12.03.1962
Neðri deild: 63. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

166. mál, skuldabréf Sameinuðu þjóðanna

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs til að láta í ljós ánægju mína með þetta frv., sem hér hefur verið lagt fyrir, og lýsa stuðningi mínum við það.

Það gæti verið ástæða til í sambandi við þetta mál að ræða almennt um starfsemi Sameinuðu þjóðanna, en ég skal ekki fara langt út í það.

Maður heyrir stundum fólk kasta því á milli sín, að Sameinuðu þjóðirnar hafi ekki orðið að jafnvoldugri stofnun og menn hefðu viljað og jafnvel mistekizt. Hið síðara álít ég mikla fjarstæðu. Að vísu hefur Sameinuðu Þjóðunum ekki tekizt að tryggja afvopnun og ekki sættir á milli stórveldanna. En þótt þetta hafi ekki tekizt, virðist mér starfsemi Sameinuðu Þjóðanna hafa borið stórkostlegan ávöxt, hún hafa valdið alveg tímamótum í heiminum.

Það er ekki aðeins í menningarmálum og í efnahagslegu tilliti, að Sameinuðu þjóðirnar hafa náð stórkostlegum árangri, heldur einnig í því að koma í veg fyrir styrjaldir. Það er enginn vafi á því, að Sameinuðu þjóðunum hefur hvað eftir annað tekizt að koma í veg fyrir styrjaldir. Og nú síðast hafa enn stærri atburðir gerzt á vegum Sameinuðu þjóðanna. Þeim virðist ætla að takast að tryggja, að í Kongó komist á fót sjálfstætt ríki. Slíkt hefði verið með öllu óhugsandi án tilstyrks Sameinuðu þjóðanna og þess skörungsskapar, sem sýndur hefur verið í því máli af þeirra hálfu.

Hér er ekki um neinn smáatburð að ræða. Það hefði þótt saga til næsta bæjar, jafnvel fyrir nokkrum árum, hvað þá áður fyrr, að það væri hægt að koma málum þannig fyrir, sem gert hefur verið í Kongó, þegar að sóttu til íhlutunar á annan bóginn alheimskommúnisminn og á hinn bóginn alheimsauðfélögin. En þrátt fyrir það hefur Sameinuðu þjóðunum tekizt, að því er virðist, að ná slíkum tökum a málum og styðja Kongóþjóðina þannig, að fullar vonir standa til, að þar komist upp sjálfstætt ríki.

Mér finnst þetta vera svo stórkostlegur atburður og ýmislegt annað, sem gerzt hefur í svipaða átt, að full ástæða sé til að minnast á þetta hér, þegar sá nýstárlegi atburður gerist, að lagt er fyrir Alþingi Íslendinga frv. um, að við Íslendingar tökum með skuldabréfakaupum okkar þátt í því að leysa fjármál Sameinuðu þjóðanna, sem komin eru í öngþveiti vegna þess, að sumir sterkir aðilar í samtökunum vilja alls ekki styðja þá stefnu, sem hefur reynzt svona farsællega.

Ég hika ekki við að segja, að smáþjóðirnar verða fyrst og fremst að setja sitt traust á Sameinuðu þjóðirnar, að þær haldi áfram að eflast. Vonir smáþjóðanna um að geta haldið áfram að vera sjálfstæðar hljóta í raun og veru fyrst og fremst að vera bundnar við, að Sameinuðu þjóðirnar geti orðið nógu sterkar og nógu voldugar. Því vildi ég segja þessi fáu orð til að fagna þessu frv. og lýsa ánægju minni yfir því, að það skuli vera komið fram. Ég tel, að Íslendingar eigi hiklaust að leggja fram stuðning við Sameinuðu þjóðirnar að sínum hluta.