22.02.1962
Efri deild: 51. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í B-deild Alþingistíðinda. (598)

140. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Sjútvmrh (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er komið frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþykkt, að ég ætla samhljóða, gerð á því aðeins ein lítils háttar formsbreyting, engin efnisbreyting. En efni frv. er það, að numið verði úr lögum um Samábyrgð Íslands það ákvæði, að áhætta Samábyrgðarinnar verði takmörkuð við 100 þús. kr. á hvert skip, heldur verði í staðinn ákveðið af sjútvmrn., hversu há upphæðin skuli vera hverju sinni. Samábyrgðin tekur nú að sér endurtryggingu á þeim skipum, sem frumtryggð eru hjá bátaábyrgðarfélögunum, en það eru allir þilfarsbátar, sem eru ekki stærri en 100 rúmlestir brúttó, og auk þess allmargir opnir fiskibátar. Samábyrgðin tekur í eigin áhættu hluta í hverju skipi, en endurtryggir afganginn að nokkru leyti erlendis og að nokkru leyti hjá innlendum vátryggingarfélögum. Hluti Samábyrgðarinnar í áhættunni er, eins og ég sagði, takmarkaður með lögum við 25% af vátryggingarupphæð hvers skips, en þó má þessi áhætta ekki vera hærri en 100 þús. kr. fyrir hvert skip. Þessi viðmiðun er orðin mjög gömul og algerlega úrelt, og þykir nauðsynlegt að breyta þessu og það alveg sérstaklega vegna þess, að með þessum tölum hefur endurtryggingarupphæð Samábyrgðarinnar orðið miklu hærri og óhagstæðari en ef hún hefði fengið að taka meira í eigin tryggingu. Þetta sést glöggt af því, að af þeim 32.6 millj. kr. iðgjöldum, sem bátaábyrgðarfélögin greiddu Samábyrgðinni á árinu 1960, runnu 27.7 millj. kr. til endurtryggjenda. Viðskipti Samábyrgðarinnar og endurtryggjenda hafa líka verið Samábyrgðinni óhagstæð, þannig að á árinu 1960 greiddi Samábyrgðin í iðgjöld til endurtryggjendanna 27 millj. kr., en fékk ekki til baka nema í kringum 20 millj., þannig að hún borgaði 7 millj. kr. á einu ári fyrir þessa þjónustu.

Það er gert ráð fyrir, að fyrirkomulagið í framtíðinni, ef þetta frv. verður samþ., verði á þann veg, að bátaeigendur sjálfir taki í eigin áhættu 10%, bátaábyrgðarfélögin önnur 10% og afgangurinn verði endurtryggður þannig, að innlend félög taki að sér 60% af afganginum, en Samábyrgðin 40%, þó þannig, að Samábyrgðin endurtryggi erlendis það, sem umfram er 400 þús. kr. í hverju skipi. Þessi endurtrygging kostar Samábyrgðina ekki nema brot af því, sem öll tryggingin kostaði, og þar sem segja þurfti upp samningum við hina erlendu endurtryggjendur um áramótin, ef breyting á þessu átti að komast í framkvæmd þá, voru gefin út brbl., sem þetta frv. er borið fram til staðfestingar á.

Ég held, að frv. liggi svo ljóst fyrir, að það þurfi ekki nánari skýringa. Það er um þetta mál raunar að öðru leyti að segja, að allt vátryggingakerfi fiskiskipanna íslenzku er í athugun og hefur verið síðan á miðju s.l. ári. Þeirri athugun er ekki lokið enn, en verður leitazt við að hraða henni. En þetta frv. á að geta verið einn þátturinn í þeirri lagfæringu, sem hugsað er að gera.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. sjútvn.