16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (681)

21. mál, lausaskuldir bænda

Halldór E. Sigurðsson:

Hæstv. forseti. Ég skal nú ekki lengja tímann, en út af því, sem hv. 3. þm. Austf. (JP) sagði, vil ég segja örfá orð.

Í fyrsta lagi í sambandi við vextina, sem hv. þm. ræddi í fyrri ræðu sinni, og út af því, sem hv. 1. þm. Vesturl. (AB) sagði þar um, þá leyfist mér að spyrja hv. 3. þm. Austf.: Hvað var hann að þakka? Var hann að þakka það, að þessi lán til bændanna ætti að lána þeim með vöxtum, sem væru neyðarráðstafanir, eins og hann orðaði það núna? Ég held, að það hafi verið farinn „derringurinn“ úr hv. þm., þegar kom að þessu, fyrst þetta, sem hann rómaði svo mjög áðan og fullkomin ástæða var til að ætla af hv. 1. þm. Vesturl. í haust að væri það, sem hann hefði boðað í vetur, því að þá talaði hann. um lán með hagkvæmum vöxtum, sem voru svo 8%, og það var því ekki undarlegt, þó að hv. 1. þm. Vesturl. segði, að nú vissi maður, hvað þeir sjálfstæðismenn kölluðu hagkvæma vexti, því að svo kom þessi hv. þm. og þakkaði sérstaklega fyrir þá. Hitt er svo annað mál, þó að hann hafi nú áttað sig á því, að þessir vextir eru neyðarúrræði, eins og hann sjálfur orðaði það.

En það er fleira í þessu máli, sem hv. stjórnarliðar hafa áttað sig á vegna gagnrýni okkar framsóknarmanna á Alþingi, sem orðið hefur til að gera það aðgengilegra, þótt ekki sé nóg að gert.

Mig langar til að heyra það frá hv. þm., það gerir ekkert til, þó að hann svari því ekki fyrr en við 3. umr.: Hvað er sérstaklega fyrir að þakka? Er sérstök ástæða til þess, að landbúnaðurinn þakki fyrir það að þurfa að sætta sig við vexti, sem eru neyðarúrræði, þegar sjávarútvegurinn fær þó ekki hærri en 6½% vexti? Hvaða ástæða er til þess, að landbúnaðurinn þurfi að búa við neyðarvextina? Ég hef ekki enn þá fengið skilið þau rök, sem voru fyrir því, nema þessa skýringu, sem ég gaf hér áðan, þ.e. vegna þess, hvernig þetta mál var tilreitt af hendi hæstv. ríkisstj., vegna þess að það átti ekki að láta Seðlabankann innleysa bréfin og það var verið að reyna að fá einhvern til að kaupa þau. Þess vegna var vaxtafóturinn svona hár. Það er af því, að það var ekki hugsað eins djarflega fyrir hönd landbúnaðarins, að gera Seðlabankanum skylt að taka þessi bréf, eins og í sambandi við sjávarútveginn.

Þá segir hv. þm., að það hefði átt að hækka vextina fyrr og stytta lánstímann hjá lánasjóðum Búnaðarbankans. Ég varð nokkuð undrandi. Ég vil leyfa mér að spyrja þennan hv. þm.: Úr hverju hefur þetta bætt fyrir íslenzkan landbúnað? Að hverju leyti stendur landbúnaðurinn betur að vígi fyrir það, að stofnlánin eru með hærri vöxtum og styttri tíma? Var ástæða til þess í landi, þar sem svo mikið þurfti að gera, eins og hv. þm. orðaði það sjálfur, í uppbyggingu og öðru slíku og þeim atriðum, — var ástæða til þess að fara þá svona að, að gera erfiðara fyrir með uppbygginguna. Ég sé ekki, hvernig er hægt að rökstyðja það í landi, sem mikið þarf að byggja upp, að það eigi að gera það sem erfiðast. Var ekki nóg fyrir bændurna í landinu að taka á sig verðhækkanirnar, þó að þetta bættist ekki við? Ég vonast til þess, að hv. þm, gefi mér skýringu á því, hvaða hagræði það hafi orðið fyrir landbúnaðinn, að þessu var breytt í það horf, sem nú hefur gerzt. Hitt er mér ljóst, að það var ekki hægt að láta lánasjóði landbúnaðarins starfa nema með því, að hið opinbera aðstoðaði þá. Þetta var opinber aðstoð við landbúnaðinn í landinu, að hafa lánakjörin eins hagkvæm og þau voru, og það átti það líka að vera. Það er ekki nema það eðlilega og þannig hugsað, að þetta væru betri kjör en á almennum peningamarkaði, og þess vegna var löggjöfin svo sem hún var, en ekki það, að verið væri að hugsa um hag sjóðanna út af fyrir sig, því að þeir áttu að vera til aðstoðar uppbyggingunni í landbúnaðinum. Mér þætti gaman að heyra um það frá hv. þm., þó að það verði ekki fyrr en við 3. umr. þessa máls, hvað hefur áunnizt fyrir íslenzkan landbúnað við þessa breytingu.