05.03.1962
Neðri deild: 59. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

95. mál, erfðalög

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þegar frv. það, sem hér liggur fyrir, var til 2. umr., eftir að gefið hafði verið út nál., þar sem nefndin lagði eindregið til, að frv. yrði samþykkt óbreytt, óskaði ég eftir því, að 2. umr. yrði frestað um málið og n. gæfist kostur á að athuga og ræða tillögur, er ég hafði hugsað að bera fram í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég vil leyfa mér að þakka hv. nefnd fyrir að hafa frestað málinu og gefið mér tækifæri til þess að semja þær tillögur og einnig fyrir að taka Þær til athugunar, þó að ég hefði óskað eftir því, að álit nefndarinnar um tillögurnar hefði farið á annan veg.

Hér er um mjög viðkvæmt og stórt mál að ræða, og eina ástæðan fyrir því, að málið fær ekki nánari athugun hér í hv. Alþingi í báðum deildum þingsins, er raunverulega sú, að frv. er samið af erfðalaganefnd annars vegar og í samræmi við heildarlöggjöf um erfðir á Norðurlöndum hins vegar, enda kemur það skýrt fram í umsögn nefndarinnar um tillögur þær, sem ég hef borið fram, að meginástæðan fyrir því að leggja til, að þær verði felldar, sé sú, að það sé verið að raska því samkomulagi, sem gert hafi verið í erfðalaganefndinni á Norðurlöndum. Nú viðurkenni ég, að okkur beri að hafa fullt samkomulag um heildarlöggjöf við aðrar Norðurlandaþjóðir. Ég hef einnig tekið þátt í því starfi í Norðurlandaráði. En ég tel hins vegar, að það starf megi ekki ganga svo langt, að það stríði á móti þeim hugsunarhætti, sem er orðinn rótfastur hér í íslenzku þjóðlífi í jafnmerku máli og erfðalöggjöf er. En því ber ekki að neita, að þetta erfðalagafrv., sem hér er nú komið til 2. umr. í síðari deild, fer töluvert aftur á bak við þau ákvæði, sem eru í gildandi erfðalögum, og það tel ég vera stóran ágalla á frv. Ég vil einnig í sambandi við það leyfa mér að benda á, að á síðasta þingi var borið hér fram frv. til l. um breyt. á erfðafjárskattslögunum. Og þessi lög hvor tveggja verða raunverulega hvorki rædd né athuguð nema saman, vegna þess að þau eru nátengd og fjalla um sama efni. Niðurstaðan hér í hv. Nd. varð sú, að það mál var afgreitt með rökstuddri dagskrá. En meginatriðið í því frv. var m.a. að færa til á milli flokka, svo að hægara væri að skattleggja erfðaflokkana, þar sem sýnt var, að ef ætti að halda erfðafjárskattinum, eins og hann nú er, óbreyttum, eftir því sem nefndinni sýndist, kæmi hann mjög ranglátlega niður, eins og ég síðar skal koma að. Hin rökstudda dagskrá, sem afgreidd var hér ágreiningslaust í hv. Alþingi um þetta mál í fyrra, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess: 1) að ríkisstj. láti þegar á næsta ári fara fram endurskoðun á erfðalögunum frá 1949 með tilliti til þess, að þeim verði breytt þannig, að rýrður verði verulega erfðaréttur fjarskyldra erfingja frá því, sem nú er,“ — ég vil benda á, að það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í þveröfuga átt við þessa samþykkt, sem þessi hv. deild afgreiddi á s.l. ári, —„2) að jafnframt verði gerðar tillögur til breytinga á lögum um erfðafjárskatt frá 1921 til samræmingar við breytingu á erfðalögunum, enda séu erfðafjársjóði með þeim breytingum tryggðar verulega auknar tekjur; 3) að þar til slíkar breytingar hafa verið lögfestar, noti ríkisstj. ekki þá heimild, sem felst í 6. gr. núgildandi laga um erfðafjárskatt um lækkun erfðafjárskatts í 5%, — tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

Skömmu eftir að þessi dagskrá hafði verið samþykkt hér á Alþingi mótatkvæðalaust samkv. tillögum nefndarinnar, lagði hæstv. dómsmrh. fram frv. til erfðalaga, 169. mál á því þingi, en það frv. er svo að segja óbreytt frá því frv., sem nú er hér til umr., og ganga þessi frumvörp bæði í öfuga átt við það, sem hv. deild samþykkti í þessu máli á s.l. þingi. Mér þykir rétt að láta þetta koma hér fram.

Ég trúi því ekki að óreyndu, að þeir hinir sömu menn, sem voru þeirrar skoðunar, að erfðalögin þyrftu einmitt að breytast í þá átt, sem þar er lagt til, taki ekki að einhverju leyti undir þær tillögur, sem ég nú ber fram og fara í þá átt, sem lagt var til í fyrra í sambandi vfð umr. um þessi mál. En að sjálfsögðu sést það, þegar tillögurnar koma til atkvæða.

Höfuðbreytingar þær, sem ég legg til að gerðar verði á frv., eru þær, að flutt sé til á milli erfðaflokka, bæði frá því, sem nú er í gildandi lögum, og frá því, sem er í þessu frv. En erfðaflokkarnir eru nú þrír. Er fyrsti flokkurinn börn hins látna, annar flokkurinn foreldrar hins látna og þriðji flokkurinn afar og ömmur hins látna. Að óbreyttum lögum um erfðafjárskatt er sýnilegt, að ef frv. nær fram að ganga nú, eins og það er hér til umr., þá fellur allt að 10% — fyrstu 10 þúsundirnar eru stighækkandi — af erfðafé samkvæmt fyrstu erfð í erfðafjársjóð, en aftur á móti 25% úr annarri erfð, þ.e.a.s. börn greiða í erfðafjársjóðinn allt að 10% af þeim hluta, sem fellur í þeirra hlut, en foreldrar verða að greiða 25% af þeim hluta, sem fellur til þeirra frá börnum. Hins vegar ber að greiða af þeim hluta, sem fellur frá barni til afa og ömmu, í erfðafjársjóðinn hvorki meira né minna en 50%. Fannst nefndinni þá, að það væri óeðlilegt, að barn greiddi aðeins 10% í erfðafjárskatt, en af hluta, sem fellur til afa og ömmu, skuli skylt að greiða 5-falt hærri skatt. Þess vegna taldi nefndin nauðsynlegt, að öll erfðalögin yrðu endurskoðuð með tilliti til þess að fá hér meira samræmi í hluti, sem eiga svo margt sameiginlegt.

Ég skal aðeins setja fram eitt dæmi í sambandi við þetta og sýna fram á, hversu óeðlilegt þetta getur orðið. Við skulum hugsa okkur, að foreldrar deyi ungir, skilji eftir sig eitt barn, sem væri t.d. drengur. Hann hefur ekkert að hverfa nema til afa og ömmu. Þau taka hann, ala hann upp og gefa honum menntun, sem kostar e.t.v. mikið fé. Síðan fengi hann ágæta stöðu, segjum, að hann yrði t.d. flugmaður, vátryggði sig hátt, yrði fyrir flugslysi og félli frá án þess að eiga nokkurn niðja. Þá mundi hálf sú upphæð, sem kæmi í hlut erfingja hans, t.d. vátryggingarupphæð, sem gæti numið heilli millj. kr., fara í erfðafjársjóðinn, en aðeins hinn helmingurinn til afa og ömmu, sem hafa þó borið allan þunga uppeldisins og alla menntunina. En ef um væri að ræða barn, sem tekur arf eftir foreldra sína, þá mundi það ekki greiða nema 10% í erfðafjársjóð. Þetta tel ég vera óþolandi ósamræmi og eiga að lagast. Það er að sjálfsögðu hægt að laga þetta með breytingum á erfðafjárskattslögunum, en það verður miklu flóknara, ef erfðaflokkarnir í sjálfum erfðalögunum eru ekki ákveðnir þannig, að það sé hægt að vísa til þeirra og þar ákveðið, hve mikið hver flokkur skuli greiða í erfðafjársjóð. Þetta er meginástæðan til, að ég óskaði eftir, að þetta væri tekið til athugunar.

Mín till. við 2. gr., án þess að lesa hana upp, er því sú, að fluttir séu í fyrstu erfð foreldrar, afi og amma og af því fé, sem til þeirra fellur, verði ekki greitt hærra af þúsundi en af því fé, sem börn erfa eftir foreldra sína. Auk þess verði skerðingin sú, að útarfar komi ekki til þess að fá þá arfahluta, eins og nú er eftir gildandi lögum. Ég sé ekki ástæðu til, að verið sé að skipta búum í fjöldamarga staði. M. a. tjáði sá mæti maður, dr. Björn Þórðarson, mér, að hann hefði einu sinni skipt hér búi í Reykjavík í 138 staði, og ég sé ekki, hvers vegna eigi að vera að parta niður erfðafé, sem kemur þá lítið til gagns fyrir viðkomandi aðila, en mundi koma miklu meira að gagni, ef því væri haldið til færri aðila, hvort heldur það væri í fjölskyldunni eða þá til erfðafjársjóðs, sem nú hefur tekið að sér að standa undir mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu.

Þegar athuguð er álitsgerð nefndarinnar, færir hún raunverulega engin önnur rök fram til stuðnings þeirri tillögu sinni, að mínar tillögur verði felldar, en það, sem hefur vakað fyrir löggjöfunum, þegar þessi lög eru samin, þ.e. að hafa heildarlöggjöf fyrir öll Norðurlönd, og það er það, sem nefndin leggur megináherzlu á, að ekki sé frá vikið. En eins og ég sagði áðan, tel ég ekki, að það eigi að vera aðalsjónarmiðið hjá okkur í sambandi við þessa löggjöf. Ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að í heilbr.- og félmn. Norðurlandaráðs voru teknar upp ár eftir ár tillögur frá Dönum um að samræma fóstureyðingarlöggjöfina fyrir Norðurlönd öll og lögð á það mikil áherzla að lögfesta íslenzku löggjöfina, því að hún væri mildust og viturlegust, og hafin stórsókn í því máli til að fá þá löggjöf viðurkennda um öll Norðurlönd. Það hefur ekki tekizt enn þá. Þar settu Norðmenn sig á móti mjög alvarlega og vildu ekki gangast inn á samræminguna. Og ég sé ekki heldur, að það hafi verið þörf fyrir okkur að ganga svo langt í að mæta óskum Norðurlandanna í þessu máli, að það sé farið lengra í að dreifa erfðafé í framtíðinni en gert er nú í gildandi lögum, og alveg sérstaklega eftir að tekin hefur verið sú stefna hér að láta allan erfðafjárskattinn renna í erfðafjársjóð, sem stendur undir þeim verkefnum að koma upp elli- og örorkuheimilum fyrir þá aðila í landinu, sem ríkissjóður eða sveitarsjóðirnir yrðu að standa undir að öðru leyti. En það er það verkefni, sem erfðafjársjóðurinn hefur nú með höndum. Og einmitt vegna þess, hversu sá sjóður er févana, en mikið fé þarf til þess að uppfylla þær þarfir, sem að kalla á því sviði, verður að tryggja honum fasta og örugga tekjustofna. Fyrir þessu þingi liggja tvö frumvörp til þess að tryggja milljónatekjur í þennan sjóð með beinum sköttum á neyzluvörur landsmanna vegna þess, hversu þörfin er óhemjumikil til þess að standa undir þeim verkefnum, og hv. alþm. skulu ekki loka augunum fyrir því, að það verður ekki undir neinum kringumstæðum staðið á móti því að láta nauðsynlegt fé til þessarar starfsemi á einn eða annan hátt í landinu, og er þá vafasamt, að það sé heppilegra að taka það á slíkan hátt, eins og lagt er til að sé gert með þeim frumvörpum, sem ég annars mæli ekki á móti, meðan ekki er séð nægilega fyrir framlögum til þeirra málefna á annan hátt. En er nokkuð heppilegra að taka það þannig heldur en að taka það af því erfðafé, sem skiptist til fjarskyldra erfingja í þriðja eða fjórða lið eða til systkinabarna og hinna og annarra útarfa, sem oft og tíðum hafa ekki nein tengsli við þá aðila, sem hafa aflað fjárins? Ég skal ekki fara langt inn á það atriði, en það eru mýmörg dæmi þess, að skipting erfðafjár hefur valdið alls konar fjandskap á milli erfingjanna. M.a. eru til um það sagnir, að í einu merku embættismannsbúi hér fyrir nokkrum tugum ára hafi ekki verið meira samkomulag hjá sjálfum systkinunum, svo að ekki sé nú farið lengra, en það, að saga varð í sundur merkan silfurgrip í fjóra parta, til þess að hver erfinginn gæti fengið sinn hluta, af því að ekkert samkomulag varð um, hver skyldi fá hann heilan. Mætti telja mýmörg dæmi, sem sýna, að það er ekki að öllu leyti hvorki létt né rétt að láta erfðaféð ganga til útarfa.

Ég sé, að Kvenréttindafélag Íslands hefur einnig sent ýtarlegt erindi til hv. nefndar og óskað eftir því, að teknar væru til athugunar ýmsar ábendingar í sambandi við skipti á dánarbúum og sérstaklega sá kafli, þar sem kveðið er á um í lögunum, hvaða reglur skuli gilda um, þegar maki situr í óskiptu búi, og sést í álitsgerð nefndarinnar, að hún telur, að þessi ákvæði flest ættu heima í lögum um skiptingu búa og ættu ekki heima í þessu frv., sem hér er til umræðu. En ef svo er, hvers vegna er þá nefndin að leggja til, að II. kafla laganna sé haldið í þessu frv.? Mér skilst, að ef það er nokkur rökrétt hugsun hjá nefndinni, þá ætti hún einnig að leggja til, að II. kafli, um óskipt bú, væri fluttur inn í þá löggjöf og þá tekin upp þar þau ákvæði, sem hér er bent á, því að vissulega eru mörg af þeim ákvæðum mjög athyglisverð. Ég vil nú biðja hv. nefnd að athuga, hvort ekki væri rétt að fella þennan kafla alveg í burtu og semja þá um það mál annaðhvort nýja löggjöf eða fella kaflann inn í önnur lög, úr því að það er ótvíræð skoðun nefndarmanna, að þessi ákvæði, sem þeir treysta sér ekki til að mæla á móti, eigi ekki heima í þessum lögum, heldur í lögum um óskipt bú. En langur kafli er hér einmitt um slík ákvæði.

Ég vil einnig í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, að það liggur nú fyrir hér í þinginu kafli um breytingar á lögum um skiptingu búa. Væri þá ekki rétt í sambandi við afgreiðslu þess máls að taka upp ekki einungis þær tillögur, sem bornar eru hér fram af Kvenréttindafélaginu, heldur og allan kaflann úr frv. um að sitja í óskiptu búi? Mér finnst vera miklu meira vit í því en að ganga frá frv. á þann hátt að víkja í burtu fjöldamörgum atriðum, sem nefndin sjálf viðurkennir að séu athyglisverð og þurfi ef til vill að fella inn í löggjöfina.

Ég skal ekki lengja mikið þessar umræður. Það er sýnilegt, að þessar tillögur mínar fá ekki hér stuðning hv. nefndar, ef til vill fá þær ekki heldur neinn eða lítinn stuðning í hv. deild. Það er þó ekki lokastig þessa máls, þótt þær nái ekki fram að ganga, því að með breytingu á erfðafjárskattslögunum er hægt að gerbreyta sjálfum erfðalögunum. Og það verður áreiðanlega tekin upp barátta fyrir því, að erfðalögin, þótt þau verði samþykkt nú, þá skerði þau á engan hátt þær tekjur, sem erfðafjársjóðnum eru ætlaðar. Þess vegna sæki ég ekki eins fast, að mínar tillögur verði samþykktar, eins og ég hefði gert, ef samþykkt frv. kæmi til þess að hafa áhrif á tekjur erfðafjársjóðsins. En það var miklu eðlilegra og léttara að ákveða erfðafjárskattinn sanngjarnan og eðlilegan með því að skipta erfðaflokkunum öðruvísi en hér er gert með þessu frv., og það var meginástæðan fyrir því, að ég bar fram mínar tillögur.