16.02.1962
Neðri deild: 50. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 761 í B-deild Alþingistíðinda. (778)

146. mál, almannatryggingar

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Hæstv. forseti. Rétt fyrir áramótin síðustu, eða 30. des., var gert bráðabirgðasamkomulag milli læknasamtakanna í Reykjavík og Sjúkrasamlags Reykjavíkur um það, að samningar þeir, sem í gildi voru þeirra í milli, skyldu framlengdir um þriggja mánaða skeið til 1. apríl n. k. og tíminn þangað til notaður til þess að reyna að ganga frá endanlegum samningum. Þessi bráðabirgðasamningur, sem gerður var, felur ekki í sér neinar verulegar breytingar umfram það, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En í því er gert ráð fyrir, að viðtalsgjöld og vitjunargjöld, sem læknar taka beint af sjúklingum, verði hækkuð, viðtalsgjaldið úr 5 kr. í 10 kr. og vitjunargjaldið úr 10 kr. í 25 kr. Þessi gjöld hafa verið óbreytt síðan 1955, að ég ætla, og eru tekin upp í almannatryggingalögin frá 1956, og þess vegna þarf að breyta þeim ákvæðum, ef þetta á að koma til framkvæmda, og það er það, sem þetta frv. fer fram á.

Ég skal geta þess, að það hefur verið flutt annað frv. af hálfu heilbrmrh. um breytingar á þessari sömu grein, sem eru miðaðar við nokkuð annað og eru þar að auki skilorðsbundnar, nokkuð tengdar við breytingar á læknaskipunarlögunum, sem einnig voru fluttar um sama leyti, og þótti þess vegna nauðsynlegt að flytja þetta frv., þó að hitt frv. væri fram komið, enda óvist um framgang þess. Ég hafði heitið því, bæði stjórn Sjúkrasamlagsins og stjórn læknasamtakanna, að freista þess að greiða göngu málsins í gegnum þingið, ef mögulegt væri að flýta því, því að eftir því er beðið, og vildi ég því fara fram á það við hæstv. forseta, að þessu máli yrði flýtt eins og tök eru á.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. heilbr.- og félmn.