16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. 2. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs vegna aths., sem hæstv. fjmrh. gerði við tillögu mína og 1. minni hl. fjhn., — aths., sem telja má að hafi verið á þá leið, að þær tillögur gætu ekki fallið undir þetta mál, eins og það lægi fyrir. Það var á honum að heyra, að ekkert mætti taka inn í þetta frv. annað en hátollavörur og helzt smyglvörur. Þetta er þó frv. til lækkunar á innflutningsgjöldum. Það er einkennilegt, að hæstv. ráðh. skuli detta í hug að verja þetta frv., þetta einhliða frv., þetta takmarkaða frv. sitt með svona rökum. Þessi afstaða hæstv. ráðh. minnir mig á eina söguna af Molbúum Íslendinga, Bakkabræðrum. Svona er hún: Þeir fóru einu sinni að leita að á, sem þá vantaði og þeir voru hræddir um að hefði farið ofan í, eins og kallað er. Í þessari leit fundu þeir kú, sem þeir áttu, niðri í. En af því þeir höfðu ekki farið að leita að kúnni, þá sögðu þeir: „ Nei, við látum kúna vera, það verður hugað að henni á réttum tíma í kvöld.“ En um kvöldið var náttúrlega sú kýr dauð, sem þeir gengu þarna að.

Hæstv. fjmrh. verður að gá að því, að í landi okkar eru ýmsir, sem stynja undir dýrtíðinni. Hann segir að í þessu sambandi: Það er verið að endurskoða tollalöggjöfina, hún verður tekin til meiri breytinga en þetta, annaðhvort eftir skamman eða langan tíma. — En hann má gá að því, að þá verði ekki mennirnir orðnir uppgefnir, kýrin dauð, eins og hjá Bakkabræðrum.

Nei, þetta eru tyllirök, sem hæstv. ráðh, færði fram. Og með þau rök á vörum getur hann ekki varið það að fella undan þær till., sem voru felldar hér áðan frá minni hl.

Ég hef ekki mikla trú, eins og ég sagði áðan, á verðlagsákvörðunum yfirvalda. Þess vegna er ég ekki sérstakur fylgjandi þeirrar skriflegu brtt., sem hér var lögð fram. Ég treysti því, að samvinnufélögin takmarki álagningu eins og hægt er. Og mér þykir reyndar ánægjulegt að heyra, að hæstv. sjálfstæðismenn grípa einmitt til þessara raka sem helztu raka núna. Ég vildi vona, að það væri vottur þess, að þeir væru að taka stefnu okkar framsóknarmanna, úr því að þeir telja hana geta veitt þessa vernd, eins og það var orðað.

Um atkvæðagreiðslu hv. 10. landsk. (BGuðm) ætla ég ekki að ræða, þó að ég finni nú hins vegar ekki, að hún sé að sjálfsögðu neitt sérstaklega friðhelg við umræður, eins og hann vildi vera láta. Ég vil aðeins segja það, að hann átti sverðið, en brá því ekki.