12.03.1962
Neðri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (576)

166. mál, skuldabréf Sameinuðu þjóðanna

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv. var lagt fyrir hv. Ed. og var afgreitt frá þeirri deild með algerri samstöðu allra þdm. Efni þess er það, að ríkisstj. sé heimilað f.h. ríkissjóðs að kaupa skuldabréf af Sameinuðu þjóðunum fyrir allt að 80 þús. Bandaríkjadollara og að taka jafnháa fjárhæð að láni í því skyni. Sameinuðu þjóðirnar eiga við mikla fjárhagsörðugleika að stríða nú, og stafar það m.a. af miklum kostnaði við varnarlið þeirra í Kongó, Palestínu, og enn fremur hefur það bætzt við, að sumar þjóðir hafa ekki viljað taka hlutfallslegan þátt í kostnaði við þessar aðgerðir. Það hefur því orðið að ráði, að Sameinuðu þjóðirnar byðu út skuldabréfalán að upphæð 200 millj. dollara. Lánið er til 25 ára og ber 2% vexti. Því hefur verið beint til þeirra ríkja, sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum, að kaupa þessi bréf.

Norðurlandaþjóðirnar hinar, sem eru meðlimir Sameinuðu þjóðanna, hafa ákveðið að kaupa skuldabréf í réttu hlutfalli við hin árlegu framlög sín til starfsemi Sameinuðu þjóðanna, og þykir rétt, að sami háttur verði hér á hafður, en Ísland greiðir árlega 0.04% af heildarstarfskostnaði Sameinuðu þjóðanna. Miðað við þetta hlutfall og ef við viljum hafa sama hátt á og frændþjóðir okkar á Norðurlöndum, mundu falla um 80 þús. dollara í okkar hlut. Það er tillaga ríkisstj., að þetta verði gert. Fjárveiting er ekki fyrir þessu í fjárlögum, og er gert ráð fyrir og samkomulag um að taka þessa fjárhæð að láni hjá Seðlabankanum.

Þess er óskað, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu hér í þessari hv. deild, og vildi ég mælast til þess við hæstv. forseta, hvort ekki þætti fært að afgreiða það við 3 umr. hér í dag. Ég hef ekki tillögu að gera um, að málið fari til nefndar, þar sem alger samstaða virðist hafa verið um þetta mál, eftir því sem fram kom í Ed., og legg því til, að frv. verði vísað til 2. umr.