13.02.1962
Neðri deild: 48. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (660)

21. mál, lausaskuldir bænda

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Eitt af þeim málum, sem liggja fyrir þinginu, er frv. til laga um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán. Þetta er stjórnarfrv., lagt fram skömmu eftir að þing var sett í haust, til staðfestingar á brbl., er út voru gefin 15. júlí næstliðið ár. Frv. fór til fjhn. í þessari deild, nefndin skilaði álitum um það í nóvembermánuði, og tveir nefndarmenn lögðu fram brtt. við frv. En þó að svona langt sé liðið, síðan nál. komu fram, hefur málið ekki enn verið tekið til 2. umr. Það hefur að vísu nokkrum sinnum verið sett á dagskrá í þingdeildinni, þrisvar sinnum í nóvember, eftir að nefndarálit komu fram, þrisvar í desember og tvisvar í febrúar, en aldrei verið tekið fyrir til umr. Síðast var málið fyrst á dagskrá deildarinnar í gær, en þó ekki tekið fyrir, heldur önnur mál. Og það er ekki á dagskrá þingdeildarinnar í dag.

Nokkru eftir að þessi brbl. voru gefin út í næstliðnum júlímánuði, var auglýst eftir umsóknum um lán samkvæmt þeim, og var fram tekið, að lánaumsóknir skyldu berast fyrir 1. okt. Það munu eitthvað yfir 1000 menn hafa sótt um lán samkv. brbl., og í upphafi munu ýmsir hafa gert sér vonir um það, að afgreiðsla á lánum fengist fyrir áramótin síðustu. Svo varð þó ekki. Enn mun ekki vera farið að veita nein lán samkv. þessum brbl. Þetta hefur komið sér illa fyrir ýmsa umsækjendur, þessi dráttur, og menn spyrja margir, sem hlut eiga að máli, sem eðlilegt er, hvað þessu valdi, að allt situr fast, engin lán afgreidd og málinu miðar ekkert áfram í þingi. Það er enn í fyrri deildinni og meðferð þess eins og ég hér hef lýst. Nú er það mjög óvenjulegt, held ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að það sé svo lengi dregið að taka mál til 2. umr., eftir að nefnd hefur skilað áliti. Þetta er því orðinn óeðlilegur dráttur, sem kemur sér illa fyrir marga. Ég vil leyfa mér að beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, að málið verði nú tekið fyrir hið allra fyrsta hér í hv. deild og það dragist ekki lengi, að það fái hér einhverja afgreiðslu.