30.11.1961
Efri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

96. mál, skipti á dánarbúum og félagsbúum

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þetta dagskrármál né heldur hin tvö, sem á dagskránni eru, sem eru öll flutt í sambandi við 1. dagskrármálið eða breytinguna á erfðalögum. Þar er, í því frv., reynt að taka sem mest saman öll þau lagaákvæði, sem varða erfðir, en þó eru á einstaka stöðum annars staðar ákvæði, sem skipta máli í þessu sambandi, eins og í lögunum um skipti á dánarbúum og félagsbúum, sem hér er lagt til að nokkur breyting sé gerð á, sem er þó aðeins í því fólgin og í framhaldi af ákvæðum í hinu frv., erfðalagafrv., að taka af öll tvímæli. Þótt ekki sé hér um verulega efnisbreytingu að ræða, töldu þeir, sem stóðu að samningu frv., að það mundi vera öruggara að gera um leið þessa breytingu á lögunum um skipti á dánarbúum, félagsbúum o.fl.

Ég legg svo til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.