20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (705)

21. mál, lausaskuldir bænda

Gunnar Guðbjartsson:

Herra forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum, sem hafa fylgzt með almennum málum s.l. ár, að margar kvartanir hafa borizt utan af landsbyggðinni frá bændum um það, að þeirra hagur væri bágur, og þeir hafa einkum kvartað um tvennt: þá vantaði meira lánsfé og þeir þyrftu að fá hærra afurðaverð. Það getur ekki dulizt neinum, að þessar kvartanir hafa vaxið mjög nú s.l. ár, og það er bein afleiðing af þeim efnahagsráðstöfunum, sem gerðar voru árið 1960, og í framhaldi af þeim gengisbreytingunni, sem varð s.l. sumar. Þær ráðstafanir, sem voru gerðar af hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkum hennar í þessu efni, hafa komið mjög hart við bændastéttina og þá, sem í sveitunum búa. Allt, sem gert er til umbóta á jörðum, hefur hækkað gífurlega í verði. Það þarf miklu meira stofnfé til þess að rækta og byggja fyrir en áður þurfti, og rekstrarvörurnar, sem þarf til landbúnaðarins, hafa líka hækkað svo gífurlega, að afurðaverðið nægir engan veginn til þess að standa undir þeim aukna kostnaði, sem á bændurna hefur fallið í þessu tilliti.

Bændur hafa sent tillögur til úrbóta í þessum efnum til ríkisstj. og Alþingis. Þeir hafa sent þær á sína fundi, stéttarsambandsfundi og búnaðarþing, og krafizt úrbóta í þessum efnum. Og það verður að segjast, að því miður hafa þessar tillögur ekki fengið þær undirtektir hjá ráðamönnum sem skyldi, til þess að hlutur bænda væri réttur, þannig að þeir geti litið björtum augum til framtíðarinnar, enda hefur svo farið nú tvö hin síðustu ár og horfir enn svo, að það muni fækka bændum í sveitum landsins, þeim muni fækka um ca. 100 á ári. Þetta er ískyggileg þróun, sem kann að hafa áhrif á allan hag þjóðfélagsins, vegna þess að það má ekki mikið á bresta, að það verði skortur á þeim vörum, sem framleiddar eru í sveitum landsins. En samkv. áætlun, sem Stéttarsamband bænda hefur nú nýlega gert um framkvæmdir næstu 10 ár í sveitunum, er þörf á, að veruleg aukning verði í þessu efni, svo sem verið hefur, svo að fullnægt verði neyzluþörf þjóðarinnar á þessum vörum. Þess vegna er brýn nauðsyn að reyna að bæta þarna úr og reyna að treysta hag bændastéttarinnar, og það mál, sem hér liggur fyrir til umr., getur, ef vel tekst til, verið nokkur þáttur í því að treysta undirstöðu búrekstrar bænda og skapa aukna bjartsýni um framtíðina í sveitunum. En því aðeins getur það orðið, að þetta mál fái þær breytingar, sem minni hl. fjhn. leggur til á þskj. 415.

Eins og ég sagði, hafa orðið miklar hækkanir á framkvæmdakostnaði í sveitunum eftir efnahagsráðstafanirnar, sem voru gerðar 1960. Og það hlýtur að vera skylda stjórnarvaldanna að taka á sig afleiðingar þeirra verðhækkana og reyna að finna úrlausn, sem geti komið bændum að gagni, til þess að þeir geti yfirstigið þá erfiðleika. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. lét í það skína, að þessir erfiðleikar væru svo margháttaðir og fleiri en hefðu verið gagnvart sjávarútveginum, að það væri ekki fært að taka tillit til þeirra breytinga, sem minni hl. leggur hér til. Ég fæ ekki skilið, að það sé neitt örðugra að taka tillit til aðstöðu bændanna í þessu efni en aðstöðu sjávarútvegsins í sambandi við lausaskuldalán hans. Það eitt að taka inn í þetta skuldir, sem myndazt hafa vegna framkvæmda árið 1961, virðist vera alveg augljóst réttlætismál, því að aldrei var framkvæmdakostnaður meiri en einmitt s.l. ár, og lánsfé hefur ekki aukizt verulega til framkvæmdanna á s.l. ári, svo að þess vegna hljóta þeir bændur, sem hafa staðið í framkvæmdum, að vera enn verr settir en þó hinir, sem áður lögðu í framkvæmdirnar. Þetta virðist því alveg augljóst réttlætismál.

Þá er næsta brtt. minni hl. um lánveitingar til fyrirtækja, sem vinna í þágu landbúnaðarins. Það hefur verið svo á undanförnum árum, að ýmis fyrirtæki, sem byggð eru upp á vegum landbúnaðarins til þess að vinna úr landbúnaðarvörunum, hafa ekki átt kost á nægilegum lánum til sinna stofnframkvæmda. Hví þá ekki að taka það með í þessu tilliti líka, eins og hliðstæð fyrirtæki nutu fyrirgreiðslu, þegar sjávarútveginum var veitt þessi aðstoð? Ég held, að það sé ekki nema sjálfsögð réttlætiskrafa að fara fram á það, að slíkt verði gert, enda sjálfsagt.

Það hefur nokkuð verið talað um, að það væri ekki rétt að framlengja umsóknartíma um þessi lán, vegna þess að bændur hefðu átt að sækja um lánin í fyrrasumar. Þegar brbl. um þetta efni voru birt, fögnuðu margir bændur þessum lögum og vonuðu, að í þeim fælist sú lausn, sem þeir höfðu vonazt eftir í þessu efni. En þegar þeir fóru að kynna sér þetta með því að leita upplýsinga hjá Búnaðarbankanum og þeim aðilum, sem gerst máttu vita um framkvæmd málsins, kom berlega í ljós, að það var ekki tryggt, að þeir gætu fengið þessi lán, vegna þess að þeir yrðu sjálfir að selja skuldabréfin, sem þeir áttu að fá í þessari fyrirgreiðslu. Þá fóru bændurnir að leita til þeirra fyrirtækja, þar sem þeir skulduðu. Mér er kunnugt um það úr mínu héraði, að bændur leituðu til verzlana og sparisjóða og spurðust fyrir um það, hvort þessar stofnanir mundu taka bréfin upp í skuldir. Það voru til fyrirtæki, sem svöruðu þessu jákvætt, en hin voru miklu fleiri, sem svöruðu þessu neikvætt og sögðust ekki mundu taka skuldabréfin, og ég veit, að hv. frsm. meiri hl. fjhn. er kunnugt um slíkar stofnanir í mínu héraði, sem hafa neitað að taka bréfin upp í skuldir. Og þegar svo var komið, að þeir skuldareigendur, sem bændur skulduðu, neituðu að taka við bréfum þessum, sem fyrirhugað var að láta í þessu efni, þá hættu margir við að sækja um lánin, töldu það þýðingarlaust. Nú er það svo, að margir bændur vildu ekki una þessu og trúðu ekki öðru en þessu yrði breytt þannig, að landbúnaðurinn nyti sama réttar og sjávarútvegurinn, og töldu fullvíst, að Alþingi mundi breyta þessu. Þess vegna var það, að á aðalfundi Stéttarsambands bænda í sumar, þegar rætt var um þessi mál, var gerð fyrirspurn til landbrh. um það, hvort slík breyting mundi verða gerð. Hann svaraði því til, að þetta væri ekki í brbl., og hann hagaði orðum þannig, að ekki varð skilið öðruvísi af fulltrúum þar en að þetta mundi ekki verða gert. Þetta mun líka hafa dregið úr því, að bændur sæktu um lánin, því að fulltrúar voru þarna af öllu landinu og úr öllum héruðum, og þeir munu hafa sagt frá svörum landbrh. um þetta efni á aðalfundi Stéttarsambands bænda heima í héruðunum. Nú þegar búið er að semja við Seðlabankann og viðskiptabankana, þ.e. ríkisbankana, um, að þeir taki þessi bréf, virðist ekkert eðlilegra og reyndar sjálfsagt réttlæti að gefa bændum kost á því að sækja um aftur. Og ég verð að taka undir það með hv. þm. Ólafi Jóhannessyni, að ég vil trúa því, að bankinn sem slíkur taki við umsóknum hér eftir, sem kunna að berast, þó að jafnvel þessi brtt. yrði ekki samþykkt.

Þá kemur að því atriði, sem líka hefur verið mjög mikið rætt um, hvort eigi að lána út á vélar. Það mun vera flestum kunnugt, sem eitthvað þekkja til í sveitunum, að allverulegur hluti bændanna er leiguliðar. Árið 1959 voru 917 leiguliðar á ríkisjörðunum, og fast að því fjórði hluti allra bændanna var leiguliðar. Ég veit ekki, hvort þessar skýrslur hafa verið birtar, en á einu þskj., sem hér liggur fyrir, í sambandi við frv. um breyt. á lögum um ættaróðul, er einmitt sagt frá því, að það séu 917 leiguliðar á ríkisjörðum í árslok 1959. Hvernig eiga nú þessir menn að fara að? Nú hef ég heyrt og hef það eftir fullgildum umboðsmanni ríkisins, að ríkið muni ekki veita veðleyfi á ríkisjörðum í þessu skyni. Hvernig eiga þessir menn að fara að? Á að synja þeim um lán, af því að þeir hafa ekki fasteignaveð til að setja fyrir þessu? Ég held, að það sé ekkert réttlæti í því að neita þessum mönnum um lán. Oft eru þetta fátækustu mennirnir, sem hafa ekki getað keypt jarðir, en búa á ríkisjörðum eða öðrum leigujörðum. Ég held því, að það sé sjálfsögð réttlætiskrafa og stjórnarflokkarnir geti í raun og veru ekki skorazt undan því að samþykkja það, að veitt verði lán út á vélar. Hitt er svo rétt, að það má vera, að það þurfi að vera styttri lánstími, þegar vélar eru að veði, því að þær endast ekki svo lengi, að þær geti verið veðhæfar eins lengi og fasteignir.

Þá er komið að því atriði, sem þó mest hefur verið rætt um, það er vaxtakjörunum. Landbúnaðurinn er með þeim hætti, að hann þarf að festa fé til langs tíma og þarf mikið stofnfé. Ræktunin er þess eðlis, að hún getur ekki svarað arðinum eins fljótt og t.d. fiskibátur, sem fer út á sjóinn og sækir aflann þangað. Þess vegna getur hún náttúrlega ekki skilað vöxtum af sínu kapítali eins fljótt og t.d. sjávarútvegur og ýmsar aðrar atvinnugreinar. Þess vegna er eðlilegt og rökrétt, að landbúnaðurinn hafi lægri vexti af sínum stofnlánum en aðrir atvinnuvegir, sem geta skilað þessu fljótar til framleiðenda. Það er því allt, sem mælir með því, að landbúnaðurinn hafi ekki lakari vaxtakjör en sjávarútvegurinn í þessu efni, og það hlýtur að vera lágmarkskrafa allra, sem unna landbúnaði, að þetta ákvæði um vaxtakjörin í þessu frv., sem hér um ræðir, verði ekki hærra en af sams konar lánum til sjávarútvegsins. Og ég fæ ekki trúað því, að stjórnarflokkarnir og hæstv. ríkisstj. fáist ekki til að breyta þessu á þann veg og skapa landbúnaðinum jafnrétti í þessu efni, því að það mun sýna sig, ef landbúnaðinum verður mismunað í þessu efni, þá mun enn halda áfram að skapast ótrú á framtíð hans, og það getur verið skaði, ekki aðeins fyrir bændurna, sem fyrir þessu verða, heldur fyrir þjóðfélagið allt, og það er þjóðarvoði, ef svo fer, að landbúnaðurinn dregst verulega saman frá því, sem nú er. Af þessum ástæðum vil ég mælast til þess, að hv. deild samþykki þær brtt., sem liggja fyrir á þskj. 415, og ég er sannfærður um það, að ef þær verða samþykktar, þá muni það verða landbúnaðinum og þjóðinni allri til hags.