26.02.1962
Neðri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (629)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Gísli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það var nú því miður lítið að græða á þeim skýringum, sem fram komu frá hv. frsm. n., en það, sem ég var að spyrja hann um, var, hvort hann áliti, að ekki mundi verða gert ráð fyrir því, að börn eða unglingar, sem eru mállaus eða mállítil af öðrum orsökum en heyrnarleysi, fái inngöngu í skólann. Sennilega hefur hv. frsm. ekki kynnt sér þetta, — ég er ekkert að ámæla honum fyrir það, — en vildi mælast til þess, að hann kynnti sér það fyrir 3. umr. og væri þá hægt að gefa svör um þetta nánar þá. En um þetta er ekki verið að spyrja að ástæðulausu, þannig að það er fullkomlega réttmætt að ætlast til þess, að þeir, sem hér standa fyrir málum, gefi sína skýringu á þessu.

Ég hef því miður ekki lesið nógu vel þá ýtarlegu grg., sem frv. fylgir frá n., sem undirbjó það. En ég hef ekki tekið eftir því, að það stæði í henni nákvæmlega þetta, sem frsm. gat um, að mállaus börn væru ávallt heyrnarlaus. Ég hef ekki tekið eftir því. Það getur vel verið, að það standi í henni þrátt fyrir það. En ég held, að það þurfi ekki að hafa um það langar umr., að barn getur verið mállaust eða málhalt af öðru en heyrnarleysi, það getur orðið það af slysi, svo að ég nefni dæmi, sem ekki er á heyrn, heldur á talfærum, þótt hitt megi trúlega til sanns vegar færa og sé sjálfsagt rétt, að meðfætt málleysi stafi yfirleitt af heyrnarleysi. Það er alkunna.

Ég vildi aðeins endurtaka þetta, sem ég var að spyrja um. En úr því að hv. frsm. getur ekki svarað því nú, þá væri æskilegt, að hann gæti svarað því við 3. umr.