01.03.1962
Efri deild: 54. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (698)

21. mál, lausaskuldir bænda

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Að máli því, sem hér er nú til umr., hefur orðið alllangur aðdragandi. Eftir að núv. ríkisstj. kom til valda, boðaði hún þinginu og þjóðinni nýja stefnu í efnahagsmálum, nýtt kerfi, sem virtist eiga að vera eins konar sjálfvirkt kerfi, sem mundi skapa traustan og varanlegan grundvöll fyrir atvinnuvegina, þegar það væri komið í kring. Og þetta var boðað í hvítri bók, eins og mönnum er í fersku minni.

Við lifum á mikilli vélaöld, og við vitum mörg dæmi þess, að vélar eru sífellt að fullkomnast. Ég nefni í þessu sambandi t.d. nýtízku blaðaprentvél. Þegar búið er að koma fyrir efninu, þá er þetta eiginlega allt sjálfvirkt, pappírinn fer í gegnum marga valsa, og svo kemur blaðið umbrotið og altilbúið og þarf ekki annað en bera það á borð kaupendanna. Það virtist svo sem hið nýja kerfi, sem átti að leggja varanlegan grundvöll að atvinnulífinu í landinu, væri eins konar ný uppfinning, sem væri eiginlega sjálfvirk, þegar búið væri að setja þetta á laggirnar. En brátt kom í ljós, að atvinnuvegirnir stóðu mjög höllum fæti, og sú varð raunin, eftir að hið nýja kerfi kom til framkvæmda. Það var þannig ástatt hjá sjávarútveginum um áramótin 1960 og 1961, að útgerðarmenn munu hafa haft það við orð, að þeir mundu ekki geta gert út á vetrarvertíð s.l. vetur, nema einhverjar nýjar ráðstafanir yrðu gerðar í skuldamálum útgerðarinnar. Þá greip hæstv. ríkisstj. til þess ráðs að setja lög um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til þess að opna nýja lánaflokka. En á þessu var nokkur feimnisblær hjá hæstv, ríkisstj., því að hún greip til þess að setja þessi lög sem brbl. 5. jan. 1961, meðan þingmenn voru í jólahléi sínu, í stað þess að leggja málið fyrir þingið, sem þá í raun og veru átti setu, þó að stutt jólahlé hefði verið gert á störfum þingmanna. En þessi löggjöf mun áreiðanlega hafa átt ríkan þátt í því, að útgerðarmenn hurfu frá því að stöðva flotann um áramótin 1960–1961, heldur gengu að samningum um að hefja vertíðina.

Þegar þetta mál var til umr. hér á hv. Alþingi, beitti Framsfl. sér fyrir því, að hliðstæðar reglur yrðu þá þegar settar í löggjöfina gagnvart landbúnaðinum, eins og stefnt var að því að setja gagnvart sjávarútveginum með lögunum um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins til að opna nýja lánaflokka. Og framsóknarmenn í báðum deildum þingsins fluttu um þetta tillögur og beittu sér fyrir því að fá þessa breytingu gerða á málinu. Eitt atriði í tillögum framsóknarmanna var það, að vextir af þessum lánum, bæði gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði, ef til kæmi, yrðu ekki hærri en 5%, vildu binda það beinlínis í lögunum. Og þá lögðu framsóknarmenn enn fremur til, að landbúnaðinum yrðu veitt hliðstæð kjör og sjávarútveginum, þannig að lánin gengju til þess að bæta fjárhagsaðstöðu bænda og fyrirtækja, er eiga vinnslustöðvar fyrir landbúnaðarafurðir og skortir fé til greiðslu á lausaskuldum, er á þeim hvíla. Lánin skyldu samkvæmt tillögum framsóknarmanna veitt gegn veði í fasteignum og búvélum bænda, fasteignum og vélum vinnslustöðva landbúnaðarins eða öðrum tryggingum, sem metnar yrðu gildar, hámarkslánstími yrði út á fasteignir 20 ár og lán út á vélar 10 ár og vaxtahæðin yrði bundin í lögunum og yrði jöfn, bæði gagnvart sjávarútvegi og landbúnaði. Þessar tillögur felldi þingmeirihlutinn undir forustu núverandi ríkisstj. Það var fyrsta ganga núv. ríkisstj, í þessu hagsmunamáli bændastéttarinnar.

En svo virðist sem samvizka þeirra manna, sem felldu þessar tillögur, hafi orðið eitthvað óró, eftir að þannig hafði verið gengið frá málinu, því að nokkrum vikum eftir að löggjöfin gagnvart sjávarútveginum var afgreidd hér á þingi, fóru fram útvarpsumr. hér frá hv. Alþingi, — ég ætla, að það hafi verið í marz 1961, — og þá gefur einn af þm. Sjálfstfl. yfirlýsingu, sem ég tel vafalaust að hafi verið gefin í samráði við hæstv. landbrh., þess efnis, að ríkisstj. hafi ákveðið að leita eftir því við banka og sparisjóði, að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum. Svo liður tíminn, og þingi lauk s.l. vor, án þess að frá þessu skuldamáli bænda væri gengið. En 15. júlí í sumar eru sett brbl. að tilhlutan hæstv. landbrh. um breytingu á lausaskuldum bænda í föst lán, þ.e.a.s. frv. það, sem hér liggur nú fyrir til umr. Þó að þessi lög væru sett 15. júlí í sumar, eru þau ekki enn komin til framkvæmda. Hraðinn á þessu máli í höndum hæstv. ríkisstj. hefur ekki verið meiri en það. Og enn er fjallað um þetta frv. nú í marzmánuði 1962.

Það hefur komið fram í þessum umr., m.a. í ræðu hv. 10. landsk. þm., sem hér talaði áðan, að það hefði verið fullkomlega eðlilegt, að það hefði þurft langan tíma til þess að ganga frá þessu máli, því að það þurfti fé, já, mikið fé, til þess að ráða því til lykta eða finna þá lausn og framkvæma þá lausn, sem hér er stefnt að, sagði hv. 10. landsk. hér áðan. Þegar það er metið, hvað er mikið fé, þá vil ég, að það sé skoðað í samanburði við aðra þætti í þjóðfélaginu, bæði gagnvart sjávarútveginum og ýmsu öðru, eins og ýmis önnur fjárhagsvandamál, sem verið er að leysa. Nú sjáum við það í tímariti Landsbankans, sem lagt var á borð þm. hér fyrir fáum dögum, að á árinu 1961 hafa verið afgreidd stofnlán vegna sjávarútvegsins að upphæð 288 millj. kr. Þar er ekki tekið fram, hvort öll lán, sem veita á stofnlánadeildinni, hafa verið afgreidd fyrir áramótin síðustu, en sé svo, að eitthvað sé enn óafgreitt, þá á þessi tala enn eftir að hækka frá því, sem hér segir. Á hinn bóginn kom það fram í framsöguræðu hæstv. landbrh. hér í deildinni fyrir þessu máli, að sú heildarfjárhæð, sem umsóknir um lausaskuldalán bænda væru um, mundi nema 82 millj. kr., — ég held, að ég fari rétt með það, — eða rúmum 80 millj. kr. Hér eru því tvær tölur, sem eðlilegt er að líta á í samhengi og bera saman gagnvart þessum tveim höfuð atvinnuvegum þjóðarinnar, annars vegar 288 millj. a.m.k., sem búið er að veita í stofnlán til sjávarútvegsins, og hins vegar hinar rúmlega 80 millj., sem bændurnir hafa sótt um samtals að fá í lausaskuldalán. Ég verð að segja, að þegar þetta er borið saman, þá er þessi fjárhæð, sem að landbúnaðinum snýr að þessu leyti, ekki svo ákaflega há, að það út af fyrir sig hefði þurft að taka marga mánuði, eiginlega á annað ár, að finna lausn á þeim vanda, þegar litið er til þess á hinn bóginn, hvað hægt var að gera fyrir sjávarútveginn á skömmum tíma með bráðabirgðalagasetningu 5. jan. 1961. Þau ummæli hv. 10. landsk., sem að þessu lúta, eru því harla léttvægar röksemdir.

Þá kom það fram í ræðu hv. 10. landsk., að sú lausn, sem hér væri nú fundin á þessu skuldamáli bændanna, væri hæstv. landbrh. og stjórnarflokkunum að þakka, en stjórnarandstaðan ætti þar engan hlut að og hefði ekkert að því unnið. Þetta er fullyrðing, sem hv. þm. getur ekki staðið við. Við skulum líta á, hvernig þessu máli var tekið meðal bændanna sjálfra og samtaka þeirra, eftir að brbl. voru sett 15. júlí 1961, — bændanna, sem áttu að njóta hagræðisins af þessari lagasetningu. Þá má minna á það, að í sept. 1961 var haldinn aðalfundur Stéttarsambands bænda, þ.e.a.s. fullum tveim mánuðum eftir að brbl. höfðu verið sett, og eitt af því, sem aðalfundur Stéttarsambands bænda gerði ályktun um, er það, að nauðsyn beri til, að lausaskuldir bænda fáist yfirfærðar í bankana og verði lánaðar til langs tíma með lágum vöxtum. Þetta var sú rödd, sem heyrðist frá aðalfundi Stéttarsambands bænda, eftir að brbl. höfðu verið sett og var orðið kunnugt um efni þeirra. Enn ber það að sama brunni, þegar athugaðar eru ályktanir frá ýmsum búnaðarsamböndum og félagadeildum bændasamtakanna. Hv. 1. þm. Vesturl. las hér upp í ræðu sinni í dag kafla úr ályktun frá Búnaðarsambandi Suðurlands, og fleira mætti minna á, sem fer í sömu stefnu. Þetta sýnir það svo glöggt sem verða má, að bændurnir sjálfir fundu, að lagasetningin var ófullkomin og það þurfti að fá gagngerar breytingar á brbl. frá því, sem þau voru úr garði gerð í öndverðu.

Í sambandi við þá fullyrðingu hv. 10. landsk. hér áðan, að stjórnarandstaðan hefði engan hlut átt að lausn þessa máls og eiginlega engin áhrif getað haft á það, þá er ekki úr vegi að minna á, að meiri hl. í stéttasamtökum bænda er fylgismenn Framsfl., það fer ekki dult, og þannig er stjórn Stéttarsambandsins flokkslega saman sett, að meiri hlutinn er framsóknarmenn, en minni hl. sjálfstæðismenn. Og þannig er þetta víða í búnaðarsamböndunum og ýmsum félagsdeildum bændasamtakanna. Þó að þau sem slík starfi ekki beint á flokkslegum grundvelli, þá er alveg augljóst mál, að hið pólitíska fylgi er þannig í þessum samtökum. En til viðbótar því hefur Framsfl. sem slíkur hafið skelegga baráttu fyrir því að fá þessu máli breytt til aukins hagræðis fyrir bændastéttina frá því, sem brbl. frá í júlí segja til um. Og það er þessi barátta Framsfl. og bændasamtakanna, sem hefur haft mikil og ég vil segja mest áhrif á það, að við meðferð málsins hér í þinginu hefur fengizt á því breyting, sem ég tel mjög mikilvæga, í sambandi við þá samninga, sem fram hafa farið við bankana.

Þess má enn fremur geta, að eftir að málið kom inn í þingið, sendi stjórn Stéttarsambandsins álit til fjhn. Nd., og það álit er prentað með nál., þar sem stjórn Stéttarsambandsins leggur áherzlu á, að breytingar fáist á brbl. í veigamiklum atriðum, og í áliti Stéttarsambandsins segir þannig orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Á aðalfundi Stéttarsambands bænda í sept. s.l. var samþykkt tillaga þess efnis, að lausaskuldir bænda fáist yfirfærðar í bankana og verði lánaðar til langs tíma með lágum vöxtum. Stjórn Stéttarsambandsins telur, að það séu einkum þrjú atriði, sem bæta þurfi inn í frv., til þess að það geti komið að viðunandi notum: 1) Að heimilt verði að veita lán út á landbúnaðarvélar til 10 ára. 2) Vextir af skuldabréfum verði ekki hærri en 6½%. 3) Að Seðlabankanum verði gert skylt að kaupa skuldabréfin á nafnverði.“ Og í framhaldi af þessu segir: „Skulu þessi atriði rökstudd nokkru nánar. Til eru bændur, sem ekki eiga neinar fasteignir, en eru nýbúnir að eignast dýrar landbúnaðarvélar. Sýnist sanngjarnt, að þeim verði gefinn kostur á hæfilegum lánum fyrir lausaskuldum, sem þeir hafa stofnað til vegna vélakaupa, líkt og gert er ráð fyrir um útgerðarmenn, sbr. 2. gr. frv. til laga um heimild stofnlánadeildar sjávarútvegsins við Landsbanka Íslands til að opna nýja lánaflokka.“

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að sú breyting, sem fengizt hefur fram á málinu með samningum við bankana, sem hæstv. ráðh. hefur gert grein fyrir, er að mínum dómi mjög mikilvæg. En þrátt fyrir það skortir á, að önnur atriði, sem t.d. stjórn Stéttarsambandsins hefur lagt áherzlu á, hafi tekið þeim breytingum, sem þörf er á. Það stingur t.d. mjög í stúf, að lán til sjávarútvegsins eru veitt til fyrirtækja, sem hafa haft með höndum vinnslu sjávarafurða. En vinnslustöðvar landbúnaðarins eiga ekki að njóta neins af þessum lánum.

Það er í sjálfu sér gott, ef það tækist að útvega fjármagn til lána til framkvæmda, sem stofnað verður til hér eftir, eins og hæstv. ráðh. fór nokkrum orðum um í framsöguræðu sinni. En það er bara annar þáttur, það er annað mál, það snýr að framtíðinni, en þessi breyting á lausaskuldum snýr að fortíðinni. Og þess vegna er í sjálfu sér ekki rétt að blanda því saman, þó að það sé mjög umræðuvert og mikilvægur þáttur út af fyrir sig að búa í haginn fyrir framtíðina.

Þá er það einnig mikill galli á þessu frv., að lánin til bændanna á einungis að veita gegn veði í fasteignum bænda ásamt mannvirkjum, sem á jörðinni eru. En vélar eiga ekki að vera veðhæfar gagnvart þessum lánum bændanna, þótt vélar sjávarútvegsins séu veðhæfar vegna hliðstæðra lána til þess atvinnuvegar. Nú er það svo, eins og stjórn Stéttarsambandsins bendir á í þeim orðum, sem ég las hér, að það eru til bændur, sem eiga ekki fasteignir til þess að veðsetja. Og ég sé ekki í þessu frv. eða þessum brbl., að þar sé lögð almenn skylda á alla jarðeigendur að veita veðleyfi, enda er hæpið, að það sé hægt. Það getur því skapazt sú aðstaða fyrir einstakan mann, sem á ekki fasteign, að honum veitist næsta erfitt að láta í té nauðsynleg veð til tryggingar því láni, sem hann þarf að fá. Það kom einnig fram í ræðu hv. 10. landsk. hér áðan, að margar jarðir væru orðnar mjög hlaðnar veðum vegna annarra lána, sem tekin hafa verið, og nú eiga þessi lán að viðbættum öðrum veðskuldum, sem á jörðunum hvíla, ekki að nema meira en 70% af matsverði veðsins. Með því að búa svo um hnúta, að vélar landbúnaðarins séu ekki veðhæfar að þessu leyti, er óneitanlega skertur möguleiki ýmissa bænda til þess að setja fullnægjandi veð, til þess að sú lausn komi þeim að fullum notum, sem hér er stefnt að.

Þá verð ég enn, þótt það hafi komið fram hjá ræðumönnum, sem fyrr hafa talað, að víkja að því, að vextir af þessum lánum eiga að verða mjög háir. Það munu ýmsir hafa vænzt þess, m.a. eftir þá yfirlýsingu, sem gefin var í þessu efni fyrir hönd Sjálfstfl., að ég ætla s.l. vetur, að það yrði meira í hóf stillt um vaxtahæðina af þessum lánum en raun er á, því að í yfirlýsingunni, sem Jónas Pétursson flutti, segir beinlínis, að hluta af víxilskuldum bænda verði breytt í föst lán til langs tíma með hagkvæmum vaxtakjörum. Hingað til hefur það ekki verið metið svo, að 8% vextir væru hagkvæm vaxtakjör. En það er þá sjálfsagt í samræmi við annað eftir hinu nýja kerfi og þeim stjórnarháttum, sem þingmeirihl. stendur fyrir, ef nú er farið að kalla það hagkvæm vaxtakjör, 8% vexti á 20 ára lánum. Annars virtist mér ofur lítið á reiki í framsöguræðu hæstv. landbrh., hvort vextirnir yrðu 7½% eða 8%, og má segja, að það sé ekki neitt úrslitaatriði eða stórt atriði í þessu máli. En í reglugerð, sem sett hefur verið samkv. lögunum, er berum orðum sagt, að vextir skuli vera 8% og þar af gangi ½% til bankans, sem veitir lánið. Ég vil því halda mig við það, sem segir berum orðum í reglugerðinni, því að ég hef ekki orðið þess var, að henni hafi verið breytt að þessu leyti.

Þá hefur hæstv. ráðh. lagt nokkra áherzlu á, að þessi vaxtabyrði muni ekki reynast bændum svo þung í skauti sem ætla mætti, vegna þess að kúfurinn af vöxtunum, — held ég, að hann hafi orðað það, — komi inn í verðlagsgrundvöllinn og sé því í raun og veru greiddur með verðlagi afurðanna. Út af þessu vil ég minna á það, að eitt af því, sem mestum ágreiningi hefur valdið milli fulltrúa framleiðenda og neytenda, er vaxtaliðurinn í verðlagsgrundvellinum. Sá ágreiningur snýr að miklu leyti eða kannske aðallega að vöxtum af eigin fé bóndans. En í sambandi við vexti af skuldum ber að gæta þess, að vextir þeir, sem færðir eru inn í verðlagsgrundvöllinn, eru miðaðir við meðaltal. Nú er það þannig, að þeir 1200–1300 bændur, sem sagt er að umsóknir hafi sent um lausaskuldalán, eru aðeins einn fimmti hluti bændastéttarinnar, og það verður að telja, að þessi fimmti hluti bændastéttarinnar sé þeir í stéttinni, sem erfiðastan efnahag eiga og höllustum fæti standa, og fylgi þar af leiðandi alls ekki meðaltali um þá vaxtabyrði, sem á búrekstri þeirra hvílir. Þess vegna er þessi röksemd ráðh. ekki gild nema a.m.k. að litlu leyti gagnvart þeim mönnum, sem hér eiga hlut að máli, og það nægir því ekki vegna þeirra að vísa til verðlagsgrundvallarins, heldur væri hitt miklu hagkvæmara þeim, sem lánanna eiga að njóta, að vextirnir væru beinlínis færðir niður á þessum lánum frá því, sem til er stofnað með brbl.

Þá hefur verið á það drepið í þessum umr., að hverjum bónda hefði verið það í lófa lagið þegar í sumar og í haust að sækja um þessi lán og að umsóknarfresturinn hafi þar af leiðandi verið nægilega rúmur. Ég get ekki fallizt á þetta, vegna þess að meðan málið var þannig, að bréfin, sem lántakandinn á að fá, voru í raun og veru ekki gildur gjaldeyrir, þá átti bóndinn, sem skuldaði lausaskuldir, algerlega undir högg að sækja við lánardrottin sinn, hvort hann tæki bréfið eða ekki. Nú er það vitað, að verzlanir ýmsar og sparisjóðir hafa blátt áfram ekki bolmagn til þess að binda fé til langs tíma í þessum lánum. Og í brbl. var bóndanum ekki veitt nein trygging fyrir því, að hann gæti látið þetta bréf, þótt hann fengi það, sem gildan gjaldeyri til verzlunar, heldur varð það að vera háð samningum milli hans og lánardrottins. Þess vegna hefur málið tekið miklum breytingum óneitanlega við þá samninga, sem nú hafa átt sér stað við bankana, og í framhaldi af því væri fullkomlega eðlileg málsmeðferð að gefa bændum nú kost á því að sækja enn að nýju og halda opinni afgreiðslu þessara lána nú enn um jafnvel nokkurra mánaða skeið. Enn fremur vil ég taka undir það, sem aðrir hafa bent á, að það er fullkomlega sanngjarnt, að skuldir, sem stofnað hefur verið til á árinu 1961, séu teknar til greina í þessu sambandi, — þannig verði endanlega gengið frá þessu máli hér í þinginu. Einmitt vegna þess, hve mikill dráttur hefur orðið á um afgreiðslu þessa máls og framkvæmd þess, gagnstætt því, sem átti sér stað um lán sjávarútvegsins, væri það mjög eðlilegt og í raun og veru sjálfsagt gagnvart bændastéttinni, að það hagræði fylgdi þó þessum drætti á afgreiðslu málsins, að skuldir, sem stofnað hefur verið til 1961, yrðu teknar til greina í þessu sambandi. Þessi atriði vil ég leyfa mér að leggja áherzlu á nú, þegar ég lýk máli mínu.