26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (624)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er samið að frumkvæði hæstv. menntmrh. af n., sem í áttu sæti þeir Brandur Jónsson skólastjóri málleysingjaskólans, Ásgeir Pétursson, sem þá var deildarstjóri í menntmrn., og Stefán Ólafsson læknir. Frv. á að koma í stað 40 ára gamalla laga um málleysingjaskóla, sem hér hafa verið í gildi. Hefur verið leitazt við að breyta frv. í nútímaform, taka tillit til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur á þessu sviði, og gera á því aðrar endurbætur, sem nauðsynlegar þóttu.

Kennsla heyrnarleysingja á Íslandi hófst árið 1865 að Þingmúla í Skriðdal og hefur verið haldið uppi óslitið síðan. Framan af var hér, eins og í mörgum öðrum löndum, eingöngu kennt fingra- eða merkjamál og stuðzt við þá aðferð fram til ársins 1922, þegar þau lög, sem hér á að breyta, voru sett. Þá var tekin upp aðferð, sem byggðist á því að reyna að sameina fingra- og merkjamál og einhverja talkennslu. Þeirri aðferð var haldið fram til ársins 1944, þegar enn var breytt um kennsluaðferð og tekin upp sú, sem notuð hefur verið síðan, að miða alla kennsluna við að kenna þessu fólki að tala.

Lengi vel voru á þessu sviði notuð orð eins og daufdumbir og sambærileg orð í öðrum tungumálum, sem fengu ýmiss konar víðtækari merkingu en ástæða var til. Var það trú manna, að fólk, sem var kallað þessu nafni, væri að einhverju leyti sljótt eða hefði ófullkomna greind, þó að ekki væri nein ástæða til slíks. Eftir að þeim orðum var sleppt af stofnuninni, var tekið að kalla hana málleysingjaskóla. Þetta orð byggist þó á misskilningi, vegna þess að sjúkleiki þessa fólks er svo til í hverju einasta atviki ekki fyrst og fremst málleysi, heldur heyrnarleysi. Heyrnarleysið er orsök þess, að fólkið lærir ekki að tala. Samkv. þessu frv. verður því nafni á skólanum breytt úr málleysingjaskóla í heyrnarleysingjaskóla.

Eins og frv. liggur fyrir, er skólinn kallaður heyrnarleysingjaskóli, en við meðferð málsins hefur menntmn., í samráði við forráðamenn skólans, orðið ásátt um að breyta því í heyrnleysingjaskóla. Nú er nefndarmönnum ljóst, að þetta orð er ekki sérlega þægilegt eða tamt í máli, og var nokkuð um það rætt. En forráðamenn stofnunarinnar eru þeirrar skoðunar, að það verði að koma fram í heiti skólans, hvað þjáir þá nemendur, sem þar eru. Þess vegna hefur ekki reynzt unnt að finna hentugra orð eða styttra, sem jafnframt gæfi til kynna, hvers konar fólk er þarna við sérstakt nám. Niðurstaðan er því sú, að n. leggur til í brtt. að breyta orðinu heyrnarleysingjaskóli í heyrnleysingjaskóli á öllum stöðum í frv.

Í frv. eru ákvæði um skólaskyldu heyrnarlausra barna, og er gert ráð fyrir því, að þau séu skólaskyld frá 4 ára aldri. Hallast menn nú mjög að því, að nauðsyn sé, að þessi börn fái eins snemma og hægt er kost á kennslu, og eru fyrir því ýmsar ástæður. Er talið, að á aldrinum 2–4 ára séu börnin næmust fyrir máli. Þá hefur komið í ljós, að ýmis millistig eru á milli fullkominnar heyrnar og algers heyrnarleysis. Þegar um er að ræða heyrnarleifar hjá börnum, er mjög mikilvægt að byrja snemma að kenna þeim að hagnýta þær leifar eins og unnt er. Enn benda sérfróðir menn á, að foreldrum þyki oft hvað vænst um þau börn sín, sem eiga við erfiðleika að stríða, fram yfir önnur, þeim hætti til að sýna slíkum börnum mikið eftirlæti, sem vel geti reynzt vafasamt fyrir uppeldi þeirra, og sé af þeim sökum hollt fyrir börnin að komast eins fljótt og unnt er í félagsskap og til náms og þjálfunar, eftir því sem unnt er.

Í gömlu lögunum var gert ráð fyrir, að í þennan skóla megi taka blind, málhölt og vitsljó börn, en kennsla slíkra barna er algerlega ósamrýmanleg kennslu heyrnarleysingja, og er það því tekið burt úr frv., sem hér liggur fyrir.

Menntmn. fór í heimsókn í málleysingjaskólann, sem nú heitir, og kynnti sér starfsemi hans. Nefndarmenn sannfærðust fljótt um, að mikil þörf er á að greina börnin í sundur eftir aldri og eftir heyrn — eða heyrnarleysi, þannig að ekki þurfi að hafa saman mjög ólík börn hvað aldur og þroskastig snertir. Nú er hópur heyrnarlausra barna hér á landi, sem skólinn veit um og hefur, ekki nema liðlega 20. Samt sem áður fannst n. augljóst, að það var of lítið að hafa fjóra kennara, eins og nú er. Þess vegna er ekki í þessu frv. gert ráð fyrir því að festa tölu kennara, heldur er talið ráðlegt að láta vera á valdi menntmrn. að ákveða þá tölu.

Til viðbótar er rétt að geta þess, að skv. upplýsingum forráðamanna skólans er orsakir heyrnarleysis fyrst og fremst að finna í sjúkdómnum rauðum hundum. Fái vanfærar konur þennan sjúkdóm á vissu stigi, leiðir það svo til alltaf til heyrnarleysis, sjónleysis, hjartabilunar eða alls þessa, og af nemendum skólans, sem nú eru, eru tveir hópar: annar, sem var með 9 börnum upphaflega, hinn með 11 börnum, sem beinlínis er hægt að rekja til faraldra af rauðum hundum hér á landi. Það getur því komið til í framtíðinni, að sveiflur verði í nemendafjölda, og er þess vegna ekki rétt að hafa föst ákvæði um þessa hluti.

Í frv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að kennarar við heyrnleysingjaskólann njóti sömu réttinda til orlofs og aðrir kennarar í skólum á fræðsluskyldualdri. Menntmn. þótti augljóst, að þetta væri ekki nægilegt. Í fyrsta lagi er ekki krafizt af þessum kennurum eingöngu kennaraprófs, heldur sérmenntunar þar til viðbótar. Í öðru lagi verður augljóst við minnstu kynni af starfi í þessum skóla, að kennarastörf þar útheimta endalausa þolinmæði og miklu meiri alúð en ástæða er til að krefjast af kennurum í venjulegum skólum fyrir heilbrigð börn. N. leggur því til í 3. brtt. sinni á þskj. 314, að menntmrn. setji reglugerð um réttindi til orlofs fyrir kennara heyrnleysingjaskólans og skuli þar tekið tillit til þeirra sérstöku krafna, sem eru gerðar til kennara skólans, auk þess sem þeir njóti sömu réttinda og kennarar við aðra skóla, sem annast kennslu barna á fræðsluskyldualdri. Með þessu ákvæði, ef samþykkt verður, gefur Alþ. beinlínís í skyn, að það ætlist til þess, að ráðuneytið gert að einhverju leyti betur við kennara þessa skóla en aðra, með tilliti til þess, sem af þeim er krafizt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um frv. eða þær brtt., sem menntmn. gerir við það. Augljóst er, að í þessum skóla er unnið mikilvægt mannúðarstarf, þótt hann sé ekki stór, og er því ástæða til þess fyrir Alþ. að búa eins vel að stofnuninni og framast er unnt. Það er því till. menntmn., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. leggur til á þskj. 314.