20.11.1961
Neðri deild: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

74. mál, lækkun aðflutningsgjalda

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Hæstv. forseti. Ég skila sérstöku nál. um þetta frv. og fáeinum brtt. einnig. Ég lagði þetta inn strax þegar skrifstofa þingsins var opnuð í morgun, og mér skilst, að nál. mitt og tillögur sé hvort tveggja væntanlegt frá prentsmiðjunni nú eftir litla stund. Ég mun þó byrja að ræða um málið, því að sjálfsagt er að greiða fyrir því, að það komist áfram gegnum þingið.

Ég mæli með frv. eins og meðnm. mínir í fjhn., tel hins vegar, að það sé of skammt gengið, og legg fram tillögur um nokkrar tilslakanir á tollum til viðbótar.

Frv. þetta er um lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum. Og það er ástæða til að fagna því, þótt pínulítið sé. Menn hafa nefnilega átt öðru að venjast frá hæstv. núv. ríkisstj. Skömmu eftir að hún kom til valda, aðeins fáum vikum síðar, beitti hún sér fyrir ýmiss konar löggjöf um efnahagsmál, sem m.a. hafði það í för með sér, að tollar og önnur gjöld, sem leggjast á vörur, hækkuðu alveg stórkostlega. Ég hef gert dálitla athugun á því með samanburði á tölum í ríkisreikningi, hvað þessi hækkun var mikil. Ég hef athugað í fyrsta lagi, hvað tollar og slík gjöld námu mikilli upphæð samkv. ríkisreikningnum fyrir 1959. Það, sem ég hef lagt þar saman, eru vörumagnstollur, verðtollur, söluskattur, innflutningsgjald af benzíni, þó að frádregnum þeim hluta, sem fer til brúasjóðs og vegasjóðs, og gjald af innlendum tollvörum. Samkvæmt ríkisreikningnum hafði ríkissjóður á árinu 1959 520 millj. kr. í tekjur af þessum gjaldstofnum. En svo kom hæstv. núv. ríkisstj. til skjalanna í lok ársins, og þegar maður athugar, hvað mikið kom í ríkissjóðinn frá þessum gjaldstofnum árið 1960, koma út hvorki meira né minna en 967 millj. kr. Hækkunin frá árinu áður á tollunum og söluskatti og slíkum gjöldum, sem mun leggjast á vörurnar, er 447 millj. Það eru milli 80 og 90%. Ég skal taka fram, að ég dró frá söluskattinum síðara árið þann hluta hans, sem fór til jöfnunarsjóðs, til þess að hér kæmi fram aðeins það, sem fer í ríkissjóðinn sjálfan. Ég vil þó geta þess í þessu sambandi, ég tel rétt að gera það, að síðara árið, þ.e.a.s. árið 1960, voru niðurgreiðslur á vöruverði, sem ríkissjóður stóð straum af, 107 millj. kr. hærri en árið áður.

En hér er ekki öllu lokið. Hæstv. ríkisstj. mun hafa þótt þörf á að gera betur, því að nú á þessu ári, sem er að líða, lækkaði hún krónuna, eins og kunnugt er. Það er það, sem sumir kalla gengislækkun stjórnarinnar nr. 2, og sú gengislækkun hafði náttúrlega í för með sér gríðarmikla hækkun á tollum og slíkum gjöldum. Mér hefur verið sagt, að það sé gizkað á, að þessi viðbót við tollana í ár vegna gengislækkunarinnar muni nema á að gizka 90 millj. kr. Þar við bætist svo hækkun á söluskatti í smásölu, 3% skattinum, sem verður auðvitað veruleg vegna gengisbreytingarinnar í ár. Þarna kemur því eitthvað á annað hundrað milljóna enn í ofanálag á tollana.

Það er sannarlega ekki vanþörf á því að snúa við, og stjórnin sýnir hér svolitla viðleitni í þá átt, þótt lítil sé. Það er áætlað, að þessi lækkun á tollum, sem stjórnarfrv. felur í sér, muni nema um það bil 46 millj. kr., miðað við heilt ár, að óbreyttu innflutningsmagni. Það sjá allir, að þetta er ekki nema örlítið brot af öllum þeim tollahækkunum, sem dunið hafa yfir í tíð núv. stjórnar í ofanálag á það, sem fyrir var, sem stundum var nú talað um af ýmsum mönnum að væri töluvert.

Það er nokkur siður um þessar mundir að tala um vísitölu og vísitölufjölskyldu. Mér er sagt, að þessi tollalækkun, sem hér er á ferðinni, muni hafa dálítil áhrif á vísitöluna, en þó nær það ekki hálfu vísitölustigi. Það er nokkuð innan við hálft stig, sem sagt er að þetta geri til lækkunar á vísitölunni. Eins og ég sagði áðan, er gott að taka þessu, þótt lítið sé og þó að hæstv. stjórn sé hér alveg óskaplega stutt stig. Og þó að það líti út fyrir, að það séu smyglarar, þeir sem stunda ólöglegan innflutning, sem raunverulega eigi frumkvæðið að þessu, en ekki hæstv. ríkisstj., þá er gott að taka þessu fyrir því.

Það hefur komið fram hjá stjórninni, að frv. sé fyrst og fremst flutt til þess að koma í veg fyrir smygl eða draga úr því. Að þessu er vikið í athugasemdum, sem fylgja frv. Þetta kom enn greinilegar fram í framsöguræðu hæstv. fjmrh., og þetta kom einnig fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn. hér áðan, þar sem hann nefndi þessa ástæðu fyrsta af þeim, sem liggja til þess, að slíkt frv. er borið fram. Frv. virðist því ekki vera flutt vegna þess, að hæstv. stjórn telji, að tollarnir séu of háir og það þurfi að lækka þá, þ.e.a.s. ekki fyrst og fremst þess vegna, heldur vegna þess, að það sé nokkur ólöglegur innflutningur á sumum þessum vörum. Þetta minnir mann á það, að áður hefur hæstv. stjórn, sem nú situr, beitt sér fyrir og komið fram nokkurri lækkun á tekjuskatti. Það var aðallega til hagsbóta fyrir hátekjumenn, því að lækkunin hafði lítið að segja fyrir allan þorra manna, sem hafa meðaltekjur og þar fyrir neðan, það var ekki það hár tekjuskattur á þeim áður. En ég minnist þess, að þegar þetta frv. var á ferðinni, þá var það m.a. rökstutt með því, að skattsvik hefðu verið töluverð og m.a. af þeirri ástæðu væri rétt að draga mjög úr beinu sköttunum til þess að minnka skattsvikin. Frv. var m.a. flutt til að fyrirbyggja skattsvik, að því er manni skildist. Núv. ríkisstj. hefur lagt á söluskatt, sem er langtum hærri en sá, sem áður var. Söluskatturinn er innheimtur þannig, að verzlanir og ýmis önnur fyrirtæki eiga að leggja skattinn á þær vörur, sem þau selja, og þá þjónustu, sem þau veita, og síðan skila honum til ríkissjóðs. En hvernig skyldi vera með innheimtuna á skattinum? Er ekki nokkur hætta á því, að það komi ekki allt til skila á réttum stað, sem á að fara í ríkissjóðinn? Getur ekki komið að því, áður en langt liður, að hæstv. stjórn telji, að það þurfi að lækka söluskattinn, vegna þess að það séu einhver dæmi um það og kannske nokkur brögð að því, að þeir, sem innheimta hann, skili honum ekki? Mér sýnist, að það væri nokkuð í samræmi við það, sem orðið er, ef stjórnin hreyfði því máli, áður en langt liður, það hefði komið í ljós, að það væru vanskil á söluskattinum, og líklega yrði þá að grípa til þess ráðs að afnema hann, a.m.k. að einhverju leyti.

Fleiri tekjulindir hefur ríkissjóður en þær, sem ég hef nú nefnt. Lengi hefur það verið svo, að ríkið hefur verzlað með áfengi og tóbak og haft af því drjúgar tekjur, og samkvæmt lögum er öllum öðrum bannað að verzla með þær vörur. Stundum hefur orðið vart við það, að tilraunir eru gerðar til þess að smygla þessum vörum inn í landið, sérstaklega víni og vindlingum, og trúlegt, að þetta hafi oft tekizt, að flytja inn eitthvað af slíku fram hjá laganna vörðum. Er nú ekki hugsanlegt og getur ekki vel verið, að stjórnin sé farin að velta því fyrir sér, hvort ekki mætti draga úr þessum tilhneigingum manna og koma í veg fyrir smygl að töluverðu leyti með því að lækka prísana hjá einkasölunni? Jafnvel þó að ekki væri nú farið með verðið alla leið niður í ráðherraverð á þessum vörum, þá get ég vel hugsað, að það mætti takast að taka fyrir smyglið, kannske að verulegu leyti. Enginn skilji orð mín svo, að ég sé að mæla með þessu eða gefa stjórninni fyrirheit um stuðning við slíka ráðstöfun, enda er það þannig nú orðið, ef ég man rétt, að hún þarf ekki að bera það mál undir þingið. Ég held helzt, að hún hafi fengið hér samþykkt fyrir ekki löngu breytingu á lögum í þá átt, að það mætti ákveða verðið á þessum vörum með reglugerð. Nei, ég mæli ekki með þessu, en mér kemur það í hug, að það geti vel verið, að stjórnin sé farin að hugleiða þetta, að grípa til þessa ráðs.

Því miður er það svo hjá okkur, að fleiri lög eru brotin en gjaldheimtulöggjöfin. Ég ætla ekki að eyða tíma í að tala mikið um það, en við sjáum það svo að segja daglega hér í blöðum og heyrum um það í útvarpinu, að umferðarlögin svokölluðu eru brotin og oft verða af því slys og mikið tjón á ýmsan hátt. Þó nokkuð af þessum umferðarlagabrotum stafar af því, að menn kaupa allmikið af áfengi hjá einkasölunni eða þá hjá öðrum og gera sig seka um það að hreyfa ökutæki, þótt þeir séu undir áhrifum áfengis, sem auðvitað er bannað og enginn ætti að gera. En sjálfsagt mætti fækka mjög brotum á umferðarlögunum, ef þau væru gerð eitthvað frjálslyndari. Ég veit ekki, hvort okkar nýi dómsmrh. hæstv. er nokkuð farinn að íhuga það mál. Það er alveg víst, að umferðarlagabrotum mundi fækka stórlega, ef það væri í lög tekið, að menn mættu vera vel „samkvæmishæfir“, sem svo er nefnt, þó að þeir aki bifreið sinni.

Ég fæ ekki betur séð en að það gægist fram í þessu máli og hafi áður komið fram sú stefna núverandi hæstv. stjórnar að koma í veg fyrir lagabrot með því að afnema lög. Ég vil ekki fullyrða, að þetta geti ekki átt rétt á sér í einstöku tilfellum. Það getur vel verið, að það séu þau lög til, — það eru nú svo mörg lög til í okkar landi, — það getur vel verið, að það sé eitthvað af lögum, sem að skaðlitlu mættu missa sig. En fljótt á litið finnst mér, að það ætti fremur að hafa aðrar aðferðir við það að vinna á móti lagabrotum heldur en að nema úr gildi lögin, sem brotin eru. Ég ætla ekki að tala meira um þetta að sinni. Ég vil bara benda á þetta og þá stefnu, sem mér finnst hér gægjast fram. Þó að ég ræði ekki um það frekar, þá er það vissulega eða væri merkilegt rannsóknarefni út af fyrir sig, eins og einn kunnur embættismaður vor mundi segja, ef hann væri hér staddur.

Ég vildi þá gera grein fyrir ýmsum brtt., sem ég flyt við frv. Mér þykir það að vísu heldur lakara, að þær eru ekki komnar hér á borðin hjá hv. þdm. Ég vona, að það verði svo að segja á hverri stundu. Ég veit, að hæstv. forseti vill þoka málinu áfram, eftir því sem hægt er, og ég skal því byrja á að minnast á þessar tillögur, þó að þær séu ekki enn komnar.

Ég flyt í fyrsta lagi brtt. um það, að tollur á vefnaði, bæði úr gerviþráðum og ull, verði lækkaður nokkru meira en er í frv. Það er um að ræða þar vörur, sem almennt eru allmikið notaðar. Það mun hafa verið flutt inn af þessum vefnaði á árinu 1960 fyrir milli 20 og 30 millj. kr. Allur almenningur notar töluvert af þessu. Í frv. er lagt til, að verðtollurinn verði 62%, en ég legg til, að hann færist niður í 50%. Till. um þetta var einnig flutt í Ed. af fulltrúa Framsfl. í fjhn. þar.

3. brtt. er við kafla nr. 51, sem er á bls. 2 í stjórnarfrv. Það er brtt. við síðasta liðinn þar, sem er þannig orðaður: „Aðrir sokkar úr gerviþráðum“ — færast í nýtt tollskrárnúmer. Lagt er til í frv., að sá tollur verði 70%, ég legg til, að hann færist niður í 62%.

Þá legg ég til, að bætt verði inn í frv. nýjum ákvæðum. Í fyrsta lagi um það, að gerðar verði tollfrjálsar nokkrar vélar, sem nauðsynlegar eru við atvinnureksturinn, bæði landbúnað og sjávarútveginn. Það eru í fyrsta lagi hjóladráttarvélar og hlutar til þeirra. Það vita allir, að þetta eru alveg bráðnauðsynleg tæki fyrir þá, sem stunda landbúnað. Þessar vélar hækkuðu vitanlega ákaflega í verði við gengislækkunina, bæði 1960 og nú aftur í sumar, og það eru allmiklir tollar á þessum nauðsynlegu tækjum einnig. Á hjóladráttarvélum er nú vörumagnstollur og 14.4% verðtollur. Svo kemur söluskatturinn þar til viðbótar. Ég hef kynnt mér útreikning á verði á heimilisdráttarvél, sem flutt er til landsins nú á þessu ári, eftir gengisbreytinguna í sumar, 37 hestafla vél. Verðreikningurinn sýnir, að bóndinn þarf að borga fyrir þessa vél nú rúmlega 105 þús. kr. En af þessari upphæð fara hvorki meira né minna en 26850 kr. í ríkissjóð í tollum og söluskatti, þ.e. rösklega fjórði parturinn af verðinu. Þetta er vitanlega óþolandi álag á svo bráðnauðsynleg tæki. Í þessum sama lið eru einnig ýmsar smærri vélar til landbúnaðar, eins og sláttuvélar, rakstrarvélar, snúningsvélar, og svo plógar og herfi. Þetta eru allt tæki, sem eru alveg nauðsynleg með dráttarvélunum. Og þá eru einnig fleiri vélar undir þessum lið, einnig til landbúnaðar, svo sem mjaltavélar, skilvindur, strokkar og þess háttar. Till. mín er um það, að dráttarvélarnar og þessar smærri vélar verði tollfrjálsar. En ég vil vekja athygli á því, að þótt sú tillaga verði samþykkt hér, þá er söluskatturinn eftir á þessum vélum, og ég tel naumast hægt að taka það mál upp í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir. En þannig er það með söluskattinn, að á dráttarvélunum er hann meiri hlutinn af þessari upphæð, sem ég nefndi. Af þessum 26850 kr., sem alls þarf að borga til ríkisins af dráttarvélinni nú, er eitthvað yfir 16000 söluskattur. Hitt eru tollar.

Ég er einnig með brtt. um að létta tolli af bifvélum eða mótorum, sem eru aðallega notaðir í skip og báta, og enn fremur af tækjum til sjávarútvegsins, sem nú er talið alveg nauðsynlegt að hafa á skipunum, það eru radartæki, dýptarmælar og fisksjár. Ég legg til, að tollur af þessum tækjum verði felldur niður, en á þeim mun nú ekki vera neinn söluskattur.

Þá er loks till, frá mér um að lækka toll á ýmsum rafmagnstækjum, sem fjöldi af heimilum þarf nú að nota og notar. Sem betur fer er það nú svo, að mikill meiri hluti heimila í þessu landi hefur rafmagn til heimilisnota og hjálpar við atvinnurekstur, og þetta eru því orðnar, má segja, nokkuð almennar nauðsynjavörur, sem hér er um að ræða. Það eru t.d. eldavélar, hitunar- og suðutæki önnur, hrærivélar, kæliskápar, ryksugur og þess konar áhöld, sem fólk yfirleitt telur sig hafa mikla þörf fyrir. Það eru mjög há gjöld á þessum vörum. Á flestu þessu mun nú vera verðtollur 14.4% og svo innflutningsgjald þar að auki, sem er 68.2% eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið. Svo kemur söluskatturinn ofan á þetta, bæði innflutningssöluskatturinn, samtals með viðaukanum 16.5%, og svo 3% í smásölunni. Menn sjá af þessu, að það er geysilegur skattur í allt, sem leggst á þessi nauðsynlegu tæki. Till. mín er um það, að tollurinn verði framvegis 30% verðtollur á þessum tækjum. Ég sá hér áðan brtt. frá hv. 1. minni hl. fjhn., og mér sýnist, að hann muni vera með tillögu svipaða þessari.

Það veldur miklum örðugleikum fyrir alla þá, sem eru að stofna heimili, — það eru margar fjölskyldur ár hvert, sem gera það, — hvað allt er dýrt, sem til þess þarf. Það eru fyrst og fremst byggingarnar, sem eru ákaflega dýrar, og svo öll áhöld, heimilisáhöld alls konar komin í gríðarhátt verð, eins og fleira, og það mundi strax verða nokkur léttir að því fyrir þetta fólk, ef þessi gríðarhái tollur á slíkum tækjum væri nokkuð lækkaður, eins og hér er lagt til. Það þarf ekki heldur að lýsa fyrir mönnum hér þeim miklu erfiðleikum, sem eru á því fyrir þá, sem atvinnurekstur stunda, bæði til lands og sjávar, að ná í nýjar vélar og önnur nauðsynleg tæki til atvinnurekstrarins. Á það við ekki sízt um þá, sem eru að hefja atvinnurekstur, byrja búskap, útgerð eða annan atvinnurekstur. Þetta er vitanlega erfiðast fyrir byrjendurna, en það er líka mjög erfitt fyrir marga aðra, sem þurfa að endurnýja þessi tæki. Erfiðleikarnir liggja í því, að allt er þetta orðið geysilega dýrt. Ég tel því, að það væri full þörf á því að létta tollum af þessum nauðsynlegu tækjum að meira eða minna leyti. Og um það eru mínar brtt., eins og ég þegar hef gert grein fyrir.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta mál, a.m.k. ekki að sinni, en vil leyfa mér að öðru leyti að vísa til þess nál., sem átti að vera komið hingað fyrir skömmu, eftir þeim upplýsingum, sem ég fékk, en hefur ekki verið útbýtt enn þá. Ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta, að ekki yrði atkvgr. um málið, fyrr en brtt. mínar eru komnar. Nú sé ég, að það er byrjað að útbýta þeim í deildinni, og ég vildi óska eftir því, að atkvgr. fari ekki fram, fyrr en hv. þdm. hafa allir þessar tillögur í höndum og geta kynnt sér þær.