20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

21. mál, lausaskuldir bænda

Fram. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Í forföllum 1. þm. Norðurl. e. (KK) mætti ég í fjhn., þegar fjallað var um þetta mál. Það er ástæðan til þess, að ég skrifa undir þetta minnihlutanál. og hef framsögu í því, og hefði sú skýring raunar átt að koma fram í nál.

Við 1. umr. málsins hér í þessari hv. deild var rætt nokkuð um málið almennt, og ég mun þess vegna reyna nú að fara ekki mjög langt út í almennar umr. um málið. Ég kemst þó ekki hjá því að drepa aðeins á örfá atriði, áður en ég vik að þeim brtt., sem ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. (BjörnJ) flyt hér.

Það er kunnara en frá þurfi að segja hér á þessum vettvangi, að á undanförnum árum, einkum áður en hin svokallaða viðreisnarstefna var farin að verka, lögðu margir bændur í mjög fjárfrekar framkvæmdir, byggingar, ræktun, vélakaup o.fl., o.fl. Þeir hafa ræktað jörð sína, byggt bæði íbúðarhús og peningshús, keypt vélar og áhöld, tekið rafmagn á bæina, þar sem þess var kostur o.fl., o.fl. Þau föstu lán, sem kostur hefur verið á til þessara framkvæmda, hafa engan veginn nægt til þess að standa undir kostnaði við þessar framkvæmdir. Allmargir bændur hafa því stofnað til lausaskulda eða bráðabirgðalána, oft víxillána í bönkum eða sparisjóðum, auk þess sem skuldir hafa safnazt hjá þeim sumum hverjum í verzlunarfyrirtækjum þeim, sem þeir verzla við. Hjá mönnum gætti á undanförnum árum mikillar bjartsýni og mikils framkvæmdavilja. En hjá þeim, sem hafa lagt í þessar framkvæmdir, oft af miklum stórhug, í einstaka tilfellum kannske ekki af nægilegri fyrirhyggju, hafa safnazt meiri eða minni lausaskuldir, ýmist í bönkum, verzlunum eða jafnvel stundum við einstaklinga. Ég lít nú svo á, að við óbreyttar aðstæður hefðu flestir þessara bænda komizt fram úr þessum vandræðum og að þeir hefðu getað greitt skuldir sínar af eigin rammleik og án aðstoðar þess opinbera. En vegna efnahagsaðgerða ríkisstj. gerbreyttist aðstaða þessara manna, bæði vegna hinnar stórkostlegu vaxtahækkunar, hinnar gífurlegu gengisfellingar og þar af leiðandi aukinnar dýrtíðar og vaxandi framleiðslukostnaðar. Afleiðingar þessa, ásamt svo lánsfjárskorti hafa gersamlega kippt fótum undan mörgum þessara bænda og kollvarpað þeirra áætlunum um skuldagreiðslur og heilbrigðan atvinnurekstur á næstu árum.

Eftir að þessar breytingar höfðu á orðið, lá það ljóst fyrir, að ýmsum bændum mundi vera gersamlega um megn að standa undir víxillánum og öðrum vaxtaháum lausaskuldum. Ég skil það vel, að hæstv. ríkisstj. vilji komast hjá því að þurfa að rifja þetta upp, en það verður vitaskuld ekki hjá því komizt í sambandi við þetta mál að minna á, að ein meginorsökin til þess, hversu bændum veitist erfiðlega að standa undir sínum lausaskuldum, er einmitt sú breyting, sem gerð hefur verið í efnahagsmálum, og það, hversu er komið, má þannig einmitt rekja til aðgerða þess opinbera.

Eftir að þetta lá fyrir, var mjög fljótt sýnilegt, að bændum yrði með einhverjum hætti að rétta hjálparhönd. Annars var hætt við því, að sumir þeirra a.m.k. mundu hreinlega gefast upp, til tjóns bæði fyrir sjálfa þá og þeirra lánardrottna og þjóðfélagið í heild. Það er vissulega í alla staði réttmætt og eðlilegt, að þjóðfélagið rétti þessum mönnum hjálparhönd, því að vandræði þeirra stafa einmitt að verulegu leyti, eins og ég áðan sagði, af opinberum aðgerðum. Og það er einmitt þetta atriði, sem leggja ber áherzlu á í sambandi við þetta mál og þegar athugaðar eru þær ráðstafanir, sem fyrirhugaðar eru til fyrirgreiðslu bændum, það, að sá vandi, sem við er að glíma, á að verulegu leyti, — ég segi ekki að öllu leyti, — en að verulegu leyti rætur sínar að rekja til aðgerða þess opinbera.

Það var ljóst, að ef bændur áttu að komast sæmilega út úr þessum vandræðum, urðu þeir að eiga kost á hagkvæmum og ódýrum lánum í stað víxilskuldanna og kostnaðarsamra bráðabirgðalána og verzlunarskulda, sem þeir hafa átt við að glíma. Þetta hefur framsóknarmönnum vissulega verið ljóst. Ég minni hér aðeins í þessu sambandi á það, að framsóknarmenn hafa bæði á s.l. þingi og þessu þingi lagt fram frv. um sérstakan bústofnslánasjóð, sem m.a. var ætlað það hlutverk að létta undir með bændum um greiðslur þungbærra lausaskulda, bæði með lánastarfsemi — og fyrst og fremst með lánastarfsemi, en jafnvel í einstaka undantekningartilfellum með beinum styrk.

Ég minni einnig á það, að framsóknarmenn hafa flutt, bæði á þessu þingi og á síðasta þingi, frv. til laga um það að létta af lánasjóðum landbúnaðarins gengistapi, en það var vitaskuld alltaf út frá því gengið, að hið opinbera yrði að hlaupa undir bagga með þeim lánasjóðum og taka á sig þann vaxtahalla, sem óhjákvæmilega hlaut að verða á starfsemi þeirra sjóða. Það hafði einnig verið gert oftar en einu sinni á undanförnum árum, að til þessara sjóða hafði verið ráðstafað hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs.

Síðast, en ekki sízt minni ég á það, að þegar frv. um lánveitingar til þess að létta lausaskuldum af útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækjum var til afgreiðslu á síðasta Alþingi, báru framsóknarmenn fram brtt. við það frv., þess efnis, að í frv. yrði bætt ákvæðum um lán til bænda og þeirra fyrirtækja í sama skyni. Var þar lagt til, að sömu reglur yrðu látnar gilda um þær lánveitingar, lánstíma og vexti, og um lánin til sjávarútvegsins. Stjórnarflokkarnir beittu sér gegn þessum brtt., og voru þær felldar. En skömmu síðar mun þó hæstv. ríkisstj. og stjórnarstuðningsmönnum hafa orðið ljóst, að ekki yrði hjá því komizt að gera einhverjar ráðstafanir í þessu efni. Þá var það, að einn hæstv. stjórnarflokksþm., Jónas Pétursson, lýsti því yfir fyrir hönd flokksins við útvarpsumræður. sem fram fóru, að það mundu verða gerðar ráðstafanir til að breyta hluta af lausaskuldum bænda í föst lán með hagstæðum kjörum. Til efnda á þessu fyrirheiti voru svo brbl. frá 15. júlí s.l. sett, en það eru þau brbl., sem hér liggja fyrir og því frv., sem hér er til umr., er ætlað að staðfesta.

Í formála fyrir þessum brbl. segir, að ríkisstj. hafi gefið fyrirheit um breytingu á hluta af lausaskuldum bænda í föst lán til langs tíma með svipuðum hætti og gert hefur verið með sérstökum lögum gagnvart fyrirtækjum, sem stunda útgerð fiskiskipa og fiskvinnslu. En þegar þessi brbl. eru athuguð svo og þær reglur, sem settar voru samkv. þeim. verður fljótt ljóst, að æði mikið skortir á, að staðið sé við þessi fyrirheit um lán bændum til handa, sem sambærileg séu við þau lán. sem veitt voru sjávarútveginum á s.l. ári. Séu ákvæði þessara brbl. og þær reglur, sem settar hafa verið samkv. þeim, bornar saman við lögin um lán til sjávarútvegsins og framkvæmd þeirra mála. kemur fram, að þar er mjög verulegur munur á og að bændum voru ekki með þessum brbl. tryggð sambærileg kjör og útvegsmönnum með lánum úr stofnlánadeildinni. Meginmunurinn var að sjálfsögðu sá, að í lögunum um breytingu á lausaskuldum útgerðarinnar var stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabankann gert að skyldu að veita lánin til langs tíma. En í þessum brbl. var ekki og er ekki að finna neina tryggingu fyrir því, að nokkur bankastofnun né nokkur annar kröfuhafi vilji taka við þeim bankavaxtabréfum, sem þessi lán eru veitt í með nafnverði. Enn fremur var augljóst, að lánskjörin yrðu hér að allmiklu önnur en samkv. lögunum um skuldaskilalán útgerðarinnar. Samkv. þessum brbl. og því frv., sem hér liggur fyrir til staðfestingar á þeim, á aðeins að lána gegn veði í fasteignum, en ekki gegn veði í vélum eða vinnslustöðvum, svo sem heimilað var um lán til sjávarútvegsins. Og hér er enn fremur ákveðið — eða ákveðið í þeim reglum, sem settar hafa verið samkv. þessum lögum, að vaxtagreiðslur af þessum lausaskuldalánum landbúnaðarins skuli vera 8% á móti 6½% hjá sjávarútveginum.

Eins og ég áðan sagði, var þó aðalatriðið, að það var með þessari lagsetningu einni út af fyrir sig á engan hátt tryggt, að bændur gætu notfært sér bankavaxtabréf þau, sem lánin eru veitt í. Hv. frsm. meiri hl., hv. 6. þm. Norðurl. e. (MJ), vildi halda því fram hér áðan í sinni framsöguræðu, að bændur hefðu mátt treysta því, að reynt yrði að sjá til þess, að þeim kæmu lánin að notum, og var það raunar endurtekning á því, sem hæstv. landbrh. sagði við 1. umr. málsins hér í deildinni, þar sem hann lét þau orð falla, að bændur hefðu getað treyst því, að ríkisstj. færi ekki að gefa út brbl., nema tryggt væri, að hægt væri að greiða lausaskuldir með bréfunum. En þetta er vitaskuld mjög fjarri réttu lagi. Bændur gátu alls ekki treyst þessu. Hv. frsm. meiri hl. lét þess einnig getið, að á sínum tíma, þegar brbl. þessi voru sett, hefði ekki verið fært að leggja þá skyldu á bankana, að þeir tækju við þessum bréfum með hliðstæðum hætti og gert var um sjávarútvegslánin, vegna þess að ekkert hefði verið vitað um það, hve miklu þessar lausaskuldir næmu. Það hefði því ekki verið gerlegt, þegar málin stóðu þannig. Það einmitt sýnir, að hæstv. ríkisstj. hafði þá alls ekki gert sér grein fyrir því né gert það upp við sig, hvernig hún mundi snúast við þessu máli. Það er sagt, að það hafi verið ætlunin að leita um þetta samninga við bankana og fara samningaleið í stað þess að lögbjóða þetta. En hæstv. ríkisstj. gat ekkert vitað um það, hvort þeir samningar mundu takast eða ekki. Og sannleikurinn er sá, að það lítur út fyrir, að það hafi verið við nokkuð ramman reip að draga í þessum samningum, því að þeir hafa tekið æðilangan tíma. Eins og ég áðan sagði, voru brbl. gefin út 15. júlí s.l., en það var ekki fyrr en 12. febr. s.l., að fyrir lá, að samkomulag hefði náðst við Seðlabankann um þá afgreiðslu, sem samningar þá náðust um. Og einn hv. stjórnarstuðningsmaður lét þess getið í umr. í þessari hv. deild við 1. umr. málsins, að hæstv. landbrh. hafi í þessu máli sýnt aðdáunarverða þrautseigju. Sú þrautseigja hefur sjálfsagt m.a. beinzt að því að koma á þeim samningum um þetta mál, sem gera það að verkum, að líklegt er, að margir umsækjendur geti nú að vísu losnað við þessi bréf á nafnverði. En þetta sýnir, hvað það er fjarri lagi að halda því fram, að bændur hafi getað treyst því á s.l. sumri, að þeir gætu notfært sér lánin á þann hátt, að þeir gætu losnað við þau á nafnverði. Það liggur þess vegna alveg ljóst fyrir, að þegar þessi brbl. voru gefin út, var engin trygging fyrir því, hver afgreiðsla mundi fást á málinu að þessu leyti til, og það óvissuástand var ríkjandi, löngu eftir að þetta mál var lagt fyrir Alþingi. Það var í rauninni ríkjandi allar götur þangað til 12. febr. s.l.

Það verður þess vegna að segjast, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, að frá þessu máli var í öndverðu gengið ákaflega ótryggilega og á allt annan veg en gagnvart skuldaskilalánum sjávarútvegsins. Þar þótti ekkert athugavert við það fyrir fram, áður en fyrir lá, hverjar umsóknir mundu berast frá þeim, sem sóttu þá um lán, að lögbjóða, að stofnlánadeild sjávarútvegsins skyldi kaupa þau bréf á nafnverði, að vísu að fullnægðum öðrum tilteknum skilyrðum, sem hv. frsm. meiri hl. minntist á. Og það var þó fyrir fram vitað og hefur sannazt áþreifanlega síðar, að í því tilfelli var um miklu hærri fjárhæð að tefla en í sambandi við skuldaskilalán landbúnaðarins.

Hv. frsm. meiri hl. vildi gera nokkuð mikið úr því, að í sambandi við lausaskuldalán til bændanna hefðu risið og hlytu eðli málsins samkvæmt að rísa ýmsir erfiðleikar, sem hefði ekki gætt viðvíkjandi skuldaskilalánum til sjávarútvegsins. Það má vel vera, að það hafi verið vissir erfiðleikar, sem í því sambandi hefðu komið til greina. En ég held því hiklaust fram, að þeir erfiðleikar hafi samt ekki verið þess háttar, að það hefði ekki verið alveg eins frambærilegt að lögbjóða það, að stofnlánadeild, e.t.v. sérstök, sem sett hefði verið á fót við Seðlabankann, hefði greitt fyrir þessu máli með hliðstæðum hætti og stofnlánadeild sjávarútvegsins gerði. Það hefði að mínu viti verið fullkomlega eðlilegt. Og að öðru leyti snerta þessar mótbárur, sem hv. frsm. vildi bera fyrir sig, alls ekki önnur þau atriði, sem um er deilt í þessu máli, eins og t.d. vextina. Það eru engir þeir tæknilegir erfiðleikar í sambandi við lausaskuldalán til landbúnaðarins, sem gera það að verkum, að nauðsynlegt sé að hafa vexti á þeim lánum 1½% hærri en á lánum til sjávarútvegsins. Hv. frsm. meiri hl. vildi að vísu reyna að færa fram þau rök fyrir þessari ákvörðun, að það hefði þurft að gera bréf þessi útgengileg með háum vöxtum, þar sem ekki hefði verið hægt að leggja skyldu á neinar stofnanir að taka þau. Ég held, að þessi röksemd sé harla léttvæg og það er ég viss um að hv. frsm. sem bankastjóra er ákaflega vel ljóst. Meðan þannig er, að menn geta lagt fé sitt á bundinn reikning til eins árs í banka og fengið af því 9%, liggur nokkurn veginn í augum uppi, að menn fara ekki að ásæla,t bréf vaxta vegna, sem bera 8% eða 7½%.

Ég tel það því liggja alveg ljóst og óumdeilanlega fyrir, að þessi lán, lausaskuldalán, sem fyrirhuguð eru til bænda, eru með óhagstæðari kjörum en lausaskuldalánin til sjávarútvegsins. Það er alveg augljóst og verður ekki um deilt að því er varðar vaxtamismuninn. Það er augljóst og verður ekki heldur um deilt að því leyti til, að bændum er ekki leyft að setja eða nota sambærileg veð og útgerðarmönnum var heimilað. Og það stendur líka alveg fast, eins og ég hef hér rakið nokkuð og liggur alveg ljóst fyrir, að við útgáfu brbl. og lengi fram eftir þessu þingi var alls engin vissa um það, hvernig fara mundi um sölu eða afsetningu á þeim bankavaxtabréfum, sem lánin eru veitt í. Um þetta geta menn ekki deilt, ef menn vilja beygja sig fyrir staðreyndum. Hitt er svo annað mál, að menn geta, ef menn vilja, reynt að færa fram einhver rök fyrir því, að landbúnaðurinn eigi að þessu leyti til að búa við lakari kjör en sjávarútvegurinn.

Hitt er svo annað mál, og því fagna ég, að þrátt fyrir það, þó að þetta hafi ekki verið undirbúið í öndverðu svo sem skyldi, hafa nú samningar tekizt við Seðlabankann og ríkisbankana þrjá, Landsbankann, Útvegsbankann og Búnaðarbankann, um það, að þeir taki þessi bankavaxtabréf af sínum viðskiptamönnum á nafnverði til skuldagreiðslu eða á bundinn reikning, þó ekki af einstaklingum. Þetta er að minni skoðun mikilsverð endurbót á málinu, þó að það skorti að vísu enn á í þessu sambandi, að skuldum við einstaklinga er þarna alveg sleppt, og geta því einhver vandkvæði risið í því sambandi. Ég skal þó játa, að slíkar lausaskuldir eru að sumu leyti þannig, að erfiðara er við þær að eiga.

En þrátt fyrir þær lagfæringar á þessu frv. og á fyrirhugaðri framkvæmd þessara laga, sem náðst hafa fram, á meðan málið hefur verið til meðferðar hér á hv. Alþingi, eru enn nokkrir verulegir ágallar á frv., og þá ágalla þarf að sníða af þessu frv., ef bændur eiga að fá sambærileg kjör á þessum lánum og sjávarútvegsmenn hafa fengið á sínum skuldaskilalánum, og að því, að svo megi verða, að kjörin verði sambærileg, miða þær brtt., sem ég ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. hef flutt hér á þskj. 415. Og ég skal þá víkja að þeim brtt. með örfáum orðum.

1. brtt. er við 1. gr. og er um það í fyrsta lagi, að í stað þess, að það er miðað í lögunum við skuldir, sem hafa orðið til vegna framkvæmda, sem bændur hafa ráðizt í á jörðum sínum árið 1956 til 1960, þá skuli þetta einnig taka til ársins 1961. Það virðist vera fullkomið sanngirnismál, þar sem framkvæmd í þessum efnum og lánveitingar hafa dregizt svo sem raun ber vitni um, og það er líka sérstakt sanngirnismál af því, að árið 1961 er einmitt bændum sérstaklega erfitt að því er framkvæmdir varðar, vegna þess að þá voru verðlagshækkanir komnar til og framkvæmdir allar því miklu dýrari en áður var. Þess vegna er ómótmælanlegt, að bændur eiga í erfiðleikum vegna þeirra framkvæmda, sem þeir áður höfðu undirbúið og gátu þar af leiðandi ekki hætt við, en urðu að ráðast í á árinu 1961. Ég skal taka fram vegna ummæla hv. frsm. meiri hl., að það er á engan hátt ætlunin, að þetta verði almennt til þess að seinka lánveitingum í þessu efni. Þó að þessi till. yrði samþykkt, bæri að skoða það sem svo, að umsækjendum væri gefinn kostur á því, að þetta ár væri tekið með, og ef þeir hyrfu að því ráði, mundu sjálfsagt ekki vera nema sumir af þessum bændum, sem þannig stæði á um, að þeir vildu sérstaklega notfæra sér þetta vegna framkvæmda ársins 1961, og þá mundu lánveitingar til þeirra að vísu eitthvað tefjast, vegna þess að þeir yrðu að afla vottorða um þetta efni, en lánveitingar til annarra, sem vildu ekki notfæra sér þennan möguleika eða þyrftu ekki á honum að halda, þyrftu auðvitað ekkert að tefjast fyrir þessar sakir, og þannig er þetta meint af hálfu okkar flm.

B-liður þessarar 1. brtt. er um það, að við gr. bætist, að enn fremur eigi þetta við um lánveitingar handa fyrirtækjum, sem á undanförnum árum hafa komið upp vinnslustöðvum fyrir landbúnaðarafurðir, en hafa ekki fengið nægilegt fjármagn til langs tíma til þeirra framkvæmda. Þetta er aðeins til samræmis við það, sem gildir um sjávarútveginn. Þetta sýnist í sjálfu sér vera sjálfsögð breyting, og ég skal ekkert rökstyðja hana frekar, því að mér sýnist, að það liggi svo í augum uppi, að þetta eigi að koma hér með, það sé ekki nokkur ástæða til þess að skilja þetta frá og láta fyrirtæki landbúnaðarins sæta að þessu leyti til allt annarri reglu en sjávarútvegsfyrirtækin.

2. brtt. er við 2. gr. Fyrri liður hennar er um það að bæta inn sem veðhæfum eignum landbúnaðarvélum og vinnslustöðvum landbúnaðarins. Þetta er líka algerlega til samræmis við það, sem gildir um sjávarútveginn samkvæmt skuldaskilalánum hans. Og hvað því viðvíkur, sem hv. frsm. var að tala um, að það mundi ekki hafa mikið til þess komið í reyndinni, að þau skuldaskilalán hefðu verið veitt út á vélar, þá held ég, að það sé alger misskilningur. Ég held einmitt, að jafnvel hæstu upphæðirnar í því sambandi séu út á ýmis frystihús og vinnslustöðvar sjávarútvegsins, þar sem vélar eru vitaskuld ein aðaluppistaðan í því verðmæti, sem lánað er út á.

B-lið leiðir svo nokkuð af A-liðnum. Þar er það ákveðið, að lán út á fasteignir skuli vera 20 ár, eins og gert er ráð fyrir samkv. frv., þ.e.a.s. lánstími skuli vera allt að 20 árum, — það er ekki bundið við það, að hann sé endilega 20 ár, heldur að 20 ár séu hámarkslánstíminn, — en jafnframt, að lán út á vélar megi vera allt að 10 árum. Þegar litið er til þessara brtt., er ljóst, að það fellur algerlega um sjálft sig, sem hv. frsm. meiri hl. hélt hér fram í sinni framsöguræðu, að það væri ekki hægt að lána út á þær til svo langs tíma. En það er eins og ljóst er af þessari brtt., að það er alls enginn að fara fram á, að það sé lánað til jafnlangs tíma út á vélar og fasteignir, heldur er skýrum stöfum tekið fram í þessari brtt., að lánstíminn út á vélar megi vera allt til 10 ára, ekki lengri. Að öðru leyti fer það eftir mati, þannig að þegar litið er til þess, þá er ljóst, að vélarnar geta verið á allan hátt gildar sem veð í þessu sambandi og ekki nokkur minnsta ástæða né sanngirni til að fyrirmuna bændum að fá lán út á þessar vélar. Og ég vil benda á það í þessu sambandi, að þetta frv. var sent til umsagnar stjórnar Stéttarsambands bænda, — Það var gert af hálfu fjhn. Nd., þar lagði stjórn Stéttarsambandsins, sem skipuð er mönnum af ýmsum flokkum, stjórnarstuðningsmönnum sem stjórnarandstæðingum, einmitt áherzlu á þetta atriði, að það væri gefin heimild til þess að veita lán út á landbúnaðarvélar allt að 10 árum. Og þeir rökstyðja það alveg sérstaklega, vegna þess að þeir benda á, að það séu margir bændur, sem alls ekki eigi þær jarðir, sem þeir búa á, og alls ekki eigi þar af leiðandi neina fasteign til þess að setja að veði, en séu hins vegar nýbúnir að kaupa mjög dýrar vélar, mjög dýrar landbúnaðarvélar, sem eðlilegt sé að þeim sé gefinn kostur á að fá lán út á, svo að þeir geti losnað við þær lausaskuldir, sem þeir hafa stofnað til vegna vélakaupanna. Það er nú svo, að þó að það sé miðað þarna við framkvæmdir í frv., þá er hætt við því, að það sé erfitt að greina á milli þeirrar skuldasöfnunar í lausaskuldum, sem orðið hefur vegna sérstakra framkvæmda, og þeirrar, sem orðið hefur vegna vélakaupa, enda hvort tveggja jafnbráðnauðsynlegt og ekki gerandi þar neinn greinarmunur á í sjálfu sér.

Og svo kem ég loks að 3. liðnum í þessari brtt., við 2. gr., en í 3. mgr. 2. gr. er gert ráð fyrir því, að vaxtakjör skuli ákveðin af stjórn veðdeildarinnar að höfðu samráði við ráðherra, og það er samkv. þessu ákvæði, sem ákvörðun hefur verið tekin um það, að vextirnir eða kostnaðurinn við lánin verði raunverulega 8% eða svari til 8% vaxta með vöxtum af bréfunum og allri lántökuþóknun. Brtt. hljóðar um það, að við bætist: „en þó séu vextirnir eigi hærri en 6½%.“ Með því er það ákveðið, að vextirnir skuli vera þeir sömu og sjávarútvegurinn hefur greitt af sínum lánum. Það hljóta allir að taka undir það, að engin sanngirni er í því, að þessi landbúnaðarlán beri hærri vexti en sjávarútvegslánin og að bændur þurfi að greiða hærri vexti af sínum lánum. Það er engin sanngirni í því. Í annan stað eru bændur alls ekki færir um að greiða 8% vexti, og ef það á að verða svo, þá er takmörkuð hjálp í þessum lánum, vegna þess að vaxtagreiðslurnar eru þá svo háar, að þær eru í mörgum tilfellum allt að því eins háar og þeir verða nú að greiða af sínum lausaskuldum, þannig að þetta eru þá allt of dýr lán fyrir bændur, og það er engin von til þess, að ég held, að þeir geti staðið undir slíkum vaxtagreiðslum. Ég held, að þetta hljóti allir að viðurkenna, sem kunnugir eru fjárhagsafkomu bænda og þá allra helzt þeirra bænda, sem hér eiga hlut að máli, sem margir hverjir eru þeir bændur, sem erfiðasta aðstöðuna hafa á allan hátt. Það er alveg vonlaust, að þeir geti staðið undir 8% vöxtum, því að 6½% vextir eru að mínu viti í rauninni hærri en þeir fá ráðið við, þó að það hafi ekki verið lagt í það að gera brtt. um lægri vexti, af því að það þótti rétt að miða hér við sjávarútveginn og sannprófa það, hvort menn vildu ekki unna bændum sama réttar að þessu leyti.

Svo er loks síðasta breytingin, sem miðar að því, að það verði teknar til greina umsóknir, sem berast kunna fyrir 1. maí 1962. Það er vitað mál, að vegna þeirrar óvissu, sem ríkjandi var í þessum efnum, létu margir bændur, — ég veit ekki, hve margir, en ég veit með vissu, að það hafa einhverjir og allmargir bændur því miður látið það vera að sækja innan tilskilins tíma um þessi lán. Það má segja, að það sé illa farið, og það má segja, að það séu mistök af þeirra hálfu að hafa ekki gert þetta. En þó að svo sé, þá sýnist mér, þegar litið er til allra málavaxta og þeirrar óvissu, sem lengi vel var ríkjandi í þessum efnum, fyllsta ástæða til þess að koma til móts við þessa menn og gefa þeim enn færi á því að sækja. Og ég get ekki séð, að þetta þurfi að valda neinum vandkvæðum, vegna þess að það er auðvitað hægt að halda áfram að vinna að þeim lánbeiðnum, sem fyrir liggja, og hægt að fara að afgreiða þau lán, þó að það sé tekið á móti nokkrum til viðbótar. Ég býst við því, að þegar á heildina er litið, geti hér til viðbótar ekki verið um mjög stóra upphæð að ræða. Og ég tel það fullkomið sanngirnismál, að þessum mönnum sé liðsinnt. Ég geri raunar ráð fyrir því, að það verði gert, þó að jafnvel svo fari, að þessi brtt. væri ekki samþykkt, af því að stjórnarliðið af einhverjum ástæðum vilji alls ekki samþykkja neina breytingu við málið. Ég lét þess einmitt getið við 1. umr. hér í deildinni, að ég vildi líta svo á, að umsóknir yrðu teknar til greina, þótt síður bærust, og að ég mundi skilja þögn hæstv. landbrh. við því sem samþykki. Og ég vil þess vegna vænta þess, að hvað sem verður um þessa brtt., þá fari svo, að þær umsóknir, sem berast kunna frá bændum um lausaskuldalán eftir þennan tíma, verði teknar til greina. Hitt er auðvitað hreinlegra, að samþykkja þetta, þannig að öllum bændum megi vera ljóst, að þeir eigi rétt á því að sækja, og þurfi ekki að vera í neinum vafa um það.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um málið.