15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

21. mál, lausaskuldir bænda

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Hv. frsm. 1. minni hl. viðhafði hér stóryrði, áður en hann fór úr ræðustólnum, fullyrðingar um það, að bændur væru rangindum beittir, ef ekki fengist breyting á því frv., sem hér er um að ræða. Rökin vantaði fyrir þessum stóryrðum, og er það vissulega leitt, þegar þingvanir menn láta sér það sæma að kasta svona stóryrðum út í loftið. Ég mun færa rök fyrir því, að þessi fullyrðing stenzt ekki og að bændur munu ekki á einn eða annan hátt búa við lakari kjör en sjávarútvegurinn í þessu efni.

Þetta mál hefur verið mikið rætt áður og oft af miklum misskilningi. Samþykktir hafa verið gerðar í þessu máli víðs vegar um landið, sem hafa verið byggðar á rangri túlkun, og er það mjög leitt. Það er víst, að þegar ríkisstj. ákvað að gefa út brbl. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, var það sjónarmið ráðandi að búa þannig um hnútana, að lögin kæmu að sem beztum notum. Talið var eðlilegt að byggja lausn málsins á frjálsu samkomulagi milli skuldara og skuldareiganda. Talið var eðlilegt að sníða löggjöfina, eftir því sem hagkvæmt þótti, eftir löggjöf um breyt. á lausaskuldum sjávarútvegsins. Var þó ekki hér um sömu aðstöðu að ræða, þar sem sjávarútvegurinn hefur viðskipti aðeins við tvo banka, Landsbankann og Útvegsbankann. Skuldir bænda eru við bankana, flesta sparisjóði, kaupfélögin og fleiri verzlanir auk fjölda annarra aðila.

Ákveðið er, að veðdeild Búnaðarbankans gefi út nýjan flokk bankavaxtabréfa og sjái um framkvæmd málsins. Bréfin verða til 20 ára með 7½% vöxtum. Samkomulag var strax við ríkisbankana um að taka bréfin á nafnverði til greiðslu á víxlum, sem þeir höfðu keypt af bændum. Með því tóku bankarnir á sig vaxtatapið af þessum viðskiptum. Samningur við Seðlabankann og frekara samkomulag við viðskiptabankana var talið eðlilegt að biði, þar til fyrir lægi, hversu upphæðin væri há, sem semja þyrfti um. Umsóknarfrestur fyrir lánunum var til 1. okt. s.l. Lögin voru gefin út, eins og kunnugt er, um miðjan júlí 1961, og höfðu menn því tvo og hálfan mánuð til þess að undirbúa umsóknirnar. Ekki gafst tími til þess að vinna úr umsóknunum fyrir áramót vegna annríkis, sem ávallt er í Búnaðarbankanum síðustu mánuði ársins vegna venjulegra lána. Um miðjan janúar s.l. barst sundurliðuð skýrsla frá Búnaðarbankanum um þær umsóknir, sem borizt höfðu. Með því að allt væri tekið til greina, gætu lánin numið 82 millj. kr. Samkomulag hefur orðið við Seðlabankann um að kaupa veðdeildarbréf á nafnverði af sparisjóðum og kaupfélögum, eins og segir í bréfi bankans, en það hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til þess að greiða fyrir því, að hægt verði að breyta lausaskuldum bænda í löng lán samkvæmt lagafrv. því, sem nú liggur fyrir Alþingi, er Seðlabankinn reiðubúinn að gera eftirfarandi:

1) Að taka, sé þess óskað, þau veðdeildarbréf, sem sparisjóðir og kaupfélög vegna innlánsdeilda sinna veita móttöku með nafnverði upp í umræddar skuldir, upp í innlánsbindingu viðkomandi aðila á árinu 1962 og eftirstöðvar frá árinu 1961.

2) Þá sparisjóði, sem þurfa að veita viðtöku hærri fjárhæð af bréfum en svo, að gangi til greiðslu innlánsbindingarinnar, sem greind er í lið 1, er Seðlabankinn reiðubúinn að aðstoða með því að kaupa þessi bréf gegn því, að andvirði þeirra leggist á bundinn reikning í Seðlabankanum. Þetta fé ávaxtist þar með sömu vöxtum og annað bundið fé á hverjum tíma, sem mun vera 9% nú, en verður leyst eftir því sem ástæður leyfa, þó ekki á skemmri tíma en þremur árum.

3) Seðlabankinn gerir þetta með þeim skilningi, að Landsbankinn, Búnaðarbankinn og Útvegsbankinn taki með nafnverði þau veðdeildarbréf, sem kaupfélög og önnur verzlunarfyrirtæki taka upp í áðurgreindar skuldir umfram það, sem Seðlabankinn kann að taka við samkv. lið 1, til lækkunar skulda félaganna og fyrirtækjanna við viðkomandi banka eða til lækkunar á skuldum Sambands ísl. samvinnufélaga, enn fremur, að sömu bankar séu reiðubúnir að taka veðdeildarbréfin upp í greiðslur greindra skulda við þá án aðildar frá Seðlabankanum.“

Þannig hljóðar bréf Seðlabankans, og virðist ljóst vera, að sparisjóðirnir hafi ekki eftir þetta ástæðu til að ganga gegn því að skipta skuldunum, þar sem þeir verða ekki fyrir vaxtatapi og þurfa ekki að binda féð óeðlilega lengi. Búnaðarbankinn og Landsbankinn hafa heitið því að taka veðdeildarbréf á nafnverði til lækkunar á skuldum kaupfélaga og SÍS og einnig annarra verzlunarfyrirtækja. Útvegsbankinn hefur einnig tekið vel þessari málaleitan, þótt ekki hafi borizt formlegt svar frá þeim banka, en þar er aðeins um lítilræði að ræða, sem áreiðanlega verður samkomulag um. Eftir þetta samkomulag við bankana er engin ástæða fyrir sparisjóði, kaupfélög eða aðrar verzlanir að skorast undan því að samþykkja breytingu á lausaskuldum bænda í löng lán. Bréfin verða tekin á nafnverði til lækkunar á skuldum, og Seðlabankinn mun gera sparisjóðunum fært að taka bréfin, án þess að þeir verði fyrir vaxtatapi eða þurfi að festa fé í óhæfilega langan tíma. Má því reikna með, að flestir bændur, sem sótt hafa um þá fyrirgreiðslu, sem ætlað er að veita með þessum lögum, fái jákvæða afgreiðslu.

Fjhn. þessarar deildar hefur haft málið til meðferðar og ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Minni hl. telur lögin ófullnægjandi og veita lakari og minni fyrirgreiðslu bændum til handa heldur en sjávarútvegurinn hefur fengið. Minni hl. telur sjálfsagt að skylda Seðlabankann til þess að taka bankavaxtabréfin með nafnverði. Að öðrum kosti komi lögin ekki að gagni, segir minni hl. Er svo að sjá sem þeim, er að minni hl. standa, hafi ekki komið til hugar, að hugsanlegt væri að semja við bankana um málið, eins og nú hefur verið gert og alltaf hefur staðið til að gera. Vissulega er eðlilegra að fara samningaleiðina, ef hún er fær, og grípa ekki til lögfestingar, nema nauðsyn beri til.

Minni hl. finnur að því, að lánin til bænda verði veitt eingöngu í bankavaxtabréfum, og gefur í skyn, að með því sé verr búið að bændum en sjávarútveginum. Þess ber að geta, áð sjávarútvegurinn fékk ekki nýtt fé í sambandi við breytingu lánanna fremur en bændum er ætlað að fá með þessum lögum. Að því leyti er um sams konar fyrirgreiðslu að ræða hjá sjávarútvegi og landbúnaði. Með því að bréfin ganga á nafnverði, er að fullu greitt fyrir því, að lausaskuldum verði breytt í föst lán, og má ætla, að bændur fái tiltölulega betri fyrirgreiðslu en sjávarútvegurinn, þar sem sjávarútvegurinn situr enn uppi með talsvert af lausaskuldum þrátt fyrir þá löggjöf, sem vitnað hefur verið til.

Minni hl. finnur að því, að bændalánin skuli aðeins veitt gegn veði í fasteignum og mannvirkjum, sem á jörðunum eru. Þetta atriði mun ekki skapa erfiðleika, þar sem það munu vera fá dæmi um, að ekki séu fyrir hendi nægileg veð fyrir skuldunum. Útilokað er að taka vélar í veð fyrir 20 ára lánum, en hér er aðeins um 20 ára lán að ræða.

Fundið er að því, að ekki skuli lánað gegn veði í vinnslustöðvum landbúnaðarins og vélum. Um vinnslustöðvarnar er það að segja, að það, sem veldur erfiðleikum hjá þeim, er vöntun á fé, en ekki það, að lausaskuldir hvíli á þeim að verulegu ráði. Á vinnslustöðvum sjávarútvegsins hvíldu hins vegar lausaskuldir, víxlar og aðrar óumsamdar skuldir, sem að nokkru leyti hefur verið breytt í föst lán. Fjárskortur vinnslustöðva landbúnaðarins verður ekki bættur nema með nýju fé, með útvegun nýrra lána og þá helzt úr ræktunarsjóði, eftir að hann hefur verið efldur. Sama máli gegnir um vélar. Bændur þurfa að fá ný lán út á vélar, og er sú þörf mjög brýn og aðkallandi. Ræktunarsjóður hefur ekki áður getað lánað út á vélar vegna fjárskorts. Nauðsynlegt er að gera ráðstafanir til þess nú þegar, að ræktunarsjóður megi verða það öflugur að geta tekið þennan þátt lána að sér. Væri eðlilegt að veita lán út á vélar til 10 ára, allt að 50–60% af kaupverði vélanna. Að því máli er nú unnið með það fyrir augum, að lánasjóðir landbúnaðarins verði efldir og geti tekið að sér nauðsynlegustu lánamál landbúnaðarins.

Þá finnur minni hl. fjhn. mjög að því, að vextirnir af lánunum skuli vera nokkru hærri, eins og það er orðað, heldur en hjá sjávarútveginum. Segja má, að æskilegt væri, að vextirnir gætu verið lægri. Við samanburð á vöxtum, sem sjávarútvegurinn greiðir, mun hins vegar koma í ljós, að bændur borga sízt hærri vexti, þegar á allt er litið. Bændur fá vextina reiknaða inn í verðlag landbúnaðarvara. Þótt það sé rétt, að verðlagsgrundvöllur landbúnaðarins sé ekki fyllilega réttur og nokkra útgjaldaliði við búreksturinn vantar inn í grundvöllinn, þá er hitt víst, að ekki er deilt um, að bændur fái að fullu inn í grundvöllinn þá vexti, sem þeir greiða. Um hitt er deilt, hvort bændum beri að fá meiri vexti af eigin fé, sem í búrekstrinum er bundið. Að því hlýtur að koma og það fljótt, ef rétt er á haldið, að bændur fái viðurkennda þá útgjaldaliði, sem þeir sannanlega verða að greiða við búreksturinn. Ég segi: ef rétt er á haldið, þannig að full og nauðsynleg rök séu færð fyrir því, að þetta séu útgjöld við búið. Það er ekki hægt fyrir bændur að una við annað en að útgjaldaliðirnir séu teknir til greina. Með því að útflutningstryggingin, sem landbúnaðurinn nú hefur, gefur verðtryggingu, sem sjávarútvegurinn hefur ekki, má fullyrða, að bændur greiða ekki nema hluta af vöxtunum, e.t.v. aðeins lítinn hluta. Meginhlutann fá þeir endurgreiddan í gegnum verðlagningu afurðanna. Sjávarútvegurinn fær ekki bætt verðfall á sjávarafurðum, og er því ekki líku saman að jafna, þegar rætt er um það, að sjávarútvegurinn fái reiknaða vexti í rekstrarkostnaði. Sjávarútvegurinn fékk ekki bætt verðfall á lýsi og mjöli, og verði fiskurinn seldur á lægra verði en áætlað var, þá er engin verðtrygging sjávarútveginum til handa.

Rétt er að geta þess vegna þess, hversu skuldir bændanna eru við marga aðila, að það er mun erfiðara að breyta þeirra skuldum í föst lán heldur en skuldum sjávarútvegsins, þar sem aðeins er við tvo banka að eiga, eins og áður er að vikið.

Minni hl. fjhn. telur, að bændur eigi að búa við sama rétt og útvegsmenn. Ég mundi vissulega segja, að þeir ættu hvergi að búa við lakari rétt. Það skal vissulega játað, að þeir eiga ekki að hafa minni eða lakari rétt. En þegar talað er um sama rétt, gæti minni hl. haft það í huga, að bændur ættu ekki heldur að hafa annan eða betri rétt en útvegsmenn. Ástæða er til að spyrja, hvort minni hl. telur eðlilegt, að útflutnings- og sölutrygging landbúnaðarins verði afnumin, af því að sjávarútvegurinn hefur ekki sams konar tryggingu. Vill minni hl., að lánin til landbúnaðarins verði aðeins til 10 eða 15 ára, eins og hjá sjávarútveginum, en ekki til 20 ára, eins og gert er ráð fyrir í þeim lögum, sem hér er um að ræða? Vill minni hl., að bændur fái ekki betri fyrirgreiðslu á lausaskuldum sínum en sjávarútvegurinn, þannig að umsækjendur sitji uppi með talsverðar lausaskuldir, eftir að lögin hafa verið framkvæmd, eins og sjávarútvegurinn óneitanlega gerir í mörgum tilfellum? Hvað á minni hlutinn við, þegar hann talar um, að bændur eigi að hafa sama rétt og sjávarútvegurinn? Fullyrða má, að með þeim lögum, sem hér er um að ræða, gefst bændum kostur á að fá betri fyrirgreiðslu en sjávarútvegurinn hefur fengið, og skal það játað, að nauðsynlegt er, að það geti orðið. Fullyrða má, að þeir bændur, sem sent hafa umsóknir fyrir tilskilinn tíma og hafa tilskilin veð, en það munu langflestir hafa, ættu að fá þá fyrirgreiðslu, að þeir geti losað sig að öllu leyti við þær lausaskuldir, sem á þeim hvíla, að örfáum mönnum undanskildum, sem kunna að vera svo illa settir, að þeir eigi ekki eignir á móti skuldunum. Af framansögðu er ekki ástæða til að breyta frv., til þess að það nái tilgangi sínum. Ekki er heldur ástæða til að framlengja umsóknarfrestinn, þar sem bændur höfðu 2½ mánuð til undirbúnings á umsóknum og ætla má, að þeir hafi sótt um lánin, sem töldu sig hafa þörf fyrir þá fyrirgreiðslu, sem hér er beðið um, enda mundi Það tefja fullnaðarafgreiðslu málsins óheyrilega lengi. Fullyrðing minni hl. um, að bændur hafi ekki sótt um lánin, vegna þess að lögin, eins og þau nú eru, kæmu ekki að gagni, hefur ekki við rök að styðjast, enda hafa 1200–1300 bændur óskað eftir að notfæra sér það tækifæri, sem hér gefst.

Hvort minni hl. eða menn honum skyldir eiga sök á því, að einhverjir bændur verða út undan, vegna þess að þeim hefur verið ráðlagt að sækja ekki um lán, skal ósagt látið. Ef svo er, ber þeim, sem hafa gefið hin óhollu ráð, að bæta fyrir það.

Með nál. minni hl. fylgir bréf frá Stéttarsambandi bænda. Stjórn Stéttarsambands bænda telur, að langþýðingarmesta breytingin, sem gera þurfi á frv., sé sú að tryggja, að veðdeildarbréfin verði tekin á nafnverði. Þessari ósk stjórnar Stéttarsambands bænda hefur verið fullnægt, eins og alltaf stóð til að gera, án þess að breyta staf í frv. Önnur till. Stéttarsambandsins er, að lánið verði veitt út á vélar til 10 ára. Það á ekki heima í þessum lögum, enda er unnið að því að verða við þessum tilmælum Stéttarsambandsins með öðrum hætti, eins og áður hefur verið vikið að. Þriðja atriðið, sem stjórn Stéttarsambandsins minnist á, eru vextirnir. Af eðlilegum ástæðum leggur stéttarsambandsstjórnin ekki megináherzlu á þetta atriði, enda þekkja þeir menn, sem eru í stjórn sambandsins, eðli þess máls og vita, að bændur fá óumdeilanlega drjúgan hluta af ógreiddum vöxtum endurgreiddan, meðan lög um verðtryggingu og útflutningsuppbætur eru í gildi. Ég hef rætt þessi mál við menn í stjórn Stéttarsambandsins, og eru þeir fyllilega sömu skoðunar og ég hef lýst hvað það snertir, að bændur fái mikinn hluta af vöxtunum endurgreiddan gegnum verðlagið.

Af því, sem hér hefur verið fram tekið, er augljóst, að eins og lögin eru út gefin af hendi ríkisstj., munu þau ná þeim tilgangi, sem ætlað var, og losa þá bændur, sem sótt hafa um fyrirgreiðslu vegna lausaskulda, við skuldirnar og gera þeim á þann hátt búreksturinn léttari og á margan hátt auðveldari en verið hefur. Líklegt má telja, að sú fyrirgreiðsla, sem hér er boðið upp á, gæti komið í framkvæmd í marz eða aprílmánuði, ef málið fengi fullnaðarafgreiðslu hér í hv. Alþ. nú næstu vikurnar.