26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 591 í B-deild Alþingistíðinda. (625)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Á þskj. 314 flytur hv. menntmn. 6 brtt. við þetta frv. Þær eru flestar um það að breyta nafninu á skólanum frá því, sem lagt er til í frv. N. vill ekki láta hann heita heyrnarleysingjaskóla, heldur vill hún, að hann nefnist heyrnleysingjaskóli. Ég sé enga ástæðu til þess að gera þessa breytingu á frv. Ég tel miklu réttara að halda við hinni gömlu málvenju, að tala um heyrnarlausa menn og heyrnarsljóa, heldur en heyrnlausa eða heyrnlitla. Á það má benda líka, að hv. n. hróflar ekki við heyrnarlausum eða heyrnarlitlum, sem eru hingað og þangað í frv. Það er þegar í 1. gr. talað um, að það skuli vera skóli fyrir heyrnarleysingja. N. leggur ekki til að breyta þessu í heyrnleysingja. Og þar er líka talað um heyrnarlaus eða heyrnarlítil börn. Þetta ætlar n. að láta standa. Nei, ég tel ekki ástæðu til að vera að breyta þessu nafni. Það er að vísu talað um sjónlausa menn og sjónlitla. Þetta hefur lengi tíðkazt og er orðið fast í málinu, alveg eins og heyrnarleysi. Ég sé enga ástæðu til að breyta þessu. Ég teldi, að það væri sízt til bóta að innleiða þetta í fleiri skólum. Ég teldi enga ástæðu til þess t.d. að leggja niður verzlunarskólann og fara að stofna verzlunskóla. Og ef við förum nú í háskólann, er nokkur ástæða til þess að skýra upp lagadeild háskólans og kalla hana lögdeild? Það getur vel verið, að það gæti staðizt, en ég sé ekki, að það sé nein þörf á slíku. Margt fleira þessu líkt mætti nefna. Annars kemur það víða fram hér í frumvörpum, að menn eru að amast við eignarfallinu. Það var frv. hér, sem var tekið fyrir næst á undan þessu, sem hæstv. dómsmrh. mælti fyrir, og þar er talað um, held ég, stjórnvaldatilkynningar eða eitthvað svoleiðis. Ég hefði fellt mig betur við, að þetta hefði verið stjórnarvalda, því að ef ég á erindi við ráðherrana, þá talar maður um að fara í stjórnarráðið, en ekki endilega taka upp á því að fara í stjórnráðið.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af hæstv. ríkisstj. Víst er það svo, að það er ákaflega mikil þörf á því að breyta frv., sem koma frá hæstv. núv. stjórn, og lagfæra margt í þeim. En einmitt vegna þess, að þar er mikið nauðsynjaverk fyrir hendi, sem þm. ættu að sinna af alvöru, þá tel ég ekki, að þeir ættu að vera að eyða orku sinni og tíma í að gera breytingar á stjórnarfrv., sem fremur eru til skemmda en bóta. Ég held satt að segja, að hv. menntmn. ætti, í staðinn fyrir að vera að amast við eignarfallinu í þessu tilfelli, að taka til umræðu, hvort hún gæti eitthvað lagað viðkomandi þágufalli og notkun þess í íslenzku máli.

Ég vil leggja á móti því, að þetta verði samþykkt, þessar brtt. nefndarinnar um nafn á skólanum, mér finnst það eigi að vera eins og er í frv.