02.03.1962
Efri deild: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (636)

14. mál, heyrnleysingjaskóli

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Frv. þetta um heyrnleysingjaskóla er samið af nefnd, sem menntmrn. skipaði fyrir hálfu öðru ári og í áttu sæti þeir Brandur Jónsson skólastjóri málleysingjaskólans, Ásgeir Pétursson deildarstjóri í menntmrn. og Stefán Ólafsson læknir. Í þessu frv. eru sett ýtarlegri ákvæði um störf núv. málleysingjaskóla en eru í gildandi lögum, en þau eru frá árinu 1922. Til þess tíma höfðu engin ákvæði verið í lögum um kennslu heyrnarleysingja, þótt slík kennsla hafi hins vegar farið fram hér á landi allar götur frá árinu 1865, er hún hófst í Þingmúla í Skriðdal.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að skólinn breyti um nafn. Nefndin hafði gert ráð fyrir því að kalla hann heyrnarleysingjaskóla, og þannig var hið upphaflega frv. ríkisstj. Nefndin taldi eðlilegt að kenna skólann við heyrnarleysi, en ekki málleysi, vegna þess að heyrnarleysi er hinn upprunalegi sjúkdómur, sem þjáir þá nemendur, sem þennan skóla sækja, en ekki málleysi, þar sem reglan er sú, að málleysi er afleiðing af heyrnarleysi nemendanna.

Annað nýmæli í frv. felst í 2. gr. þess, þar sem kveðið er svo á, að læknum skuli skylt að tilkynna skrifstofu landlæknis á þar til gerðum eyðublöðum, þegar þeir komast að raun um, að barn innan 7 ára aldurs hafi svo litla heyrn, að lítil líkindi séu til, að það læri málið, eða hætta sé á, að það missi málið vegna heyrnarleysis.

Í 3. gr. eru svo enn fremur skýr ákvæði um, að foreldrum eða forráðamönnum þeirra barna, sem annaðhvort eru fædd með svo litla heyrn eða þá að heyrn þeirra hefur skemmzt svo af sjúkdómum, slysum eða öðrum orsökum, að þau læri ekki málið á eðlilegan hátt, sé skylt að senda þau til náms í heyrnleysingjaskólann, þegar þau eru fjögurra ára gömul. M.ö.o.: skólaskylda heyrnarlausra barna á samkv. frv. að byrja við 4 ára aldur. Þó er gert ráð fyrir því, að fræðslumálastjóri geti í samráði við skólastjóra veitt undanþágu frá þessum ákvæðum.

Í frv. eru og mun fyllri ákvæði um kennaralið skólans en í gildandi lögum. í 6. gr. er m.a. svo ákveðið, að ekki megi skipa aðra skólastjóra eða kennara við skólann en þá, sem lokið hafi kennaraprófi við Kennaraskóla Íslands og prófi í kennslu heyrnarleysingja frá stofnun, sem fræðslumálastjórnin viðurkenni. Enn fremur er kveðið svo á um, að skólastjórar og kennarar skuli ekki skipaðir fyrr en eftir tveggja ára reynslutíma.

Í 12. gr. er síðan gert ráð fyrir því, að menntmrn. hafi á hendi yfirstjórn skólans, en skólastjóri fari með umboð fræðslumálastjórnar gagnvart kennurum skólans og nemendum og forráðamönnum þeirra.

Einnig eru ákvæði í frv. um heimild til þess að stuðla að sérmenntun kennara þeirra, sem starfa við skólann.

Hv. Nd. hefur samþykkt þetta frv. með dálitlum breytingum frá því; að það var lagt fyrir. Fyrri breytingin felst í því, að nafni skólans var breytt úr heyrnarleysingjaskóla í heyrnleysingjaskóla. Síðari breytingin er fólgin í því, að ákvæði frv. um kennara skólans voru gerð nokkru ýtarlegri en þau voru í frv. og þá sérstaklega aukinn réttur kennaranna með hliðsjón af því, að kennsla sú, sem þeir finna af hendi, er alveg sérstaks eðlis og gerir í raun og veru alveg sérstakar kröfur til þeirra manna, sem hana stunda. Með þeirri breytingu, sem hv. Nd. samþykkti á frv., er menntmrn. heimilað að setja reglugerð um réttindi til orlofs fyrir kennara heyrnleysingjaskólans, þar sem tekið sé tillit til þeirra sérstöku krafna, sem gerðar eru til kennara skólans, auk þess sem þeir eiga að njóta sömu réttinda og kennarar við aðra skóla, er annast kennslu nemenda á fræðsluskyldualdri. Hér er m.ö.o. gert ráð fyrir því að taka nokkurt tillit til þess, að störf þeirra kennara, sem hér er um að ræða, eru sérstaklega erfið og vandasöm, og tel ég, að Þessi breyting hv. Nd. á frv. sé til bóta.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.