17.11.1961
Neðri deild: 20. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka bæði hv. 1. og hv. 4. þm. Austf. fyrir góðar undirtektir undir frv. og fyrirheit þeirra um stuðning við það. Það eru örfá atriði, sem ég vildi minnast á úr ræðum þeirra.

Hv. 1. þm. Austf. hóf mál sitt á því, að það hefði vakið undrun margra, að með efnahagslögunum eða gengisbreytingunni 1960 hefði nær öllum álögum, sem áttu að standa undir útflutningsuppbótunum, verið haldið í gildi, þó að útflutningsuppbæturnar væru afnumdar. Þetta er ekki rétt mynd, sem hv. þm. gefur. Í fyrsta lagi féll að sjálfsögðu niður við gengisbreytinguna yfirfærslugjaldið, sem var 55%a og átti m.a. að standa undir útflutningsuppbótum. Í öðru lagi var það innflutningsgjald, sem var eftir ákvörðunum í tíð vinstri stjórnarinnar 62% af sumum vörum, lækkað 1960 niður í 40%, það innflutningsgjald, sem var 40%, var lækkað í 30%, og það innflutningsgjald, sem var 22%, var lækkað í 15%. Allt þetta var gert með efnahagsmálalögunum, og skil ég ekki almennilega, hvernig það má vera, að það hefur farið fram hjá hv. 1. þm. Austf.

Hv. 4. þm. Austf. sagði, að aðalástæðan til þess, að dregið hefði úr innflutningi á ýmsum vörum eða hann dregizt saman, væri sú, að verðlagið væri orðið allt of hátt eftir gengisbreytingarnar. M.ö.o.: það er hans skoðun, að samdrátturinn í innflutningi margra vara stafi af of háu verðlagi vegna gengisbreytinganna nú á þessu ári og í fyrra. Þetta er mikill misskilningur hjá hv. þm., því að ég ætla, að það sé mál kunnugra manna, að aðalástæðan fyrir samdrættinum á innflutningnum séu aðgerðir þessa hv. þm. og hv. 1. þm. Austf. og annarra ágætra manna í vinstri stjórninni, því að eftir þá gerbreytingu, sem varð á aðflutningsgjöldum með hinni svokölluðu jólagjöf 1956, er innflutningsgjaldið var lögtekið, frá 22% upp í 62%, af flestum þeim vörum, sem þetta frv. fjallar um, þá er það samróma álit flestra kunnugra manna, að þá hafi fyrst verulega dregið úr innflutningnum og smyglið færzt í aukana. Þetta sýna verzlunarskýrslur, ef bornar eru saman frá því ári við næstu ár á undan og næstu ár á eftir. Ég held, að það sé alger misskilningur, að aðalástæðan fyrir þessu séu gengisbreytingarnar, enda er þá lítt skiljanlegt, hvers vegna innflutningur á ýmsum þessum vörum minnkaði á árunum 1957 og 1958 frá því, sem áður var, þ.e.a.s. 2–3 árum áður en gengisbreytingarnar komu til.

Hv. 4. þm. Austf. dregur mjög í efa, að þessi tollalækkun komist alla leið til neytendanna, og hann lýsir því yfir, að hann beri hvorki traust til stórkaupmanna, smásala né samvinnufélaga í þeim efnum. Nú skal ég ekkert um það ræða, hvort hann treystir einum eða öðrum, en þó skyldi maður ætla, að eitthvert traust bæri hann til samherja sinna, sem stjórna einu stærsta samvinnufélagi þessa lands, sem er hér í Reykjavík. En svo rótgróið er vantraust hans, að hann vantreystir sínum mönnum einnig.

Hann ber þau rök fram fyrir þessu vantrausti sínu, að reynslan sanni, að ástæða sé til þess. Og þegar hann fer svo að sanna með reynsludæmum, þá ber hann fyrir sig um 10 ára gamalt dæmi, eða ég ætla, að það sé frá 1951 eða 1952, þegar verðlag hafði verið gefið frjálst á nokkrum vörum og verið misnotað. Það má vel vera, að það hafi verið gert. En hv. þm. neitar alveg að taka nokkurt mark á því dæmi, sem við höfum fyrir augunum, því, að frjáls hefur verið álagning á mörgum vörutegundum nú í tvo og hálfan mánuð, án þess að kvartanir hafi sézt um, að það hafi verið misnotað. Hv. þm. afgreiðir þetta reynsludæmi aðeins með því, að það liggi engar skýrslur fyrir um það. En mér er spurn: Ef þetta álagningarfrelsi hefði verið misnotað eða misnotað svo, að það væri algert siðleysi, eins og hann komst að orði, að gert hefði verið fyrir 10 árum, ætli hefði þá ekki heyrzt hljóð úr horni, ætli hefði ekki einhvers staðar í blöðum verið á það minnzt, að þessar vörur hefðu hækkað óhóflega, ætli þessir miklu dýrkendur verðlagseftirlitsins, Alþýðubandalagsmennirnir, hefðu ekki reynt að finna einhver slík dæmi, og ætli það hefði ekki verið skylda verðlagsstjórans að benda þá á þessa misnotkun? Ég held, að í stað þess að vera að fara 10 ár aftur í tímann, sé bezt að miða við það, sem nú hefur verið að gerast og er að gerast í þessum málum undanfarnar vikur og undanfarna mánuði. Um þetta er að sjálfsögðu ekkert hægt að fullyrða. Hv. 4. þm. Austf. og flokksbræður hans hafa tröllatrú á verðlagsákvæðum og verðlagseftirliti, sem þeir telja í rauninni flestra meina bót, þó að reynslan hafi sýnt, að í sumum tilfellum hefur það verið stórskaðlegt fyrir þjóðina, ég segi: stórskaðlegt, vegna þess að verðlagsákvæðin eru yfirleitt þannig byggð upp, að þau eru miðuð við hundraðstölu af innkaupsverði vörunnar að viðbættum tollum o.s.frv. Það þýðir, að innflytjendur hafa ekki hina minnstu hvatningu í þessum ákvæðum, til þess að fá sem hagstæðust og ódýrust innkaup, heldur þvert á móti, þeir skaðast á því að gera hagkvæm innkaup, vegna þess að þeim mun ódýrari sem varan er í innkaupi, þeim mun minni er álagningin í krónutölu, sem þeir fá. Nú má segja, að þetta ætti ekki að koma að sök, ef algert innflutningsfrelsi er og nóg framboð á vörunni, því að þá skapar samkeppnin, hin frjálsa samkeppni, verðlagið. En þegar skortur hefur verið á vöru, eins og oft hefur verið hér á undanförnum áratugum, vegna innflutningshafta og gjaldeyrisskorts, hefur þetta vafalaust oft bitnað á þjóðinni, að þessi verðlagsákvæði í prósentum hafa sízt verið til bóta, heldur jafnvel til skaða. Með þessu segi ég ekki, að verðlagsákvæði geti ekki átt rétt á sér, á vissum tímum sérstaklega. Þegar um vöruskort er að ræða á vissum vörutegundum, getur verið óhjákvæmilegt að grípa til verðlagsákvæða. En þegar innflutningsfrelsi, verzlunarfrelsi er og nóg framboð á vöru, þá mundi ég ætla, að hagur neytendanna, kaupendanna, sé margfalt betur tryggður með frjálsu verðlagi, frjálsri samkeppni, heldur en verðlagsákvæðum.

Um þennan ágreining eða mismunandi traust og vantraust okkar hv. 4. þm. Austf. þýðir auðvitað ekki að ræða frekar. Það er reynslan ein, sem úr því sker.