16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (678)

21. mál, lausaskuldir bænda

Jónas Pétursson:

Hæstv. forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. kom hér upp áðan og var með heilmikinn derring. Ég veit ekki, hvað mikið tilefni ég hef gefið til þess, en ég er ekkert að kvarta undan því. Það er síður en svo ástæða til þess, og gott að ræða þessi mál, a.m.k. að vissu marki. Ég ætla nú samt sem áður ekki að tefja umr. mjög, en það er ekki hægt annað en víkja svolítið að ýmsum atriðum, sem fram komu í ræðu hans.

Hann var eitthvað að tala um í byrjun, að varamaður minn, Einar Sigurðsson, hefði ekki flutt hér neitt þakkarávarp í fyrra til sjútvmrh. út af lánamálum útvegsins. Ég get ekkert að því gert.

Þá minntist hann á það, sem hv. 1. þm. Vesturl. vék að þessu máli í útvarpsumr. frá Alþingi snemma á þinginu í vetur og ég kom aðeins að í minni ræðu, og hann sagði, að ég hefði ekki haft alveg rétt eftir. Ég athugaði það áðan í þingræðunni, og með leyfi hæstv. forseta, þá komst sá hv. þm. þannig að orði við útvarpsumræðuna, er hann hafði lesið tilvitnun í þá yfirlýsingu, sem ég gaf:

„Þá vitið þið það, bændur góðir, hvað íhaldið kallar hagstæð lán. Það eru lán með 8% vöxtum.“

Ég tók þetta þannig, að hann teldi bæði mig og hæstv. landbrh. með íhaldinu, en hefði ekki átt hér við framsóknaríhaldið. Ég fæ ekki betur séð en í þessu felist það, að hann hafi sagt, að ég hafi lýst því yfir, að 8% vextir væru hagstæðir fyrir landbúnaðinn. Það er óþarfi að vera að þvæla um þetta. Ég býst við, að við séum allir sammála um það, að 8% vextir séu hvorki hagstæðir fyrir landbúnaðinn né nokkra aðra, sem þá vexti þurfa að greiða. Og það er síður en svo, að menn muni almennt telja þau vaxtakjör, sem nú eru í gildi, vera hagstæð. Það vita allir, að þau eru eins konar neyðarráðstöfun, sem er afleiðing af því ástandi, sem hér hefur ríkt um langt árabil að undanförnu, og að allra dómi var nauðsynlegt að hækka vextina meðal annarra ráðstafana, ef átti að vera mögulegt að stöðva þá verðbólguþróun, sem hér hefur ríkt allt frá stríðsárunum. Þetta skal ég láta nægja um vextina.

Þá var hann að minnast á, að það hefði verið til bóta, ef ég hefði reynt að þvælast fyrir í mínum flokki, þegar var verið að breyta ákvæðunum um vaxtakjör og lánstíma hjá ræktunarsjóði, sem var gert með hinni svokölluðu viðreisnarlöggjöf 1960. Ég er nú nokkuð á öðru máli en hv. þm. þarna, a.m.k. eftir því sem ætla mætti, eins og hann setti þetta fram. Ég held nefnilega, að það hafi verið ein af stóru yfirsjónunum, sem var búið að gera, eða hún var of lengi búin að vara, að hafa ekki hækkað vextina af ræktunarsjóðslánunum löngu fyrr. Með þessu var skapað mikið óréttlæti á milli þeirra, sem stóðu í framkvæmdunum. Sá hluti, sem ræktunarsjóðslánin hrukku til að greiða upp í framkvæmdir bændanna, fór sífellt minnkandi og sá hlutur stækkandi, sem þeir urðu að leggja fram eftir öðrum leiðum, sem voru þá yfirleitt með miklu hærri vöxtum og það svo, að munaði kannske um helming. Ég veit, að ef þessi hv. þm. hugsar um þessi mál í alvöru, þá mun hann vera á sama máli og ég um þetta, að það hefði forðað ýmsum vandræðum, m.a. hefði efnahagur og afkoma ræktunarsjóðs ekki verið jafnhörmuleg og raun ber vitni um, ef vextir hefðu verið hækkaðir fyrr en gert var. Og alveg á sama hátt er með lánstímann. Það breytir ekki því, að það er mjög nauðsynlegt og mjög mikilsvert, að á landbúnaðarlánum geti verið sem lengstur lánstími. En við verðum bara að athuga það, að við búum hér í landi, sem skortir fjármagn, landi, þar sem eftir er að framkvæma svo að segja allt, eða var a.m.k. um það bil, sem það framfaratímabil hófst, sem enn stendur yfir. Það þurfti að umskapa t.d. landbúnaðinn gersamlega, helzt á einum mannsaldri. Til þess þarf mjög mikið fé, og það er mjög mikill aðstöðumunur í samanburði við margar aðrar þjóðir, þar sem landbúnaðurinn hefur verið að þróast í eina til tvær aldir, við það, sem hér gerist, þar sem á einum mannsaldri þarf að gera slíka gerbyltingu sem raun er á. Og það þarf engan að undra, þó að það sé ekki hægt við þau skilyrði að veita jafnhagstæð lán með jafnlöngum lánstíma og lágum vöxtum og hjá þeim þjóðum, sem fjármagn hafa miklu meira en hér. Með þessu er ekki sagt, að um alla framtíð eigi að láta þau ákvæði gilda, sem nú gilda um lánstíma og vexti hjá ræktunarsjóði. En það þarf ekki mikið reikningsvit til að skilja, að það getur verið betra að fá helming framkvæmdafjárins að láni með vöxtum, sem svara til þeirra, sem nú eru í ræktunarsjóði, heldur en aðeins ¼ og þá hitt með 8–9% vöxtum. Og ég satt að segja hef verið mjög undrandi á því, að ég hef séð frá mörgum fundum bænda samþykktir um, að þeir krefjast þess, að þessu sé tafarlaust breytt í fyrra horf. Mér finnst þau mál ekki vera krufin til mergjar, eins og ætti að vera, og það er síður en svo, að með þessu sé verið að vega að landbúnaðinum, heldur þvert á móti að reyna að styðja framfaraviðleitni hans. Það er aðeins fjármagnsskorturinn í landinu, sem við eigum hér við að glíma, og við verðum að beygja okkur fyrir þeirri staðreynd, a.m.k. eins og er í dag og sennilega um nokkra framtíð.

Þá var hv. þm. eitthvað að minnast á búskapinn á Austurlandi og hélt, að ég mundi eiga eins mikla sök á því, ef hann væri illa kominn, eins og hv. 1. þm. Austf. Ég ætla ekki frekar að vera að ræða þetta. Það væri vafalaust hægt, ef tími hefði verið til, að athuga tölulega, hvernig hann hefur þróazt, en ég veit, að hann hefur tekið verulegum framförum t.d. á síðasta 10 ára tímabili. Það er alls ekki vegna þess, að ég hef verið á Austurlandi þennan tíma. Mér dettur ekki í hug að halda því fram. En það er samt sem áður gleðilegur vottur um það, að þar er þó líka lífsvon, en mér fannst ekki vera hægt að sleppa því að vekja athygli á þessu, því að það er ekkert ósanngjarnt að ætlast til þess, eins og þeirra málflutningur er ætíð hér á Alþingi, að það megi reikna með því, að þar sem framsóknarmenn séu sterkir, þar sé líka afkoman góð.

Svo er það aðeins út af umsóknarfrestinum um þessi lán. Hv. frsm. minni hl. fjhn., Skúli Guðmundsson, hamrar sífellt á því, að það sé mjög mikið ranglæti, ef ekki sé nú að nýju kallað eftir umsóknum um þessi lausaskuldalán. Ég get ekki verið honum sammála um þetta. Það var mjög langur frestur, sem var gefinn í upphafi til þess að sækja um þessi lán, eða til 1. okt. Og það var enn að nýju framlengt til 1. des. Liggur í augum uppi, að hvort sem menn hafa haft meiri eða minni trú á því, að það mundi bera árangur eða sem sagt að þessi lánabreyting mundi ná þeim tilgangi, sem til var ætlazt, þá var það ekki slíkt álag á þá, sem töldu sig þurfa á þessum lánum að halda, að senda umsóknina. Ég get t.d. skýrt frá því, að ég hvatti alla, sem ég náði til, til þess að senda umsókn í tíma, jafnvel þó að þeim virtust ekki lögin vera þannig úr garði gerð eins og þeir hefðu helzt óskað. Og ég veit það, að af Austurlandi munu þeir yfirleitt hafa sent umsóknir um lánin, sem töldu sig þurfa á þeim að halda. Ég vil ekki fullyrða, að það hafi verið í öllum tilfellum.

En annars er um þetta mál að segja í heild, að það er engan veginn eins einfalt og virtist nú koma fram í ræðu hv. frsm. minni hl., Skúla Guðmundssonar, að koma þessari lánabreytingu á. Ég ætla ekki að fara að ræða það hér. Ég býst við, að ég sé engan veginn orðinn þeim málum nægilega kunnugur. En ég hef þó reynt að kynna mér þá hlið í gegnum þá menn, sem að þessum málum hafa unnið, og mér er það ljóst, að það er hægara um að tala en úr að leysa í ýmsum tilfellum, og sífellt koma fram ný og ný vandamál í framkvæmdinni. Og það, sem kannske hefur skapað fyrst og fremst þetta, sem framsóknarmenn eru að deila á, að það hafi verið dálítið óákveðið í upphafi, hvernig þetta yrði framkvæmt, var einmitt það, að það var ákaflega örðugt að útbúa eða gera sér grein fyrir, hvernig framkvæmdin gæti farið fram, fyrr en umsóknirnar lágu fyrir og hægt var að kryfja málið þannig niður í kjölinn. Þetta er nú mjög vel á veg komið. Það er búið að ganga frá samningum við bankana um að leysa bréfin af lánsstofnunum upp í skuldir lánsstofnana og upp í verzlunarskuldir, og með því er að langmestu leyti náð þeim tilgangi, sem í lögunum var. Það hefur aldrei verið reiknað með því, að af lausaskuldunum yrði 100% greitt í gegnum þessa lánsstofnun eða þessa löggjöf, en það mun verða að svo miklu leyti sem hægt er, sem veð er fyrir, hjá hinum einstöku bændum, og eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, þá er alveg vist, að vegna þessarar löggjafar er þó nokkuð mörgum bændum í þessu landi forðað frá því að þurfa að gefast upp við búskapinn.

Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta á þessu stigi. Það er margt fleira, sem hefði verið ástæða til að taka fram, og kann að vera, að það séu einhver atriði, sem hv. 3. þm. Vesturl. beindi sérstaklega að mér, sem sumir telja, að ég hafi nú gleymt að svara, en það verður þá að hafa það.