22.02.1962
Neðri deild: 53. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það var ræða sú, er hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm) flutti hér áðan, sem gefur mér tilefni til að segja örfá orð.

Hv. þm. segir, að þegar sé orðinn langur dráttur á afgreiðslu þessa máls og afgreiðslu þeirra lána, sem ætlað er að veita samkv. þessu frv. það er alveg rétt. En um það er ekki hægt að kenna andstæðingum núverandi ríkisstj. Þessi dráttur stafar af því, að málið var illa undirbúið fyrir þingið, og drátturinn stafar af því, að hæstv. ráðherra fór að vinna að málinu, eftir að búið var að leggja það fyrir þingið, og tók það langan tíma. Svo segir hv. 4. þm. Norðurl. v., að drátturinn yrði þó enn lengri og tilfinnanlegri, ef brtt. okkar á þskj. 211 yrðu samþykktar.

Ég vil enn vekja athygli á því, sem ég gerði, þegar ég mælti fyrir þessum till., að samþykkt þeirra þarf ekki að valda neinum drætti frekar en orðinn er á afgreiðslu lána til þeirra bænda, sem hafa sent umsóknir og þurfa ekki á að halda lánum vegna skulda frá s.l. ári. Það ætti að verða hægt, þó að okkar till. verði samþykktar, að taka nú þegar að afgreiða lán til þessara bænda. Aftur á móti þegar um er að ræða menn, sem hafa stofnað til viðbótaskulda á næstliðnu ári, þá getur það að vísu dregizt nokkuð, að þeir fái lánin afgreidd, en þá aðeins vegna þess, að þeim þykir það borga sig að bíða dálítinn tíma eftir lánunum, ef þeir fá þá afgreiðslu, sem kemur þeim að meiri notum, ef þeir fá þá meira af sínum lausaskuldum tekið og breytt í fast lán. Nýi umsóknarfresturinn mundi ekki á nokkurn hátt tefja fyrir afgreiðslu þeirra lána, sem nú þegar hefur verið sótt um. Hv. þm. sagði, að það hefði ekkert verið tilgreint í auglýsingum bankans í fyrrasumar, hvaða skjöl þyrftu að fylgja umsóknum. Þetta er ekki rétt. Það var tekið fram, hvaða skjöl þyrftu að fylgja umsóknum, og það var ekki fyrr en um það leyti sem umsóknarfrestur rann út, sem auglýst var í útvarpi, — það var Búnaðarbankinn, sem auglýsti í útvarpi, að það væri nægilegt að senda aðeins umsókn um lán fyrir 1. okt., skjölin mættu koma síðar.

Það er samkv. því, sem ég hef nú bent á, alveg rangt, sem þessi hv. þm. hélt fram, að við framsóknarmenn hefðum tafið málið. Málið hefur ekkert tafizt fyrir okkar tilverknað. Hann var einnig með dylgjur um það, að víða um land hefðu bændur verið eggjaðir á að sækja ekki um lánin. Slíkar dylgjur hafa komið fram hjá fleirum í umr. um þetta mál hér í deildinni. Þeir hafa varazt að nefna nokkur dæmi um þetta, og ég geri fastlega ráð fyrir því, að þau séu engin til, og þess vegna eru þetta alveg ósæmilegar dylgjur, — dylgjur um, að einhverjir menn hafi verið að letja bændur í þessum efnum og ráða þeim frá því að sækja um þessi lán, — algerlega órökstuddar ásakanir, og ég geri ekki ráð fyrir, að þær hafi við nokkuð að styðjast, a.m.k. þekki ég engin dæmi þessa.

Út af till. okkar um það, að mönnum verði gefinn kostur á lánum vegna skulda, sem myndazt hafa 1961, vil ég segja frá því, að ég hef sannfrétt, að þegar verið var að afgreiða lánin til útgerðarfyrirtækja á næstliðnu ári, þá hafi það verið þannig yfirleitt, að miðað var við ástæður fyrirtækjanna, eins og þær voru í árslok 1960, en þó fengu ýmis útgerðarfyrirtæki einnig teknar með lausaskuldir, sem myndazt höfðu hjá þeim á árinu 1961, áður en afgreiðsla á lánum til þeirra fór fram. Þetta hef ég sannfrétt. Og það væri nokkurt spor í áttina til þess að láta bændur njóta svipaðrar fyrirgreiðslu að samþykkja brtt. okkar um það, að skuldir frá 1961 kæmu hér til greina. Og vissulega ættu bændur að mega í einu atriði njóta hliðstæðra kjara og útvegsmenn hafa notið. Ekki væri þar til mikils mælzt.