16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (741)

130. mál, eftirlit með skipum

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Hæstv. forseti. Frv. það, sem er fyrst á dagskránni, og næstu tvö frumvörp, eru öll um sama efni, þ.e.a.s. eins konar leiðréttingar í þá átt að láta saksóknara ríkisins fá vald, sem enn er í höndum dómsmrn. eða dómsmrh., en betur þykir fara á, að saksóknari, úr því að embætti hans hefur verið stofnað, fari með, en það haldist ekki hjá ráðherranum. Auk þess eru í þessu frv., sem nú er til umr., og í frv. um breytingu á hegningarlögunum sjálfsagðar leiðréttingar á öðrum atriðum laganna, en þess eðlis, að ekki er ástæða til þess að fjölyrða um þær. Þessi þrjú mál hafa öll fengið afgreiðslu hv. Ed., voru þar samþykkt í einu hljóði, og vonast ég til þess, að svo fari einnig hér. Ég sé ekki ástæðu til þess að tala um hvert frv. fyrir sig, heldur læt þessa framsögu nægja með þeim öllum og leyfi mér að leggja til, að að umr. lokinni verði þeim vísað til 2. umr. og hv. allshn.