16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (590)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð viðvíkjandi þessum tryggingamálum. Það munu hafa komið óskir um það frá Landssambandi ísl. útvegsmanna, ef ekki beinar tillögur, á s.l. tveimur fundum, að þessi lög verði endurskoðuð með það fyrir augum að fá tryggingagjöldin lækkuð, og það er eiginlega dálítið furðulegt, að þessu máli skuli ekki miða betur áfram en raun ber vitni. Hér er ekki um neitt smámál að ræða, því að þessar tryggingar eru svo ranglátar og mismunandi, að það nær engri átt. Ef bátur er yfir 100 tonn, þurfa menn ekki að greiða nema 3% í iðgjöld, en ef hann er neðan við 100 tonn, þá er skyldutrygging, sem nemur allt að því 6%. Og það er meira en það. Það er hægt að kaskó-tryggja stærri bátana fyrir 3.5%, og kaskó-tryggingunni fylgir sá kostur, að svo að segja allar vélaviðgerðir eru borgaðar. Það er því ekki sambærileg aðstaða þeirra, sem hafa minni bátana, og þeirra, sem hafa stærri bátana. Þetta eru þvingunarlög, þannig að það væri miklu betra fyrir þá, sem eiga minni bátana, ef þetta væri alveg frjálst, — og hví ekki að hafa þessar tryggingar frjálsar eins og aðrar tryggingar og gefa einstaklingunum kost á að sæta sem beztum kjörum? Það má kannske segja, að þetta snerti ekki hvern einstakling svo mikið, þegar tryggingagjöldin eiga að borgast úr sameiginlegum sjóði, sem tekinn er af útflutningsverðmætum, eins og gert er ráð fyrir nú. En það er bara ekki nein smáprósenta, sem tekin er. Þetta er allt að því 4% af fob.-verði varanna, sem þýðir allt að því 8% af aflaverðmæti, eins og það kemur úr sjó, því að vitanlega kemur þetta allt á útgerðarmenn og sjómenn — eða útgerðarmennina, getum við sagt. Hér er því ekki um smámál að ræða, og tryggingalöggjöfin er, eins og hún er nú, algerlega óviðunandi. Ég furða mig á því, hvernig stendur á, að ríkisstj. reynir ekki að hraða þessu máli meira. Það væri svo velkomið, að við framsóknarmenn reyndum að vinna að þessum málum, ef hæstv. ríkisstj. vildi nota okkur til þess, en það er ekki von, að við nennum að vera að semja frumvörp, ef við vitum fyrir fram, að þau verði drepin. Ég get ekki skilið þann slóðaskap að geta ekki hert betur á þessum mönnum, sem hafa átt að vinna að þessu, þannig að frv. að gagni um þessi mál geti komizt í gegnum þingið nú. Og ef ómögulegt er að koma sér saman um frv. viðvíkjandi þessum bátatryggingum, skyldutryggingunum, sem ríkið hefur nú með að gera, hví þá ekki að gefa bara tryggingarnar lausar og lofa hverjum einstaklingi að sæta sem beztum kjörum? Það mundi áreiðanlega vera kostur að fá betri kjör í frjálsum tryggingum heldur en í þessum skyldutryggingum, eins og þeim er nú komið fyrir.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta. Það þýðir ekki að fara ýtarlega út í einstök atriði viðvíkjandi þessu. Það má vitanlega um það deila, hversu mikið happaverk það er, þetta ákvæði, sem stendur nú til að samþykkja. M.a. mun það hafa leitt af sér tilfinnanlegt tjón fyrir bátaeigendur, sem misstu báta nú fyrir nokkrum dögum. En ég sé ekki beinlínis ástæðu til að deila um þetta. Það er bara furðulegt að gera ekki gangskör að því að koma tryggingamálunum í viðunanlegt horf.