16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það hefur aðeins tognað úr þessum umræðum og er ekkert við því að segja, það er varla vítavert að ræða svo stórt mál örfáar mínútur, meðan menn þola við vegna kvöldmatarins. En ég ætla mér ekki að lengja þær mikið, heldur drepa hér á örfá atriði í stuttu máli.

Ég skildi hæstv. fjmrh. svo við 2. umr. þessa máls, að hann deildi á vinstri stjórnina fyrir það að hafa lagt innflutningsgjald með þeim hætti á vörur, að það væri til þess að halda niðri vísitölu framfærslukostnaðar. Ég neita þessu alls ekki, að það hafi verið höfð hliðsjón af framfærslukostnaðinum hjá almenningi í landinu, og ég álít, að það hafi verið lofsvert, því að það er ekki hægt að neita því, að framfærsluvísitalan gefur þó nokkuð mikla hugmynd um það, hve dýrt er að lifa fyrir allan almenning í landinu. Það er ekki vítavert að reyna að halda þeim kostnaði niðri. En ef hæstv. ráðh. vill endilega deila á vinstri stjórnina fyrir þetta, hvað hefur þá þessi hæstv. ríkisstj. gert? Hún hefur gripið til annars ráðs og það er að greiða niður lífsnauðsynjar manna og það í stórum stíl, miklu stærri stíl en áður var gert. Hvaða eðlismunur er nú á þessu? Er annað lofsvert, en hitt vítavert? Niðurgreiðslur ríkissjóðs á árunum 1956–58, þ.e. á þremur árum, námu samtals 283 millj. kr., en niðurgreiðslur núverandi ríkisstjórnar á árunum 1959–60 og eins og þær eru áætlaðar fyrir 1961, þær eru ekki 283 millj., þær eru 913 millj. á þessum þremur árum. M.ö.o.: á þessum þremur árum hafa þessir stjórnarflokkar greitt samtals 630 millj. kr. meira í niðurgreiðslur en vinstri stjórnin. Ég held því, að það taki því varla að vera með ádeilur á vinstri stjórnina vegna innflutningsgjaldsins.

Hæstv. fjmrh. og reyndar fleiri hafa dregið í efa, að verðlagseftirlitið sé til nokkurs gagns, og hafa sjálfsagt á grundvelli þeirra skoðana greitt atkvæði gegn þeim till., sem fluttar hafa verið um, að verðlagseftirlit sé haft með sumum þeim vörum, sem eru í þessu frv. Ég vil ekki taka undir þær raddir, að verðlagseftirlit geti ekki verið til gagns. En ef það er ekki til gagns, til hvers er þá hæstv. ríkisstj. að halda uppi þessu verðlagseftirliti? Má þá ekki spara þessa peninga, sem fara í það? Það er ekki hægt að gera hvort tveggja í senn: rökstyðja það, að verðlagseftirlit sé ekki til gagns, og halda samt uppi dýru verðlagseftirliti.

Hæstv. ráðh. drap á það og fann að því, að stjórnarandstæðingar flyttu brtt. við frv., sem hefðu í för með sér um 43 millj. kr. tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, ef samþykktar yrðu. Ekki finnst mér það vítavert að fara fram á 43 millj. kr. tollalækkun á mestu nauðsynjavörum alls almennings í landinu, þegar hæstv. ríkisstj. flytur frv. um 46 millj. kr. lækkun á vörum, sem allur almenningur vægast sagt kaupir lítið af. Hæstv. ráðh. hefur rökstutt frv. með því, að það muni ekki verða tekjurýrnun fyrir ríkissjóð, af því að gert sé ráð fyrir, að þeim mun meira verði flutt inn, þegar verðið lækkar, og ég er ekki frá því, að þetta sé á rökum byggt. En heldur hann þá ekki, að það verði meira keypt af hinum vörunum líka, ef verðið lækkar? Mundu t.d. ekki fleiri bændur kaupa sér dráttarvélar, ef verðið lækkaði? Af hverju eru engar nýjar dráttarvélar, svo að segja, keyptar núna inn í landið? Af því að verðið er of hátt. Eru ekki alveg sömu rökin fyrir þessu? Það eru því miklar líkur til þess, að þó að okkar brtt. hefðu verið samþykktar, þá mundi innflutningurinn geta aukizt, nema allur almenningur sé orðinn svo aðþrengdur, að hann geti alls ekki keypt vörurnar, þótt þær lækki, og engir geti yfirleitt bætt við sig vörukaupum. nema þeir, sem hafa yfirleitt ráð á að kaupa hátollavörur.

Hv. 10. landsk. þm. (BGuðm) var með aðfinnslur við hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB), að hann hafi minnzt á atkvæðagreiðslur. Ég skil ekki, að það sé nein ný bóla á Alþ., að það sé gert, og ekkert vítavert við það. En ég verð að segja, að ég skildi ekki, hvað hann var að fara. Honum fórust orð eitthvað á þá leið, að hann vildi ekki notfæra sér fjarveru manns, sem væri veikur. Það þýðir það, að hefði hann greitt atkvæði í samræmi við það, sem hann var búinn að tala, þá hefði tillagan um dráttarvélarnar verið samþykkt. M.ö.o.: hefði enginn verið veikur, þá gat hann greitt atkvæði með henni, því að þá féll hún, en af því að einn var veikur, þá varð hann að sitja hjá, því að þá féll hún líka.

Ég vil að lokum beina því til hæstv. forseta, hvort hann sjái sér ekki fært að fresta þessum fundi um stutta stund, svo að þingmönnum gefist kostur á að flytja brtt. skriflega, og það hef ég ásamt hv. 1. þm. Vesturl. í hyggju, að flytja skriflega brtt. En ástæðan til þess, að við mælumst til þessa, er sú, að það er ekki hægt að móta þá tillögu nema hafa fyrir sér tollskrána, með þeim útreikningum, sem henni fylgja á tollunum, ef á að taka út úr einhvern lið af þeim, sem búið er að fella. Ég skal nefna sem dæmi, að það hefur verið felld till. um að fella niður tolla á landbúnaðarvélum. Nú er það svo, að það eru misjafnlega háir tollar á landbúnaðarvélum. Það eru bæði 3.6% og 14.4%. Ef við höfum í hyggju að flytja till. aðeins um þær, sem eru með 14.4%, þá getum við það ekki nema hafa tollskrána við höndina og vitna í rétta kafla og númer. Þetta þarf ekki að taka ýkjalangan tíma, en það er ekki hægt að gera þetta í sæti sínu, þegar umr. er að verða lokið og málið að ljúkast hér í hv. deild. Ég gæti trúað, að hálftími eða svo væri alveg nóg, sem fundinum væri frestað, til þess að það væri hægt að koma þessu fyrir. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Við hv. 1. þm. Vesturl. flytjum eina brtt. við þessa umr. Hún er um það, að einum lið í 72. kafla tollskrárinnar verði breytt, það eru hjóladráttarvélar, bæði vélarnar sjálfar og hlutar til þeirra. Í till. þeim, sem hv. 1. þm. Norðurl. e. flutti, var ein tillagan um það, að gera skyldi tollfrjálsar landbúnaðarvélar, sem þar voru taldar upp og voru í allmörgum liðum. Eins og ég gat um áðan, eru misjafnlega háir tollar á þessum vélum, þó að þær hafi allar verið upp taldar þarna í till. Flestar þessar vélar eru í 3.6% verðtolli, nema hjóladráttarvélar eru í 14.4% verðtolli. Við flm. þessarar brtt. viljum freista þess, hvort hv. þingmenn geti ekki fallizt á, að þessar vélar, sem eru í hærri tollinum, dráttarvélarnar sjálfar og hlutar til þeirra, verði tollfrjálsar, en frekari tillögur gerum við ekki. Ég held, að hv. þm. hljóti að sjá, að þetta er þó sanngirnismál og getur ekki raskað neinu samhengi í frv., þótt þessi breyting ein sé gerð. Um þörfina þarf ekki að fjölyrða hjá bændunum að fá einhverja lækkun á þessum dýrmætu búvélum sínum.