16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í B-deild Alþingistíðinda. (670)

21. mál, lausaskuldir bænda

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki blanda mér í þær almennu umr., sem efnt hefur verið til af hendi hæstv. ráðh. um landbúnaðarmál, en kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til þess að ræða dálítið nánar það atriði í málinu, sem ég minntist á og hæstv. ráðh. ræddi nokkuð í sinni ræðu, en það er sú breyting, sem nú hefur verið gerð á málinu, og hvernig hún er til komin, þ.e.a.s. sú breyting, sem gerð hefur verið á framkvæmd málsins, þar sem skuldabréfin eru nú gerð að miklu leyti gjaldgeng í banka.

Ég lét í ljós ánægju yfir því, að hæstv. ráðh. hefði látið undan þrýstingi frá framsóknarmönnum um þetta veigamikla atriði í málinu og hefði einnig auðsjáanlega orðið fyrir áhrifum frá þeim fundum, sem bændur hafa haldið, þar sem þeir hafa mótmælt skuldaskilaaðferðinni, eins og hæstv. ráðh. hugsaði sér hana, og krafizt þess m.a., að skuldabréfin yrðu gerð gjaldgeng, þannig að þessi lán gætu komið að notum fleirum en þeim, sem skulduðu beint bönkum. En áður en skuldabréfin voru gerð gjaldgeng, komu þessi lán að sáralitlu gagni fyrir aðra en þá, sem skulduðu þeim bönkum beint, sem höfðu fyrir fram fallizt á að taka þessi bréf upp í skuldir við sig.

Mér fannst hæstv. ráðh. ekki vera ánægður yfir þessu, að ég skyldi láta þetta í ljós, og þótti mér það einkennilegt, því að það er sannarlega engin minnkun fyrir hæstv. ráðh. að hafa tekið til greina réttmæta gagnrýni í þessu efni, fremur en nokkurn annan, sem tekur til greina réttmæta gagnrýni og reynir að laga það, sem aflaga fer í því, sem hann ætlast fyrir. Þess vegna kom mér það dálítið einkennilega fyrir, að hæstv. ráðh. virtist taka þessu fremur illa, að ég benti á, að hann hefði tekið þessa gagnrýni að nokkru leyti til greina.

Í stað þess að viðurkenna þetta hélt hæstv. ráðh. því fram, að hér hefði ekkert annað gerzt en það, sem frá upphafi hefði ekki aðeins verið fyrirhugað, heldur alveg sjálfsagt. Það var allur tónninn í ræðu hæstv. ráðh.: það hefði frá upphafi verið sjálfsagt að gera þessi bréf gjaldgeng í bönkunum, þannig að menn gætu haft full not af lánunum. En það er þarna, sem hæstv. ráðh. skjátlast, — þ.e.a.s. honum skjátlast auðvitað ekki, en það er þarna, sem hann fer rangt með, því að það er hægt að sýna fram á með hans eigin orðum, það þarf ekkert að fara á milli mála, að þessi var ekki stefnan í málinu, og það er leiðinlegt að vera að kýta um þetta fram og aftur. Það er bezt að lofa þm. að heyra, hver var stefna hæstv. ráðh. í þessu. Mun ég því, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér í ræðu hæstv. ráðh. um þetta efni frá 23. okt. s.l., en þá voru þessi brbl, hér til umr. í þinginu, hv. Alþingi, og þá var bændum ætlað að vera búnir að senda inn sínar umsóknir, svo að yfirlýsingar hæstv. ráðh. þá sýna alveg glöggt, hvernig þetta mál var hugsað af hans hendi, meira að segja eftir að umsóknirnar voru komnar inn, enda er þetta í sömu átt og allt, sem fram hafði komið um málið, þangað til hæstv. ráðh. varð hræddur við gagnrýni framsóknarmanna og samþykktir bændafundanna og fór í dauðans ofboði að reyna að laga málið. Í þeirri ræðu greinir hæstv. ráðh. fyrst frá því, að stjórnin hafi fengið Landsbankann og Búnaðarbankann til þess að breyta skuldum bænda við þá í löng lán, taka skuldabréfin upp í skuldir beint við þá, en síðan segir hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Hins vegar hefur ríkisstj. ekki tekið að sér að semja við sparisjóði eða verzlanir. Það verður að vera samkomulagsatriði á milli bændanna, sparisjóðanna og verzlananna, hvort samkomulag tekst um að breyta lánunum í 20 ára skuldabréf. Það má vel vera, að kaupfélögin og aðrar verzlanir kæri sig ekki um að breyta verzlunarskuld í svo langt lán og fá bréf í staðinn. En ég hygg þó, að með þeim vöxtum, sem eru á bréfunum, muni skapast möguleiki til að nota bréfin á einhvern máta til greiðslu á skuldum.“

Þetta er það, sem hæstv. ráðh. segir sjálfur hér á hv. Alþingi 23. okt. um það, hvernig þetta eigi að fara fram samkv. löggjöfinni. Enn fremur segir hæstv. ráðh., með leyfi hæstv. forseta:

„Þá veit ég, að sparisjóðirnir munu gera það, sem í þeirra valdi stendur. En það má náttúrlega segja, að það sé vaxtamismunur. Þeir hafa lánað út með 9½% framlengingarvöxtum af víxlum, en af bréfunum verða aðeins 7½%. Allt verður þetta að vera samningsatriði á milli þeirra, sem skulda, og þeirra, sem skuldina eiga. Það hefur ekki verið talið fært að skylda verzlanir eða sparisjóði til að taka að sér þessa breytingu, og ég hygg, að vegna þess, að vextirnir voru ekki hafðir lægri af bréfunum heldur en þetta, þá verði auðveldara með samkomulag. Ef vextirnir hefðu verið t.d. 6%, má reikna með, að samkomulagsumleitanirnar hefðu orðið miklu erfiðari.“

M.ö.o.: það fer ekkert á milli mála um þetta. Hæstv. ráðh. hugsaði sér, að bændur stæðu í þjarki um þetta mál við þá, sem þeir skulduðu, og setti vextina svona miklu hærri en hjá sjávarútveginum, að því er hann sjálfur segir, til þess að bændur gætu frekar komið bréfunum út. En núna, eftir að hæstv. ráðh. varð hræddur og það var augljóst, að málið náði alls ekki tilgangi sínum, og framsóknarmenn höfðu hafið harða baráttu og bændur ályktað um þessa óhæfu á mýmörgum fundum úti um allt land, þá lætur ráðh. fresta málinu hér um langt skeið í Alþingi og semur í dauðans ofboði, tekst þá fyrir þessa pressu að fá bréfin gerð gjaldgeng. Þegar þessu er svo öllu lokið, kemur hæstv. ráðh. og segir, þvert ofan í sínar eigin ræður, sem liggja hér fyrir hverjum, sem lesa vill, að það hafi aldrei komið annað til greina en að þessi bréf yrðu fullkomlega gjaldgeng alla leiðina í bankann og hefði því enginn þurft að hafa neinar áhyggjur af því. Við þetta bætist svo, að hæstv. ráðh. hefur meira að segja notað þetta, að bréfin áttu ekki að vera gjaldgeng, sem röksemdir fyrir því, að bændur yrðu að greiða hærri vexti en sjávarútvegurinn. Það var strax sett í lög, að sjávarútvegsbréfin skyldu vera gjaldgeng upp í skuldir, og þá gátu vextirnir verið lágir, en hæstv. ráðh. sagði, að þeir yrðu að vera svona háir hjá bændunum, af því að það væri ómögulegt að tryggja, að skuldabréfin gengju upp í lánin. Þess vegna yrðu vextirnir að vera svona háir. Þegar svo hæstv. ráðh. er kominn alveg í hring í þessu atriði og búið er að pressa hann nægilega, sem sé svo, að hann sá sér ekki fært annað en fá þetta lagað, þá er komin alveg ný röksemd fyrir háu vöxtunum hjá landbúnaðinum. Nú er hún sú, að það geri ekkert til, það sé alveg sama fyrir bændur, hve háa vexti þeir borgi, það skipti engu máli, því að neytendurnir borgi alla vextina fyrir þá í verðlagi afurðanna.

Það má segja, að þessi hæstv. ráðh. er með fleira en einu móti undarlegt fyrirbrigði, því að eftir þessari röksemdafærslu ætti það t.d. að vera alveg nákvæmlega sama fyrir bændur, hvað það kostaði, sem þeir þyrftu til framleiðslunnar yfir höfuð, því að neytendurnir greiddu það allt saman í hærra verði á landbúnaðarafurðunum. Þá fer maður að skilja, að þessi hæstv. ráðh. hefur ekki miklar áhyggjur af verðinu á traktorunum og öðru slíku. Það gengur allt eftir hugsanagangi þessa hæstv. ráðh. beina leið inn í verð landbúnaðarafurðanna og er borgað af neytendunum. Það er varla ástæða til þess að svara svona fjarstæðu, enda gefur auga leið, hvernig bændum gengur yfir höfuð að fá réttmæta kostnaðarliði tekna til greina í verðlagi afurðanna, þar sem nauðsynlegustu fyrningar og nauðsynlegustu vextir af eigin fé fást alls ekki teknir til greina í afurðaverðinu. Og má þá svo sem nærri geta, hvernig gengur fyrir bændur að koma hinu nýja traktorsverði hæstv. landbrh. og hinum nýju vöxtum hans og öðru slíku inn í verðlagið eða hvaða áhrif það svo yfir höfuð hefði að fá sölumöguleika á landbúnaðarafurðunum og annað, ef það fæst inn.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta, því að þess gerist ekki þörf. Það liggur alveg ljóst fyrir, hvernig hæstv. ráðh. hugsar sér þetta mál og hverjar yfirlýsingar hans voru í því efni og svo hvað áunnizt hefur þrátt fyrir allt með þeirri baráttu, sem uppi hefur verið haldið. Og það er alveg sama, hvernig hæstv. ráðh. fer að, það er alveg óhugsandi fyrir hann að gera þetta óglöggt fyrir nokkrum manni.

Þá sagði hæstv. ráðh., að sér fyndist það einkennilegt, að framsóknarmenn skyldu ekki vilja taka til baka tillöguna um, að Seðlabankanum væri skylt að kaupa bréfin, eftir að þessir samningar hefðu orðið, sem nú hafa verið birtir, varðandi það, að ýmsar bankastofnanir tækju þessi bréf ýmist upp í skuldir eða í staðinn fyrir það sparifé, sem á að binda. En hæstv. ráðh. verður að sjá, að það hefur talsverða þýðingu samt sem áður, að bréfin séu gerð gjaldgeng að fullu. Mér sýnist tvær ástæður liggja til þess. Önnur er sú, að það verður sjálfsagt mjög erfitt fyrir suma af sparisjóðunum að framkvæma þetta á þá lund, sem gert er ráð fyrir í þessu bréfi bankanna. Þetta er annað atriðið, sem ég kem auga á. Hitt atriðið er, að ég sé ekki, hvernig hægt er að leysa einkaskuldamál eða einkaskuldaviðskipti öðruvísi en bréfin séu gerð gjaldgeng. Það hefur því þýðingu, að þetta verði gert alveg fortakslaust.

Fyrst ég er staðinn upp og kominn hér, vil ég ekki fara héðan, — þó að ég ætlaði mér ekki að blanda mér inn í hinar almennu umr. um landbúnaðarmál, sem orðið hafa, — án þess að mótmæla einu atriði, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Hann gerði hér með mjög undarlegu móti að umtalsefni áramótagrein forstjóra Sambandsins, sem birtist í tímaritinu Samvinnunni, og fór um hana mörgum bitrum orðum og óviðurkvæmilegum. Ég gat ekki skilið hæstv. ráðh. öðruvísi en svo, að hann héldi því fram, að forstjóri Sambandsins hefði farið með ósatt mál a.m.k. í tveimur atriðum, sagði t.d. móðgun við fólkið að halda öðru eins fram og forstjórinn hefði gert og dreifa því á fjölda heimila, eða eitthvað á þá lund komst hæstv. ráðh. að orði. Og þessi tvö atriði, sem hneyksluðu hæstv. ráðh. svo mjög og hann sagði að væru ósönn, var annars vegar það, sem forstjóri Sambandsins sagði um afurðalán, en það er á þessa lund, með leyfi hæstv. forseta:

„Afurðalán til bænda út á birgðir sauðfjárafurða hafa á tveimur árum verið lækkuð úr 67% í 50–54%. Lán út á birgðir sjávarafurða eru hins vegar a.m.k. 75%.“

En það er þetta síðara atriði í þessu, sem hæstv. landbrh. sagði að væri algerlega rangt, að lán út á birgðir sjávarafurða væru a.m.k. 75%. Aftur á móti held ég, að hann hafi ekki mótmælt hinu atriðinu. Það sanna í þessu efni er, að afurðalán til bænda út á birgðir sauðfjárafurða hafa á tveimur árum verið lækkuð úr 67% í 50–54% eins og forstjórinn segir. En forstjórinn getur þess ekki í leiðinni, sem hefði þó vel mátt fylgja með, að jafnhliða hefur Seðlabankanum verið bannað að auka lánveitingar í heild út á landbúnaðarafurðir, og hefur því samdráttur afurðalána út á landbúnaðarafurðir orðið miklu meiri en greinir í þessari frásögn forstjóra Sambandsins, vegna þess að framleiðsla landbúnaðarafurða hefur aukizt, en heildarfjárhæð út á þær hefur ekki mátt hækka.

En varðandi það, sem hæstv. ráðh. sagði að væri rangt frá skýrt, þ.e.a.s. lánin út á birgðir sjávarafurða, er það að segja, að Seðlabankinn mun endurkaupa sem svarar 50–54% út á sjávarafurðir, en viðskiptabankarnir hafa fyrir fasta reglu að bæta við afurðalánin frá sjálfum sér, og í langflestum tilfellum eru lánin út á sjávarafurðirnar mun meiri en 75%, enda segir forstjóri Sambandsins: a.m.k. 75%. Hér er því um laukrétta frásögn að ræða hjá forstjóranum, því að í mörgum dæmum eru þessi afurðalán vafalaust 90%. Það er því sízt of djúpt tekið í árinni. En þau afurðalán eru ekki öll frá Seðlabankanum. Það er bætt við í viðskiptabönkunum.

Hitt atriðið var, að forstjórinn hefði sagt, að ríkissjóður hafi skuldað vegna lögboðinna út flutningsuppbóta á kjöt 17 millj. 600 þús. kr. um áramótin. Þetta væri rangt, sagði hæstv. ráðh., því að þessar 17.6 millj. hefðu ekki verið fallnar í gjalddaga, sagði hann, vegna þess að þær hefðu ekki verið komnar á fjárlögin, — þær hefðu ekki verið komnar á fjárlögin. Þetta voru svör hæstv. landbrh., og þess vegna sagði hann, að forstjórinn hefði farið með ósannindi í þessari grein varðandi þessa skuld ríkissjóðs vegna lögboðinna útflutningsuppbóta á kjöt.

En hvað er nú hið rétta í þessu? Hið rétta í þessu er, að þessi fjárhæð var orðin skuld ríkissjóðs. Hún var gjaldfallin fyrir áramót. Samkvæmt lögum nr. 59 frá 1960 var hún gjaldfallin og þess vegna orðin skuld ríkissjóðs. Það skiptir engu máli í því sambandi, hvort fjárhæðin stóð á fjárlögum eða ekki, eins og ég skal sýna nánar fram á. En fyrst ætla ég að víkja aðeins að því, hvernig ákvæðið er um greiðslu útflutningsuppbóta á landbúnaðarafurðir. Greinin, sem um þetta fjallar, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Tryggja skal greiðslu á þeim halla, sem bændur kunna að verða fyrir á útflutningi landbúnaðarvara. En þó skal greiðslan vegna þessarar tryggingar ekki vera hærri en svarar 10% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar viðkomandi verðlagsár, miðað við það verð, sem framleiðendur fá greitt fyrir afurðir sínar. Hagstofa Íslands reiknar fjárupphæð þá, er ber að greiða framleiðendum vegna ákvæðis 2. mgr. þessarar greinar.“

Af þessu er algerlega ljóst, að þegar útflytjandi landbúnaðarvara hefur lagt fram fullnaðarreikning fyrir hverja sölu erlendis og hagstofan hefur farið yfir þann reikning og reiknað út þá fjárupphæð, sem framleiðendum ber að fá, þá er sú upphæð strax gjaldfallin og kræf úr ríkissjóði, án tillits til þess, hvort fé er þá fyrir hendi samkv. fjárlögum til að inna greiðsluna af hendi. Engin ríkisstj. getur skotið sér undan lögmæltum útgjöldum með því að vanrækja að setja fjárhæðina á fjárlög. Þetta ætti að vera hverju barni ljóst. En til þess að freista þess að gera hæstv. landbrh. þetta ljóst, ætla ég að lesa hér fyrir hann ofur lítinn kafla úr Íslenzkri stjórnlagafræði eftir Bjarna Benediktsson, útgefinni 1940, en þar segir svo í kaflanum um fjárlög, á bls. 52–53, með leyfi hæstv. forseta:

„Af því, sem nú hefur verið sagt, er ljóst, að setning og efni fjárlaga er ólíkt því, sem um venjuleg lög gerist. Þar af hlýtur aftur á móti óhjákvæmilega að leiða, að venjulegum lögum má ekki breyta með fjárlögum. Ef svo væri, mundi boð stjórnarskrárinnar um þrjár umræður í hvorri deild um venjuleg lagafrumvörp að engu orðið og einu höfuðatriði stjórnarskrárinnar um setningu laga kippt í burtu. Af því skapaðist fullkominn glundroði og upplausn í störfum löggjafans. Þessi regla, að lögum verði ekki breytt með fjárlögum, sem áður var talin gilda og a.m.k. að nokkru leyti viðurkennd í framkvæmd af Alþingi, er því nú orðin augljós og óumdeilanleg. Skiptir engu máli í því efni, hvort um er að ræða tekjulög fyrir ríkissjóð, lög, er hafa útgjöld í för með sér, eða önnur lög, enda eru þau ærið mörg lögin, sem einhver útgjöld stafa af. Skilja verður ákvæði 41. gr. stjórnarskrárinnar um, að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum, í samræmi við þetta á þann veg, að þar með sé einungis átt við ólögboðin gjöld, því að“ — og þessu bið ég hæstv. landbrh. að taka vel eftir — „því að lögboðin gjöld verður að greiða, þótt þeirra sé eigi getið í fjárlögum.“

Sem sé, það er ekki hægt að komast hjá því að greiða lögboðin útgjöld með því að sleppa því að taka útgjöldin á fjárlög, og þess vegna er það bara fjarstæða, sem hæstv. landbrh. segir um þetta mál, algerlega gripið úr lausu lofti og fullkomið frumhlaup af hans hendi í garð forstjóra Sambandsins, sem á hér ekki sæti og getur því ekki svarað fyrir sig. Á þetta við um allt það, sem hann sagði um þessi efni í gær, bæði atriði þessa máls, og ætti hann að biðja forstjóra Sambandsins afsökunar.