05.02.1962
Efri deild: 38. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

132. mál, almenn hegningarlög

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Með þessu frv. er lagt til, að heimild til að fresta ákæru sé flutt frá dómsmrh. til saksóknara og eins þau atriði, sem undir dómsmrh. hafa heyrt varðandi nokkur atriði í sambandi við skilorðsbundna dóma. Það má auðvitað nokkuð um það deila, hvort eðlilegra sé, að þetta vald haldist þar, sem það hefur verið, eða sé fengið saksóknaranum, en þar sem saksóknari hvort eð er þarf að kynna sér málin og það er óhægara fyrir dómsmrn., eins og nú til háttar, eftir að málin eru komin almennt í hendur saksóknara, að láta nógu rækilega athugun fara fram, þá þykir eðlilegra, að valdið sé í þessum tilfellum fengið saksóknara ríkisins.

Enn fremur er lagt til, að 2. mgr. 61. gr. hegningarlaganna falli niður. Þetta ákvæði er nú orðið úrelt, á ekki lengur við, og er þess vegna nánast um eins konar leiðréttingu að ræða.

Í nokkrum öðrum tilfellum í hegningarlögunum er ætlazt til þess, að dómsmrh. haldi því sérstaka valdi, sem honum hefur verið fengið í sambandi við ákvæðin um málshöfðun. Þarna er um að ræða sértilvik, en eðlilegra þykir, að þetta vald verði þar, sem það hefur verið, en færist ekki til saksóknara.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.