16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Sigurvin Einarsson:

Ég mun ekki tala lengi, það er fjarri því, ég hef ekki ástæðu til þess, skal aðeins segja örfá orð.

Það er rétt hjá hæstv. fjmrh., að það eru aðeins hátollavörur í frv. En þar með er ekki sagt, að það sé meiri réttur að taka allar þær hátollavörur inn í frv. en að taka einhverja vöru með lægri tollum. Svo nauðsynleg getur sú vara verið, sem er á lægri tollunum, að hún eigi alveg jafnmikinn rétt.

Þá leggur hæstv. ráðh. enn áherzlu á, að frv. sé miðað við það að koma í veg fyrir smygl. En það er ekki miðað við það nema að nokkru leyti, því að í frv. er mikið af vörum, sem kemur ekki til mála að séu neinn almennur smyglvarningur. Eða hvernig er hægt að telja t.d. ljósakrónur, baðker, gólfteppi og annað þess háttar smyglvörur? Það get ég ekki séð. Það eru þá allar vörur smyglvörur, ef þær geta fallið undir það.

Þá segir hann, að það þurfi að taka til endurskoðunar og muni verða teknir til endurskoðunar tollar á vélum til landbúnaðar, sjávarútvegs og iðnaðar. Ég býst við, að þetta sé alveg rétt athugað. En það er sá munur á nú, að öll skip og þar með vélarnar í þeim skipum, sem flutt eru til landsins, er allt tollfrjálst — og ekki bara tollfrjálst, heldur eru engin innflutningsgjöld á þeim. Í öðru lagi eru allar þær vélar, sem fluttar eru inn og settar í þau skip, sem smíðuð eru hér innanlands, líka tollfrjálsar. En þessar nauðsynlegustu vélar landbúnaðarins eru það ekki. Þó að það sé tekið tillit til þessara véla, þá eru þær ekki gerðar á neinn hátt jafnréttháar og þessar vélar sjávarútvegsins, því að önnur innflutningsgjöld haldast, þó að tollurinn falli, t.d. söluskatturinn, svo að ég held, að það sé ekki ósanngirni í því að veita bændastéttinni þá ívilnun, sem þessi tillaga gerir ráð fyrir.