26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég skal ekki blanda mér mikið í ágreining málfræðilegs eðlis í sambandi við þetta mál, það var annað, sem ég ætlaði að gera að umræðuefni. En úr því að farið er að tala hér um orð, þá get ég ekki annað en verið sammála hv. 1. þm. Norðurl. v. um það, að við eigum ekki að vera að taka okkur fyrir hendur hér á Alþingi að búa til nýyrði, það er annarra stofnana að búa til nýyrði í málinu. En það er það, sem hv. n. virðist hafa tekið sér fyrir hendur, að búa til nýyrði, sem gæti að vísu verið gott og gilt, en hefur að minni hyggju ekki áður verið til. Mér er a.m.k. ekki kunnugt um það. Að sjálfsögðu mætti spyrja orðabókarhöfunda, hvort þetta orð sé til í málinu. Ég er þeirrar skoðunar, að við hér á Alþingi eigum ekki að taka okkur fyrir hendur nýyrðagerð.

Það, sem ég ætlaði að ræða um, er sú efnisbreyting, sem virðist vera gerð með frv., og breyting á nafni skólans, sem hefur heitið málleysingjaskóli, en nú er gert ráð fyrir að nefna heyrnarleysingjaskóla — eða heyrnleysingjaskóla, ef farið er eftir tillögum menntmn. Ekki ætla ég að fara að rökræða það hér, af hverju málleysi stafi, og eflaust er það rétt, að það stafi að jafnaði af heyrnarleysi og að heyrnarleysi sé í raun og veru það mein, sem þjáir þá mállausu. Þarna er gert ráð fyrir í frv., að mér skilst, að heyrnarlaus börn — eða heyrnlaus — séu skólaskyld á vissum aldri. Nú held ég, að það sé ekki rangminni hjá mér, að í þessum skóla hafi verið hingað til börn og unglingar, sem voru ekki heyrnarlaus, en hins vegar mállaus, og víst er um það, held ég, að málleysi eða gallar á máli getur í vissum tilfellum stafað af öðru en heyrnarleysi. En ég vildi grennslast eftir því hjá hv. frsm., úr því að ráðh. er ekki viðstaddur, hvort það sé ekki ætlunin þrátt fyrir þetta, að mállaus börn eða mállítil geti áfram fengið að vera í þessum skóla, þó að þau séu ekki heyrnarlaus. Ef á að skilja málið þannig, að aðeins heyrnarlaus börn komist í skólann, þá held ég, að það sé breyting frá því, sem verið hefur, og ég vildi óska þess, að hv. frsm. veitti skýringu á þessu.