20.11.1961
Neðri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Hæstv. forseti. Frv. til laga um lækkun á aðflutningsgjöldum á ýmsum vörum hefur verið til meðferðar í fjhn. hv. deildar. Á fundi n. mættu ráðgjafar ríkisstj. um samningu þessa frv., þeir tollstjóri, hagstofustjóri og ráðuneytisstjóri fjmrn., og gáfu þar ýmsar upplýsingar og svöruðu fyrirspurnum.

Nefndin er í heild sammála um stefnu frv. Hins vegar telur minni hl., að of skammt sé gengið, og auk þess vill hann eða hluti hans flytja brtt. við frv., og skila þeir þess vegna sérstökum nál., sem þeir munu gera grein fyrir.

Tollar eru í sjálfu sér eðlilegur tekjustofn fyrir ríki, enda lagðir á innflutning á vörum í öllum löndum, eftir því sem frekast er kunnugt um. Hins vegar er tollþunginn ákaflega mismunandi í hinum ýmsu ríkjum, en óvíða trúlega jafnmikill og hér á landi. Tollabyrðin hefur farið stöðugt vaxandi hérlendis, en úr hófi hefur þó keyrt á síðustu áratugum, svo að nú munu tollar að sögn hvergi vera jafnháir, a.m.k. í Vestur-Evrópu, og nú tíðkast hér á landi. Þessa þróun verður að telja mjög óæskilega og það af tveimur ástæðum: Fyrst og fremst orka háir tollar beint á lífskjör almennings og á afkomu atvinnuveganna. Þeir valda dýrtíð og gera atvinnuvegina ekki samkeppnishæfa í öðrum löndum. Og í öðru lagi leiða þeir gjarnan til lögbrota, þ.e.a.s. reynt er að flytja inn varning með ólöglegum hætti til landsins.

Tollahækkanirnar hér á landi hafa skeð með mörgum og mismunandi hætti og stafa af mismunandi ástæðum. Sumpart hafa nýir tollar og innflutningsgjöld með nýjum nöfnum verið lögð á. Sömuleiðis hafa gömul gjöld verið hækkuð. Þá hefur og tollgrunninum oft verið breytt, þannig t.d., að tollur var í sína tíð greiddur af fob-verði vara, en síðan var sá háttur tekinn upp að greiða beint af cif-verði vara, og svo má segja, að gengisbreytingar, beinar og óbeinar, hafi einnig haft veruleg áhrif til tollahækkunar. Það ber því vissulega að fagna því, að með frv. þessu er staldrað við og raunar snúið til baka, snúið við á tollahækkunarbrautinni. Þó ber eftir upplýsingum hæstv. fjmrh. aðeins að líta á frv. þetta sem takmarkaðan áfanga, þar sem tollskráin í heild mun vera til endurskoðunar.

Tilgangur frv. er, eins og ég sagði, takmarkaður, og sýnist hann vera þríþættur: í fyrsta lagi að koma í veg fyrir ólöglegan innflutning, í öðru lagi að hafa áhrif til lækkunar á verðlagi ákveðinna vörutegunda og í þriðja lagi að lækka einmitt tollana á þeim vörum, sem mestan tollþungann hafa fram til þessa borið.

Stjórnarandstaðan hefur innt eftir því, hvers vegna einar og aðrar vörur væru ekki teknar með í þessu frv., sem æskilegt hefði verið. Því er til að svara, að hér er um tilraun að ræða og fáar aðrar vörutegundir munu fullnægja öllum þeim þrem sjónarmiðum, sem ég áður gat um. Í öðru lagi eru tollar, eins og öllum er kunnugt, einn veigamesti tekjustofn fjárhagskerfis ríkisins og svigrúm því ekki ótakmarkað til að gerbreyta þeim, án þess að annað komi í staðinn. Sem dæmi má nefna, að ef innflutningur héldist óbreyttur að magni á þeim vörum, sem nú stendur til að lækka tolla á, mundi það kosta íslenzka ríkið 46 millj. kr. á ári í tekjumissi. Og til þess að ríkið héldi tekjum sínum, yrði ekki fyrir neinum tekjumissi, þyrfti innflutningur sömu vara að hækka um 58%. Það verður að svo komnu engu um það spáð, hver árangur verður af þessu frv., ef að lögum verður, en þessar tölur geta þó gefið vísbendingu um, að hæpið sé að svo stöddu að gera stórfelldari lækkanir í tilraunaskyni. Sýni það sig hins vegar í framkvæmdinni, að frv. beri tilætlaðan árangur, getur verið í því góð vísbending og þeim mun nauðsynlegri, þar sem heildarendurskoðun tollskrárinnar stendur nú einmitt yfir og tilætlunin, að niðurstöður þeirrar endurskoðunar verði lagðar í frumvarpsformi fyrir Alþingi á komandi hausti. Meiri hl. fjhn. telur því, að hér sé stigið spor í rétta átt og af varfærni, og mælir með Því, að frv. verði samþykkt óbreytt.