26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Eftir þeim upplýsingum, sem n. hefur fengið, mun það hafa komið fyrir, að kennarar skólans hafi tekið þangað börn, sem hafa haft mjög gallað málfar, og þá oft getað hjálpað þeim. En mér skilst, að það hafi verið talið til undantekninga. Það, sem hægt er að kalla mállaus börn eða mjög mállítil, stafar, eftir því sem okkur er sagt af þessum sérfróðu mönnum, að því er mér skilst, alltaf af heyrnarleysi. Ef hv. þm. vefengir það, get ég ekki annað en óskað eftir því, að hann ræði það við þá menn, sem þarna ráða húsum, og sérfræðinga. Hér hefur t.d. einn læknir, sérfræðingur á þessu sviði, tekið þátt í að semja þetta frv. með þessari breytingu og með þeirri grg., sem því fylgir. Ég verð að vísa hv. þm. í grg., og ef hún ekki nægir, þá til þeirra forráðamanna skólans og annarra, sem hafa undirbúið þetta frv.

Það er í grg. bent á ýmsar ástæður fyrir því, að gamla heitið á skólanum, málleysingjaskólinn, getur haft óþægilegar afleiðingar og valdið óþægilegum misskilningi, eins einfaldir hlutir og umgengni manna í nágrenni við stofnunina og viðhorf bifreiðastjóra, sem fara þarna um. Menn vita, að þetta er málleysingjaskóli, en þeir átta sig ekki á því, að þessi börn geta mörg látið út úr sér hljóð, sagt einfalda hluti, mismunandi mikið eftir þroskastigi, en þau eru öll fyrst og fremst heyrnarlaus eða nálega heyrnarlaus.

Ég hygg, að hv. d. sé alveg óhætt að treysta þeim upplýsingum, sem hér liggja fyrir og eru frá Brandi Jónssyni skólastjóra og Stefáni Ólafssyni lækni, og einnig, að hér séum við að ganga í fótspor annarra, sem einnig þekkja vel til í öðrum löndum, hvað þetta mál snertir.