein í ræðu hæstv. dómsmrh. við 1. umr. þess í þessari hv. d., svo og í ræðu frsm. allshn. við 2. umr. hér í deildinni.

Með frv. því, sem hér er til umr., var flutt frv. til l. um breyt. á l. um skipti á dánarbúum og félagsbúum, nr. 3 1878, frv. um breyt. á l. um réttindi og skyldur hjóna, nr. 20 1923, og frv. um breyt. á l. um ættaróðal og erfðaábúð, nr. 116 1943. Allar standa þær breytingar, sem lagt er til að gerðar verði á lögum þessum, í sambandi við væntanlega setningu nýrra erfðalaga. Leggur allshn. til, að öll þessi þrjú frumvörp verði samþykkt óbreytt.