16.11.1961
Efri deild: 17. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. vitnaði í mig um það, að tollskrárendurskoðunin mundi þegar hafin. Þetta er náttúrlega nokkuð ónákvæmt orðalag, vegna þess að hún var hafin fyrir tæpum tveimur árum. Hún er búin að standa yfir í tvö ár, og það var alltaf gert ráð fyrir því, að þessi ýtarlega endurskoðun hlyti að taka a.m.k. tvö ár. En nú lítur út fyrir sem sagt, að henni verði lokið á næsta sumri, þannig að hin nýja tollskrá verði lögð fyrir þingið 1962.

Ég endurtek það, að tollskrárnefndinni hefur verið falið að athuga alveg sérstaklega tolla af vélum til atvinnuveganna og leita upplýsinga frá nágrannalöndum um meðferð þeirra mála þar. Að sjálfsögðu mun ég ekki og get ekki á þessu stigi gefið upplýsingar um neitt af þessum einstöku atriðum, hvort tollar á þessari vöru eða annarri vöru muni lækka, standa í stað eða hækka eða hvernig breytingar þar verði, vegna þess að tillögur tollskrárnefndarinnar liggja alls ekki fyrir um það. Það, sem ég hef sagt og ítreka hér, er þetta, að nefndinni hefur verið falið alveg sérstaklega að athuga tollana af vélum til atvinnuveganna.