15.02.1962
Efri deild: 47. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

147. mál, aðstoð við vangefið fólk

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Síðustu áratugina hefur orðið talsvert markverð og mikil þróun í meðferð fávita. Þangað til var talið, að lítið annað væri hægt að gera fyrir vangefin börn og fávita en sjá þeim fyrir daglegum þörfum, en menn trúðu þá ekki almennt á fræðslu og þjálfun, álitu, að slíkt kæmi ekki að neinum verulegum notum. En menn hafa nú komið auga á, að mikið er hægt að gera fyrir þessa illa stöddu sjúklinga. Menn hafa fundið ýmsar orsakir til fávitaháttarins, og í vissum tilfellum má koma í veg fyrir hann. Þó að þessi fávitaháttur verði ekki læknaður til fulls a.m.k., má eyða vissum sjúkdómseinkennum, ef í tíma er tekið, þannig að börnin síðar meir verði kannske vart talin það sem nú er nefnt vangefin. Sömuleiðis má með kennslu og þjálfun gera börn, sem verr eru á vegi stödd, fær um að inna af hendi vandalítil störf og verða með því sjálfbjarga, í stað þess að verða þjóðfélaginu til byrði. Og sérstaklega vil ég leggja áherzlu á, að þessir sjúklingar, þessir fávitar eru ekki einasta þjóðfélaginu í heild til byrði, heldur sérstaklega fjölskyldum sínum og forsvarsmönnum, sem verða að ala önn fyrir þeim á heimilunum, af því að fyrir þá eru ekki til nægilegir dvalarstaðir, sem af opinberri hálfu eru reknir til þess að annast þá. Hér á Íslandi er eins og annars staðar talsvert mikið af þessu fólki, og hefur lauslega verið áætlað, án þess að um það liggi þó fyrir nægilega áreiðanlegar tölur, að þeir muni vera um 700–800, enda ber því saman við það, sem annars staðar er. Það er nokkurn veginn meðaltal, að þeir séu um ½% af þjóðinni, þar sem áreiðanlegar skýrslur eru til.

Eins og ég sagði, hefur til skamms tíma verið lítið fyrir þetta fólk gert og fyrst nú nýlega, að nokkuð hefur verið reynt að bæta úr og hæli byggð til þess að taka á móti þessum fávitum. Hæli hefur verið byggt í Kópavogi, — það er stærsta hælið. Enn fremur er annazt um þetta fólk í Skálatúni í Mosfellssveit og Sólheimum í Grímsnesi, en það hæli er nú rekið af einkaaðila. Enn skortir mikið á, að hægt sé að verða við brýnustu óskum um úrbætur í þessu efni. Hið síðasta, sem gert hefur verið, er, að byggður var starfsmannabústaður í Kópavogi, en þannig hefur verið hægt að rýma verulegan hluta hælisins, svo að hægt hefur verið að bæta þar við milli 20 og 30 börnum. En bygging eins og Kópavogsbyggingin kostar í kringum 6 millj. kr., og er talið, að hvert sjúkrarúm fyrir þessi börn kosti um ¼ úr milljón fyrir hvert eitt, þannig að sýnilegt er, að hér þarf mikilla fjármuna.

Ríkissjóður hefur komizt hjá því að leggja fram mikið fé í þessu skyni. En þó hefur hann lagt fram nokkuð, en ég vil segja aðeins mjög lítið, samanborið við það, sem í þetta hefur farið þó. En það, sem mest hefur dregið þessa starfsemi upp á síðkastið, er gjald, sem lagt var á gosdrykki og öl, 10 aurar á hverja flösku, fyrir nokkrum árum, sem nú er lagt til að verði hækkað upp í 30 aura eða þrefaldað. Það er raunverulega eina ákvæði þessa frv. að hækka þetta gjald úr 10 aurum upp í 30 aura á hverja flösku. Með því þrefaldast tekjurnar, sem hafa verið á undanförnum árum talsvert á aðra millj. kr. á ári, og ætti þá nokkuð að vera hægt að gera til þess að sinna þessum málum betur en orðið er.

Ég skal aðeins í þessu sambandi geta þess, að ríkisstj. hefur einnig ákveðið að leggja fram næstu daga frv. svipaðs eðlis vegna öryrkjanna, og mun það koma fyrir á næstunni, þar sem lagt er til, að visst gjald verði tekið af sælgæti til þess að greiða götu þeirra og reyna að stuðla að umbótum á þeirra málum.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.