17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar um lækkun aðflutningsgjalda á nokkrum vörum. Í grg. frv. er rakin allýtarlega saga aðflutningsgjalda, síðan tollskráin var lögtekin árið 1939, en síðan hafa orðið ákaflega tíðar og þýðingarmiklar breytingar á aðflutningsgjöldum. Um sögu þessara mála vil ég vísa til grg. og skal ekki rekja það hér frekar að sinni, að öðru leyti en því að minna á, að nú er svo komið, að á flestum aðfluttum vörum hvíla eftirtalin gjöld: Vörumagnstollur og álag á hann. Verðtollur og álag á hann. Álagið á vörumagnstollinn er nú 340% og á verðtollinn 80%. Innflutningssöluskattur, sem nú er 15%. Innflutningsgjald, sem er mismunandi hátt eftir því, um hvaða vörutegundir er að ræða. Tollstöðvagjald 1%. Gjald í byggingarsjóð ríkisins 1%. Og enn fremur eru innheimt sérstök aðflutningsgjöld af nokkrum vörum, svo sem innflutningsgjald af benzíni og hjólbörðum, rafmagnseftirlitsgjald og matvælaeftirlitsgjald.

Strax eftir að núv. ríkisstj. hafði tekið við störfum í nóv. 1959, var hafizt handa um endurskoðun tollskrárinnar. Sú endurskoðun var falin fjórum embættismönnum, þeim ráðuneytisstjórunum í fjmrn. og efnahagsmrn., tollstjóranum í Reykjavík og hagstofustjóra. Þegar hefur verið lögð mikil vinna í endurskoðun tollskrárinnar. Í stað þess að núgildandi tollskrá var í öndverðu byggð á nafnaskrá eða tollskrárfyrirmynd Þjóðabandalagsins gamla, þá verður henni breytt nú og samin eftir hinni svokölluðu Brüssel-nafnaskrá, sem flestar vestrænar þjóðir hafa tekið upp. Þessi breyting ein út af fyrir sig, sem er bráðnauðsynleg, kostar mjög mikla vinnu. Tollskrárendurskoðunin er geysimikið verk, og ætla ég, að henni verði lokið á næsta ári, svo að frv. til nýrrar tollskrár megi leggja fyrir haustþingið 1962.

En jafnhliða þessari almennu endurskoðun tollskrárinnar hefur verið unnið að athugun á sérstöku vandamáli, en það er ólöglegur innflutningur vara eða smyglið. Það var á fyrri hluta ársins 1960, sem hafin var á þessu sérstök athugun með aðstoð hagstofunnar. Það var reynt að gera sér grein fyrir því, hvaða vörutegundir það væru, sem helzt væru fluttar inn ólöglega og án þess að greiða af þeim lögmæta tolla, og reynt að fá einhverja hugmynd um það í einstökum greinum, hversu miklu þessi ólöglegi innflutningur mundi nema. Að sjálfsögðu er ákaflega erfitt að slá hér nokkru föstu, en það eru ýmis atriði, sem má hafa hér til hliðsjónar. Það var í fyrsta lagi athugaður innflutningur samkvæmt verzlunarskýrslum um nokkur undanfarin ár og borinn saman. Í öðru lagi var reynt að meta eða áætla, hvað væri talin eðlileg notkun eða neyzla landsmanna á þeim vörutegundum, sem um er að ræða. Í þriðja lagi er höfð hliðsjón af árlegri fjölgun landsmanna og aukinni notkun af þeim ástæðum. Og í fjórða lagi var höfð hliðsjón af framleiðslu íslenzkra iðnaðarvara, og margvíslegar aðrar upplýsingar og viðmiðanir var reynt að nota til þess að fá nokkra hugmynd hér um.

Eftir að þessi athugun hafði farið fram, mátti sjá það ljóslega, sem í rauninni flesta hafði grunað og margir vitað áður, að hinn löglegi innflutningur hafði dregizt síðustu árin stórlega saman á vissum vörutegundum, þó að vitað væri, að notkun þessara vörutegunda væri sízt minni nú en áður, og án þess að aukning innlendrar framleiðslu gæti gefið hér skýringu á.

Niðurstöður þessara athugana, sem að sjálfsögðu verður að taka með miklum fyrirvörum vegna þess, hve erfitt er að gera hér nákvæmar áætlanir um hinn ólöglega innflutning, niðurstöður þessara athugana voru þær, að varðandi margar vörutegundir væri um ólöglegan innflutning í mjög stórum stíl að ræða, og má nefna þar sem dæmi ýmiss konar ytri fatnað, kvensokka, úr og fjölmargt fleira, sem ég skal ekki telja upp hér, en margar þessara vara eru taldar upp í því frv., sem hér liggur fyrir.

Það var því ljóst af þessari athugun, að hér var um að ræða tugmilljónatap fyrir ríkissjóð á ári hverju, miðað við það, ef allur eðlilegur innflutningur væri löglegur á þessum vörum. Og hér var ekki eingöngu um að ræða stórfellt tekjutap fyrir ríkissjóðinn, heldur einnig verulega gjaldeyrissóun, vegna þess að töluvert af hinum smyglaða varningi er erlendis keypt í smásölu og því greidd að óþörfu smásöluálagning, sem víða erlendis og á mörgum vörum er mjög há og miklu hærri en hér tíðkast á Íslandi, í stað þess að ef þessar vörur væru fluttar inn að löglegum leiðum af innflutningsfyrirtækjum, væru þær keyptar í heildsölu eða frá verksmiðju með hagkvæmari kjörum. Það er því ljóst, að hér hefur verið um að ræða bæði stórfellt tap fyrir ríkissjóð og óþarfa gjaldeyriseyðslu.

Nú kom sú hugmynd upp í sambandi við þessar athuganir, hvort hér væri ekki hægt að vinna margt samtímis: Í fyrsta lagi að lækka tolla á ýmsum vörum og þar með lækka verulega vöruverð til hagsbóta og kjarabóta fyrir almenning. Í öðru lagi, hvort unnt væri að gera þetta án þess, að ríkissjóður ætti á hættu að missa tekjur. Í þriðja lagi að vinna m.a. með þessu móti að því að draga úr hinum ólöglega innflutningi eða smyglinu. Það frv., sem hér liggur fyrir, er árangurinn af þessum athugunum.

Nú er það að vísu svo, að það eru margvíslegar orsakir, sem liggja til hins ólöglega innflutnings vara. Á því er enginn vafi og öll reynsla bendir til þess, að jafnskjótt og gjöld á aðfluttum vörum tóku að hækka verulega frá því, sem ákveðið var í tollskránni frá 1939, hafi ólöglegur innflutningur aukizt, án þess að tollyfirvöldin fengju rönd við reist. Það má ætla, að eftir að innflutningsgjaldið var lögleitt í árslok 1956, hafi ólöglegur innflutningur á þeim vörum ýmsum, sem það tók til, aukizt stórlega. Það er skoðun þeirra manna, sem mest hafa um þessi mál fjallað, um athugun á þeim, að meginorsök hins ólöglega innflutnings sé sú, að heildaraðflutningsgjöldin séu orðin allt of há, svo há, að þess munu vart dæmi annars staðar í vestrænum löndum. Þó eru hin háu aðflutningsgjöld vafalaust ekki eina orsökin að smyglinu. Verzlunarhöft þau, sem hér hafa verið í gildi lengi, og m.a. þær takmarkanir, sem stafa af viðskiptum við jafnkeypislöndin, hafa vafalaust haft sín áhrif í þessu efni, því að þegar ekki er leyfður frjáls innflutningur á vöru, heldur frá tilteknum löndum, þá eru venjulega töluverð brögð að smygli á sams konar varningi, ef hann er talinn betri, frá öðrum löndum, sem leyfi eru ekki veitt á. Í þriðja lagi má svo benda á, að ástandið í okkar efnahagsmálum og efnahagskerfi á undanförnum árum hefur valdið hér töluverðu um, bæði hið margfalda gengi, uppbótakerfið, gjaldeyrisfríðindi margvísleg, allt þetta hefur haft þau áhrif að auka hinn ólöglega innflutning.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að lækka verulega aðflutningsgjöld á ýmsum vörum. Aðflutningsgjöldin eru í mörgum tilfellum milli 100 og 200%, alloft milli 200 og 300%, og í einu tilfelli komast heildaraðflutningsgjöldin upp Í 344%, á einni vörutegund. Í þessu frv. eru teknar fyrst og fremst ýmsar hátollaðar vörur og gjöldin á þeim færð niður, þannig að á þessum vörum er gert ráð fyrir, að hæstu aðflutningsgjöld verði samtals 125% skv. þessu frv.

Að því er varðar hinn ólöglega innflutning, þá tel ég, að óhjákvæmilegt sé að ráðast til atlögu gegn honum, gegn smyglinu, og að það mál þoli enga bið, og það, sem hér þarf að gera, er að mínu áliti tvennt, og það þarf að gerast samtímis. Annað er að lækka aðflutningsgjöldin til þess að draga úr hinni miklu ágóðavon smyglaranna og um leið að lækka vöruverð, en samhliða þessari lækkun tollanna þarf að gera róttækar endurbætur á tollgæzlunni, tolleftirlitinu. Ég tel, að strangara tolleftirlit og tollgæzla ein út af fyrir sig nægi ekki. Það hefur reynslan yfirleitt sýnt í öllum löndum, þar sem aðflutningsgjöldin hafa verið orðin mjög há, að það hefur þurft þetta tvennt saman, strangara tolleftirlit og lækkun hinna háu gjalda.

Varðandi þær lækkanir, sem hér er lagt til að gerðar verði, skal ég taka það í fyrsta lagi fram, að í frv. er engin vara tekin, nema hún beri nú yfir 100% í heildaraðflutningsgjöld. Þó að mjög væri æskilegt að færa niður gjöld á ýmsum öðrum vörum, sem bera lægri gjöld en þetta, hefur í þessum áfanga ekki þótt rétt að taka annað en hátollavörurnar, þær sem eru með yfir 100% gjöldum, og þó að sjálfsögðu ekki nema nokkurn hluta þeirra.

Það, sem frv. fjallar um, eru í fyrsta lagi þær vörur, sem talið er að sé smyglað í stórum stíl til landsins og ekki eru framleiddar hér á landi, þ.e.a.s. enginn íslenzkur iðnaður í þeim greinum. Í öðru lagi komi svo til greina ýmsar vörur, sem talið er að smyglað sé að verulegu leyti, en sams konar eða svipaðar vörur eru framleiddar hér á landi. Og þá komum við að því, hvert tillit á að taka til hins íslenzka iðnaðar, og hefur það verið eitt mesta vandaverkið í sambandi við samningu og undirbúning þessa frv. að rannsaka það mál, eftir því sem unnt er.

Ég skal ekki fara hér almennt út í umr. um tollvernd eða nauðsyn á tollvernd íslenzks iðnaðar. Það mál verður í heild kannað rækilega við áframhaldandi endurskoðun tollskrárinnar, og um það munu að sjálfsögðu liggja heildartillögur fyrir næsta haust, þegar tollskráin kemur fyrir hv. Alþingi. En í því sambandi má geta þess, að tollvernd íslenzks iðnaðar er með ákaflega margvíslegum og ólíkum hætti. Sumar íslenzkar iðngreinar njóta alls engrar tollverndar og standa sig vel í samkeppninni, þótt engrar verndar njóti. Aðrar vörur njóta mjög mikillar og óhóflega mikillar tollverndar, og svo höfum við alls konar stig þarna á milli.

Þegar lækka skal tolla á tilbúnum varningi innfluttum, sem keppir við íslenzka framleiðslu, verður að sjálfsögðu að gæta þess vandlega, að engar efnivörur til hins íslenzka iðnaðar séu tollaðar hærra en hinn tilbúni varningur. Í þessu frv. hefur verið fylgt því meginsjónarmiði, að þar sem ákveðin eru 100% aðflutningsgjöld á unna eða tilbúna vöru, þá eru ákveðin 90% aðflutningsgjöld af efnivöru til sams konar framleiðslu innanlands. M.ö.o.: það er í meginatriðum miðað við það, að efnivaran sé tolluð 10% lægra en fullunna varan. Þetta er að sjálfsögðu mjög mikil tollvernd fyrir íslenzkan iðnað, þegar það er athugað, að efnið í íslenzkar iðnaðarvörur er frá 40% upp í 70% af verði íslenzku iðnaðarvörunnar, þegar hún er fullunnin.

Þó að þetta sjónarmið hafi verið haft hér, vil ég engu slá föstu um það, hver verður niðurstaðan við hina endanlegu endurskoðun tollskrárinnar. Um það verður að sjálfsögðu haft náið samráð við iðnaðinn og iðnfyrirtæki og samtök þeirra hér á landi til þess að finna sanngjarnar reglur í þessu efni, og það má vel vera, að ekki þyki rétt að hafa tollverndina sömu eða svipaða hundraðstölu, miðað við innflutning á efnivörum, í öllum greinum, heldur e.t.v. mismunandi eftir því, hve mikill hluti af kostnaðarverði hinnar Íslenzku vöru erlenda efnivaran er. Vegna þess að aðflutningsgjöldin hér eru orðin ákaflega flókin, má vera, þótt reynt hafi verið að finna hér allar þær efnivörur, sem notaðar eru til sams konar framleiðslu og lagt er til að lækka tolla á, að einhverjar einstakar efnivörur hafi orðið út undan, og þess vegna er sem öryggi sett ákvæði í 3. gr. þessa frv. um það, að ef í ljós kemur, að efnivara sé hærra tolluð en innflutta varan fullunnin, þá sé heimild til þess að lækka aðflutningsgjöldin á efnivörunni.

Auk þessara tveggja vöruflokka, sem eru aðaluppistaða þessa frv., annars vegar vörur, sem eru ekki framleiddar hér á landi og talið er að fluttar séu inn í stórum stíl ólöglega, og í öðru lagi vörur, sem fluttar eru inn ólöglega, en sams konar eða svipuð framleiðsla er einnig á þeim vörutegundum hér, — auk þessara tveggja flokka eru svo teknar nokkrar, tiltölulega fáar, aðrar vörur, þó að ekki sé talið, að um smygl á þeim í stórum stíl eða jafnvel verulegt smygl sé að ræða, en hins vegar óeðlilega háir tollar á nú.

Þetta frv. mun leiða til verðlækkunar á þeim vörum, sem það tekur til. Í hv. Ed. gaf ég nokkurt yfirlit með nokkrum dæmum um það, hvernig einstakar vörutegundir mundu lækka í verði, og skal ég ekki endurtaka það hér. En í því sambandi er rétt að minnast á það, að nú mun vera frjáls álagning á um það bil helmingi þeirra vöruflokka eða tollskrárnúmera, sem rætt er um í þessu frv., en verðlagsákvæði hins vegar um hinn helminginn. Þar sem verðlagsákvæði eru í gildi, eiga auðvitað verðlagsnefnd og verðlagsstjóri að geta tryggt það, að tollalækkunin komi kaupendunum, neytendunum sjálfum til góða. Spurning er um það, hvort tryggt sé, að þessi tollalækkun komi neytendum til góða varðandi þær vörur, sem álagning er frjáls á. Þetta hefur af sumum verið dregið nokkuð í efa. í sambandi við það vil ég geta þess fyrst, að frjáls álagning var veitt á þessar vörur um mánaðamótin ágúst-september. Síðan það var gert, er nú liðinn hálfur þriðji mánuður. Ég hef ekki heyrt sérstakar kvartanir yfir því, að þetta álagningarfrelsi hafi verið misnotað eða þær vörur, sem þannig er frjáls álagning á, hafi hækkað neitt óeðlilega eða hlutfallslega meira en aðrar. Ég tel, að af þeirri reynslu megi nokkuð marka um framvindu þessara mála síðar. Í öðru lagi er það auðvitað ljóst, að hér var um að ræða tilraun til að gefa frjálsa álagningu á nokkrum vörum, og ef sú tilraun mistekst, ef verzlunaraðilar misnota að einhverju leyti þetta álagningarfrelsi, eiga þeir að sjálfsögðu jafnan yfir höfði sér, að verðlagseftirlit verði tekið upp aftur á þeim vörum. Nú ætla ég, að til slíks muni ekki koma, og það er rétt að taka fram, að í sambandi við undirbúning þessa frv. var rætt ýtarlega við og leitað álits fimm aðila, þeir voru Félag íslenzkra iðnrekenda, Samband íslenzkra samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, Félag Íslenzkra stórkaupmanna og Kaupmannasamtök Íslands. Af þeim viðræðum og öllum undirtektum geri ég ráð fyrir því, að verzlunaraðilar muni staðráðnir í því að gæta mjög hófs í álagningu á þær vörur, sem frjáls álagning er á. Frá Félagi íslenzkra stórkaupmanna og Kaupmannasamtökum Íslands fékk ég upplýsingar um áætlað smásöluverð á ýmsum þessara vara, sem frjáls álagning er á, og þau dæmi, sem ég nefndi í hv. Ed., voru öll byggð á upplýsingum frá þeim. Í þeim dæmum er alls staðar reiknað með því, að álagning, bæði í heildsölu og smásölu, verði lægri í krónutölu á hverja einingu eftir þessa tollalækkun en áður. Það má vera, að í sumum tilfellum telji þessir verzlunaraðilar óhjákvæmilegt að hækka eitthvað álagningarprósentuna, þegar verðið eða sá grundvöllur, sem þeir byggja álagninguna á, lækkar verulega, en ég vil endurtaka, að ég ætla, að í flestum eða öllum tilfellum sé gert ráð fyrir, að álagning bæði í heildsölu og smásölu verði í krónutölu lægri á hverja einingu eftir en áður.

Í blaðaviðtali, sem fulltrúar frá Kaupmannasamtökum Íslands áttu í gær og rakið var bæði í kvöldútvarpi í gær og eins í blöðum nú, kemur skýrt fram, að það sé stefna og vilji samtakanna að gæta hér hins fyllsta hófs og láta þessar tollalækkanir koma fyrst og fremst neytendum til góða. Hitt er að sjálfsögðu annað mál, að verzlanir munu njóta góðs af þeim auknu viðskiptum, þeirri auknu sölu, sem gera má ráð fyrir að hið lækkaða verð leiði af sér.

Næsta spurning er svo að sjálfsögðu þessi: Þolir ríkissjóður þann tekjumissi, sem mundi leiða af þessari tollalækkun? Það er gert ráð fyrir því, að ef innflutningur á þeim vörum, sem frv. tekur til, yrði óbreyttur á næsta ári frá því, sem hann var 1960, mundi tekjutap ríkissjóðs vera upp undir 50 millj. kr. á ári. Þessi tala er þá miðuð við það, að þetta frv. hefði engin áhrif í þá átt að draga úr hinum ólöglega innflutningi. Hins vegar er það stefna og tilgangur frv. m.a. og annarra þeirra aðgerða, sem í undirbúningi eru, að draga úr smyglinu og að löglegur innflutningur þessara vara aukist verulega. Þetta frv. er því ekki byggt á þeirri hugsun, að ríkissjóður muni tapa tekjum við samþykkt þess, a.m.k. neitt að ráði, heldur á þeirri hugsun, að ríkissjóður verði fyrir engu tapi, ef ráðstafanir þessar ná tilgangi sínum.

Varðandi hina hliðina á þessu máli, sem er aukið tolleftirlit, er þegar hafin endurskoðun á löggjöfinni um tollheimtu og tolleftirlit. Ég skal ekki ræða að þessu sinni, hverjar eru þær helztu endurbætur, sem ráðgert er að gera á tollgæzlunni, en það má nefna það, að vöruskoðun þarf að sjálfsögðu hvarvetna að auka, bæði í Reykjavík og utan Reykjavíkur, og varðandi Reykjavíkurhöfn, sem er langstærsta höfnin og mjög mikið af vörum fer um, þarf að bæta mjög alla aðstöðu, því að aðstaðan fyrir tollgæzluna hér er með öllu óviðunandi. Nú er það svo, að mörg undanfarin ár hefur verið lagt á sérstakt tollstöðvagjald, sem safnað hefur verið í sjóð til þess að byggja tollstöð og vöruskemmu eða skemmur, sem nauðsynlegar eru í sambandi við tollgæzluna. í þeim sjóði eru nú um 20 millj. kr., svo að fjárskortur ætti ekki að hamla því, að hægt sé að ráðast í nauðsynlegar aðgerðir.

Nú er það svo, að ýmsar endurbætur á tollgæzlunni er hægt að gera án lagabreytinga, bær eru skipulags- og framkvæmdaatriði, en um aðrar þarf lagabreytingar. Það má einnig gera ráð fyrir því, að ef á að herða tolleftirlitið, verði ekki komizt hjá því að stofna til nokkurs aukins kostnaðar frá því, sem nú er. En það er trú mín, að sá kostnaður, sem kann að verða nauðsynlegur, til þess að koma í framkvæmd betra og raunhæfara tolleftirliti en nú, muni skila sér margfaldlega í auknum ríkistekjum og bættri aðstöðu fyrir heilbrigt athafna- og viðskiptalíf í landinu. Ef ég mætti draga það saman í fáeinum orðum, þá ætla ég, að framvinda þessa máls verði sú, ef hún verður eins og stofnað er til af stjórnarinnar hálfu, að í fyrsta lagi muni fólkið, almenningur, hagnast á mikilli verðlækkun margra vara, að ríkissjóður muni ekki tapa tekjum, því að löglegur innflutningur muni aukast að sama skapi og smyglið minnkar, að verzlanir muni ekki fá meira í sinn hlut, meiri álagningu en nú, en þeirra hagur verði vaxandi viðskipti, þegar varan verður ódýrari og selst betur, að þjóðfélaginu öllu verði það hagur og sómi, að upprætt verði að verulegu leyti sú meinsemd, sem allt of lengi hefur grafið um sig á Íslandi, og loks, að smyglararnir verði þeir einu, sem tapa.

Þetta frv. hefur hlotið góðar undirtektir. Það má geta þess m.a., að í nál. hv. 2. minni hl. fjhn. í Ed. segir svo, um leið og sá minni hl. vildi gjarnan bæta þar nokkrum vörum við, með leyfi hæstv. forseta, „að tillögurnar í þessu frumvarpi feli í sér mjög mikilsverðar lagfæringar á atriðum, sem almenning varða og atvinnuvegina til lands og sjávar.“

Afgreiðsla frv. varð einnig sú í hv. Ed., að Þar var frv. samþykkt við 3. umr. þess með 18 shlj. atkv., þ.e.a.s. með jákvæði allra viðstaddra deildarmanna.

Þetta frv. er þess eðlis, að nauðsyn er að hraða afgreiðslu þess, vegna þess að frá því að frv. var lagt fram og þangað til það öðlast lagagildi, stöðvast að sjálfsögðu öll tollafgreiðsla á þeim vörum, sem frv. fjallar um. Ég vil því beina því vinsamlega til hv. fjhn. þessarar deildar að reyna að hraða afgreiðslu þess eftir föngum, helzt svo, að hægt væri að taka málið til 2. umr. á mánudaginn kemur. Ég vil taka það fram, að þeir embættismenn, sem unnið hafa að samningu frv., eru að sjálfsögðu reiðubúnir til þess að veita fjhn. allar þær upplýsingar, sem hún óskar eftir.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.