20.03.1962
Efri deild: 67. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

21. mál, lausaskuldir bænda

Frsm. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Það eru aðeins tvö atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl. (MJ), sem ég vildi minnast á. Hv. frsm. sagði, að ég hefði sagt, að samningar við bankana hefðu tekið óeðlilega langan tíma. Ég held, að ég hafi ekki sagt, að þeir hafi tekið óeðlilega langan tíma, heldur hitt, að þeir hefðu tekið langan tíma. Og það held ég að sé staðreynd. Og ég benti á þennan langa tíma sem sönnun fyrir því, hversu þetta mál hefði lengi allt verið óvíst, og ástæðu fyrir því, að bændur máttu vera í óvissu um þetta mál. Og það var raunar rökstutt enn rækilegar hér áðan af hv. 1. þm. Vesturl. (GGuðbj), sem minntist á það, að hæstv. landbrh. hefði mætt á aðalfundi Stéttarsambands bænda og hefði þá verið spurður um þetta mál og hefði ekki getað gefið nein fyrirheit þar, eftir því sem hv. 1. þm. Vesturl. upplýsti hér áðan, þannig að það fer ekki á milli mála, að það var lengi vel mjög óvíst, hver afdrif þetta mál mundi fá, og hæstv. ráðherra gat skiljanlega ekki sagt neitt ákveðið um það, þegar hann vissi ekki, hvernig þessir samningar við bankana mundu takast, og þar sem af bankanna hálfu var litið svo á, eftir því sem hv. frsm. meiri hl. hefur upplýst, að þeir gætu ekki tekið neina afstöðu í þessu máli, fyrr en það lægju fyrir upplýsingar um, hversu miklu næmu þær fjárhæðir, sem um væri sótt. Það ber því allt að sama brunni í því efni.

Annað atriði í ræðu hv. frsm. meiri hl., sem ég aðeins vildi víkja að, er sú staðhæfing hans, staðhæfing, sem reyndar kom fram hjá hæstv. landbrh. á fyrra stigi þessa máls, að þegar á allt væri litið, yrði að telja, að bændur byggju ekki við lakari kjör á þessum lausaskuldalánum en sjávarútvegurinn. Það er ákaflega erfitt að átta sig á því, á hverju slík staðhæfing er byggð, þar sem það liggur fyrir um vextina, það liggur fyrir um veðin og það liggur fyrir, að landbúnaðarfyrirtækin fái ekki lán með sama hætti og vinnslufyrirtæki sjávarútvegsins. Ég hef ekki heyrt, að það væru færð nein veruleg rök fram fyrir þessari staðhæfingu, önnur en þau, sem komu fram hjá hv. frsm. meiri hl. hér áðan. Og mér skildist, að þau rök, sem hann vildi bera fram til réttlætingar þessari staðhæfingu sinni, væru þau, að bændur mundu losna við miklu meiri lausaskuldir en útvegsmennirnir, að það hefði ekki verið tekinn nema lítill hluti af lausaskuldum sjávarútvegsins, en bændur mundu losna við allar sínar lausaskuldir. Ég held, að hann hafi sagt þetta. En það finnst mér nokkuð mikið sagt. Það má að vísu vel vera, að sjávarútvegsmenn hafi ekki losnað við allar sínar lausaskuldir. Mér er kunnugt um, að viss fyrirtæki hafa ekki fengið lán í þeim skuldaskilum vegna þess, að fjárhagur þeirra þótti slíkur, að það var ekki talið fært að lána þeim. En ég held, að því fari víðs fjarri, að bændur losni við allar sínar lausaskuldir, ef þetta frv. fer út úr þessari hv. d. svo úr garði gert sem það er nú. Það eru í fyrsta lagi lausaskuldirnar, sem myndazt hafa 1961. Þær vil ég halda að séu ekkert smáræði. Þær koma þó ekki með. Þeir hafa þær áfram. Í öðru lagi eru það þeir bændur, sem hafa ekki sótt, ef það væri meiningin, að þeir sætu með allar sínar lausaskuldir óafgreiddar, sem ég vona að ekki sé meiningin og hef áður tekið fram, heldur verði nú séð í gegnum fingur við þá, þó að þeir hafi ekki sótt. Og í þriðja lagi er það alveg ljóst og liggur ljóst fyrir, að sú fyrirgreiðsla, sem samið hefur verið um við bankana, tekur ekki til skulda við einstaklinga. Það er alveg skýrt og ótvírætt tekið fram í orðsendingu, sem Búnaðarbankinn hefur sent frá sér til skuldareigenda. Það verður því ekkert um það villzt, að það er náttúrlega ómögulegt að halda því fram, að með þessu frv. séu bændur leystir undan öllum lausaskuldum og að það leysi öll vandræði í þessu sambandi. Ég verð að segja það, að ég hef sem sagt ekki heyrt önnur rök fyrir því, að þegar allt kæmi til alls, væru það hagstæðari kjör, sem bændum væru búin með þessu lausaskuldalánafrv., heldur en útvegsmönnum. Það væri fróðlegt að heyra þau rök, sem fram væru færð fyrir því, að þessi lán séu hagstæðari bændum en útvegsmönnum. Ég verð að álíta, að þangað til ég heyri þau rök, þá séu það aðeins órökstuddar staðhæfingar, sem lítið gildi hafa.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar. Það var aðeins þetta, sem hv. frsm. meiri hl. lagði allmikla áherzlu á, að það mundi ekki vera hægt að fara að bæta við neinum upphæðum hér, vegna þess að það væri búið að semja um þetta og þeir samningar væru allir miðaðir við þessar upphæðir, sem nefndar hefðu verið í því sambandi, og því mundi ekki verða hægt að breyta. Ég held, að þetta séu frekar haldlítil rök, því að sannleikurinn er sá, að þó að þessar upphæðir liggi fyrir, hverju umsóknirnar nema, þá er það enn ókannað, að ég held, hve mikið af þeim verður tekið til greina, og þess vegna nokkuð óvíst, hver afgreiðsla þeirra verður, þó að það mætti segja eftir þeim upplýsingum, sem þar lægju fyrir, hvert gert væri ráð fyrir að hámark yrði. En í því sambandi vil ég aðeins taka fram, að í því samkomulagi, sem fyrir liggur og bréf er ritað um frá Seðlabankanum, er hvergi nefnd nein upphæð, enda fæ ég satt að segja ekki skilið, að það skipti höfuðmáli í þessu sambandi, hver upphæðin er, vegna þess, eins og ég hef tekið fram áður, að það er ekki gert ráð fyrir, að það komi neitt nýtt fé út í sambandi við þessi mál, þessar lánveitingar, þar er aðeins um að ræða tilfærslu á lánum. Ég fæ því ekki séð, að það geti verið svo mikið höfuðatriði sem hv. frsm. meiri hl. vildi vera láta, hver upphæðin er í þessu sambandi. Og hvað sem því líður og þótt einhverjir annmarkar kunni að vera á þessu, eins og hann var nú að tíunda, þá minni ég enn og aftur á, að þeir annmarkar þóttu ekki standa í vegi fyrir því, að það væri fyrir fram hægt að leggja þá skyldukvöð á stofnlánadeild sjávarútvegsins við Seðlabankann að breyta bankavaxtabréfum sjávarútvegsins, þ.e.a.s. veita þau lán, sem þar var um að tefla, og þó var talað í því sambandi um miklu hærri upphæðir en nokkrum hefur dottið í hug varðandi lausaskuldalán landbúnaðarins. Ég fæ ekki séð, að það hefði verið nokkur goðgá að ráða þessum málum til lykta með hliðstæðum hætti og setja á stofn við Seðlabankann slíka stofnlánadeild landbúnaðarins, sem hefði veitt svipaða fyrirgreiðslu við lausaskuldalán landbúnaðarins og stofnlánadeild sjávarútvegsins hefur gert við lausaskuldalán sjávarútvegsins.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta frekar, herra forseti. Það voru ekki í ræðu hv. frsm. meiri hl., held ég, nein þau atriði, sem gáfu tilefni til þess að vera tekin sérstaklega til athugunar.